05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3384)

154. mál, milliþinganefnd

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir leitt, að enginn skuli vera við úr hæstv. stj., því að ég hefi skilið hæstv. forsrh. svo, að hann væri að láta vinna að þessum málum. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst þessar milliþinganefndir fara að verða nokkuð tíðar, og eftirtekjurnar ekki svo miklar, að ástæða sé til að fara að bæta einni þeirra við. Nú má hv. frsm. þó ekki taka þetta svo, að ég mæli á móti því, að þessi mál séu rannsökuð. Mér þykir bara ástæðulaust að láta skipa mþn. til þess. Stj. getur látið rannsaka þetta eins og henni sýnist. Og ég skil ekki annað en að hv. flm. trúi þeirri stj., er hann styður, til að gera það. Ef þáltill. verður samþ., þá óttast ég, að það kosti miklu meira fé að framkvæma þessa rannsókn, því reynslan sýnir, að allt þetta nefndafargan er æðidýrt. Á rúmum tveimur árum hefir verið eytt í slíkar nefndir um 100 þús. kr., og þó óbeinlínis kostað miklu meira. En eftirtekjan hefir verið rýr. Ég hélt því, að hv. flm. mundu geta látið sér nægja, að þessu máli væri vísað til stj., ef hún lýsti því yfir, að hún léti rannsaka þetta fyrir næsta þing. Og ég vil beina því til hv. frsm., hvort hann mundi ekki geta sætt sig við slíka rökstudda dagskrá, ekki sízt fyrir þá sök, að ég hygg, að stj. sé að láta rannsaka þetta.