10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

363. mál, lækkun vaxta

Pétur Ottesen:

Það hefir verið viðurkennt, að þessi till. sé að efni til algerlega hin sama og borin var fram á þinginu 1927. Hafi hún verið formleg þá, er hún það eins nú. — Ég sé, að hv. þm. Mýr. hristir höfuðið, en ég skal rökstyðja það. Hvaða breyting hefir verið gerð? Valdinu skipt milli bankaráðs og stjórnar. En fjmrh. er yfirmaður beggja nú, eins og hann var áður yfirmaður bankastj. Á því er þá ekki nein breyting.

Ég vildi benda á, að með þessum lögum, sem gáfu bankaráðinu völd þess, ætlaði landsstjórnin að ná betra taki á bönkunum. Ég get vitnað til þess, sem mér hefir verið sagt eftir hv. 2. þm. Árn. á fundi austanfjalls. Hann sagði, að Framsóknarflokkurinn hefði breytt Landsbankalögunum, til þess að hann gæti hækkað vextina. Þannig leit hann á, að stj. hefði sterkari tök en áður í þessu efni. Hafi þessi till. verið formleg 1927 og gagnleg til úrlausnar, þá er hún það engu síður nú, þegar aðstaðan er betri eftir skilningi hv. 2. þm. Árn.

Ég vil þakka hv. þm. N: Þ. fyrir þá ádrepu, sem hann gaf þeim þdm., er hér hafa staðið upp í dag hver á fætur öðrum og viljað halda verndarhendi yfir háu vöxtunum og dásama hvað þetta ástand sé gott fyrir landsbúskapinn. Ég þarf ekki að endurtaka svör við því, vegna þess að hann hefir kveðið þá svo röggsamlega í kútinn.