05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

154. mál, milliþinganefnd

Jóhann Jósefsson:

Ég vil aðeins láta það í ljós, að þótt ég sé sammála ýmsum hv. þdm. um hið svonefnda nefndafargan og að í mörgu falli megi segja, að það keyri úr hófi, þá verði þó í hverju einstöku tilfelli að gera sér grein fyrir þörf þeirra verkefna, sem þeim er falið, að leysa af hendi. Og þótt segja megi, að stj. hefi skipað of margar n., er það ekki nægileg ástæða fyrir því, að ekki sé rétt að skipa slíkar n., þegar um þýðingarmikil mál er að ræða, þó n. séu stjórnskipaðar, ef það er gert að vilja þingsins.

Það er nú svo um þessi mál, sem hér um ræðir, að þeim er yfirleitt skammt á veg komið, og óskir manna hníga yfirleitt í þá átt, að meira sé gert fyrir þau en verið hefir. Hitt getur menn aftur á móti greint á, hvað langt beri að ganga í því að koma tryggingum á.

Ég held, að öllum beri saman um, að sérstök nauðsyn sé á sjúkra- og ellitryggingum, og ég fyrir mitt leyti álít þörfina þar mjög aðkallandi. Hinsvegar er ég því andvígur, að farið verði að innleiða hér atvinnuleysistryggingar með sama fyrirkomulagi sem erlendis. Það er annað mál, þótt ríkið reyni að tryggja verkamönnum vinnu, en það má gera á annan hátt.

Mér er kunnugt um það, að margir af mínum kjósendum hafa mikinn áhuga fyrir þessum málum, og vil ég því, að þau verði sem bezt undirbúin, áður en farið verður að setja löggjöf um þau, ekki sízt þar sem vitanlegt er, að tryggingarlöggjöf annara þjóða, sem hafa margra ára reynslu í þessum efnum, hefir reynzt mjög ábótavant. Má í því sambandi minna á bækling um tryggingarmálin eftir íslenzkan lækni, sem dvalið hefir langvistum erlendis, þar sem dregin eru saman nokkur dæmi þess, hversu þessi löggjöf hefir verið misnotuð. Vildi ég benda á þetta til athugunar þeim, sem fá þessi mál til meðferðar, hvort sem það verður mþn. eða hæstv. stj., af því að við samning slíkra laga ber okkur að taka tillit til þess, sem orðið hefir öðrum þjóðum til ásteytingar, svo að við flöskum ekki á því sama og þær. Það vill oft verða svo í málum, sem stuðla að alþjóðarheill, að ýmsir verða til að misnota þau. Á það ekki einungis við um tryggingarmálin, heldur einnig aðra „sociala“ löggjöf.

Ef ég mætti gera nokkra till. í þessu máli, vildi ég leggja til, að Læknafélag Íslands yrði kvatt til ráða um sjúkratryggingarmálin, því að helzt eru það læknarnir, sem einhverja þekkingu hafa á því, hvernig þeim verður bezt hagað.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tel mér skylt að stuðla að því, að sjúkra- og ellitryggingarmálunum verði sem fyrst komið í viðunandi horf, og mun ég því greiða atkv. með því, að mþn. verði falið að undirbúa þessi mál, þó að ég á hinn bóginn játi, að á öðrum sviðum hafa verið skipaðar margar óþarfar n. En þetta mál á það fyllilega skilið, að því sé gaumur gefinn.