28.02.1930
Neðri deild: 39. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

154. mál, milliþinganefnd

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Mér skildist á svari hæstv. forsrh., að ekkert viðvíkjandi alþýðutryggingum yrði lagt fyrir þetta þing. Sömuleiðis lét hann í ljós, að sér væri ekkert kunnugt um starf kvenna hér í bæ viðvíkjandi mæðratryggingum.

Hvorttveggja þetta þykir mér næsta undarlegt, enda verð ég að segja, að mér finnst hæstv. stj. hafa verið hér undarlega illa að verki, að láta þessi mál dragast svo á langinn. Ég ætla það hafi verið á þinginu 1928, að lagt var fyrir hæstv. stj. að undirbúa frv. um alþýðutryggingar og leggja það fyrir þingið í fyrra. Af því varð ekkert, en þegar séð var, að ekkert mundi koma frá stj. á þinginu í fyrra um þessi mál, þá var áskorunin ítrekuð og því þá skýlaust lofað af hæstv. stj. að leggja fyrir þetta þing, er nú starfar, frv. um ellitryggingar. En það er ókomið enn, og eftir því, sem nú er á daginn komið, heldur ekki meiningin, að það komi á þessu þingi.

Ég drap á það áðan, að það mundi örðugra í framkvæmdinni og kostnaðarsamara að hafa margar sértryggingar en sameiginlegar alþýðutryggingar. Þess vegna vona ég, að úr því sérstakt frv. um ellitryggingar enn ekki er fram komið, þá verði nú horfið að því ráði að undirbúa fullkominn lagabálk um hinar ýmsu greinar alþýðutrygginga.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. stj. vilji ræða þetta mál fyrr en það kemur aftur frá nefnd. Þó vildi ég nú spyrja hæstv. forsrh., hvort sú undirbúningsvinna, sem hafin er, eða sú „statistik“, sem safnað hefir verið, mundi ekki geta komið að notum við undirbúning fleiri trygginga en ellitrygginga einna. Mér hefir verið sagt, að svo muni vera, og það af manni, sem fróður er um slíka hluti. — Hæstv. forsrh. hefir verið býsna tómlátur í ellitryggingarmálinu, eins og ég áður sagði. En hann virðist glöggt hafa séð nauðsyn annara trygginga. Í fyrra barðist hann fyrir að koma á búfjártryggingum fyrir bændur, til að tryggja naut þeirra, hesta og aðra gripi. Þessar tryggingar eru nauðsynlegar og sjálfsagðar. En mér finnst skjóta dálítið skökku við, að ganga framhjá því, sem hlýtur þó að verða þyngst á metunum og velferð alls almennings veltur á, en það er að tryggja fólkinu bætur fyrir missi á starfsorku sinni, hvort sem hann stafar af veikindum, slysum eða elli. Slíkar tryggingar eru margfalt þýðingarmeiri og nauðsynlegri en gripatrygging, þótt góð sé.

Þegar ég flutti till. í fyrra, þá lét ég þess getið, að mér þætti fara vel á því, að árið 1930 væru sett lög um alþýðutryggingar. 1930 er talið merkisár. Betri minning eða þjóðinni kærkomnari um þúsund ára afmæli Alþingis getur ekki en þá, að Alþingi setji lög um alþýðutryggingar, til þess að létta af 4/5 hlutum þjóðarinnar því algerða öryggisleysi, sem hún ný býr við, ef heilsan eða starfsþrekið bilar. Einmitt á þann hátt er 1000 ára afmælis Alþingis bezt minnzt.