05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

154. mál, milliþinganefnd

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil fyrst leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Skagf., að við jafnaðarmenn séum stuðningsmenn stj. Honum er vel kunnugt um, að við erum það ekki. Við höfum aðeins látið stj. hlutlausa.

Hvað rannsókn á tryggingarmálunum viðkemur, þá er mér kunnugt um það, að annar þeirra hérlendu manna, sem hafa lokið prófi í þeim fræðum, er að athuga ellitryggingar fyrir stj. og hefir unnið að því máli. En þetta verk hefir þó ekki sótzt fljótar en það, að enn er ekkert frv. tilbúið, sem hægt sé að leggja fyrir þetta þing. Þetta mál er ekkert nýtt hér á þinginu. Það hefir verið afgr. með þáltill. og rökst. dagskrá bæði til núv. og fyrrv. stj. En árangurinn er enginn. Af þessu er það skoðun mín, að í þetta mál verði að setja mþn. Eins og það er sjálfsagt að hafa tryggingarfróðan mann til aðstoðar þessari n., þá er það og nauðsynlegt að hafa einhverja aðra menn, sem líta á pólitísku hlið þessara mála. Ég álít það líka betra og að starfið muni verða leyst betur af hendi, ef fleiri menn vinna að því en þessi eini maður, þó sérfræðingur sé. Ég get því ekki fallizt á rökst. dagskrána. En af því hv. þm. kveðst þessu máli hlynntur, þá vona ég, að hann samþ. þáltill. Þessi mál eru orðin svo langt á eftir tímanum hjá okkur, að þau þurfa skjótrar úrlausnar við.

Ég vil geta þess, að ástæðan til þess, að við komum fram með þáltill. í þessu máli, en ekki með frv., er sú, að það er svo mikil vinna við að semja slíkt frv., að það er tæplega á færi einstakra þm., svo í lagi sé. En vitanlega verður það þó gert á þann hátt, ef það fæst ekki gert fyrir opinbert fé.