05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

154. mál, milliþinganefnd

Magnús Jónsson:

* Hv. frsm. sagði eitthvað á þá leið, að þetta mál væri eitt af þeim nútímamálum, sem við Íslendingar værum lengst á eftir í. Aumingja Ísland! En það er þó einn kostur, sem þessu fylgir, ef við hefðum vit á að hagnýta okkur hann og læra af reynslu annara þjóða í þessum efnum og forðast þau víti, sem þær hafa fengið að kenna á.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvaða aðferð sócíalistar beita til þess að berjast fyrir málum sínum, meðan þeir koma ekki fram höfuðáhugamálum sínum, eins og t. d. þjóðnýtingunni. Þeir hafa búið sér til ákveðna starfsskrá um það, hvernig þeir eigi að herja inn á hið kapítalistíska þjóðskipulag, til þess að gera atvinnufyrirtækin sem ótryggust og eignarréttinn að nafninu tómu. Þessi starfsskrá er eins í öllum löndum og sama hvaða sauðarhöfuð er á foringjunum: Þeir vita strax, hvort mál er gott eða illt, eftir því sem fyrirskipað er í starfsskránni. Þeir þurfa svo sem ekki að rannsaka málin sjálfir, heldur fara þeir eingöngu eftir því, hvort þau eru á alþjóðastefnuskrá sócíalista eða ekki.

Eitt af þeim málum, sem sócíalistar nota til agitationa, eru tryggingarmálin. Eftir því sem sócíalistar eru sterkari í löndunum, eftir því er meira um allskonar tryggingar. Og í þeim löndum, sem sócíalistar hafa farið lengi með völd, eins og t. d. í Þýzkalandi, má segja, að allt sé fjötrað og flækt í eintómum tryggingum. Með þessu móti er tekið stórfé frá atvinnufyrirtækjunum, sem ella færu í sjóði þeim til eflingar, þannig að afleiðingin verður sú, að verkamenn fengju betra kaup, ef fyrirtækin fengju að vera í friði fyrir ríkinu. Annars er ég ekki undir það búinn að ræða þetta mál frá almennu sjónarmiði, en varð hinsvegar að gera grein fyrir atkvæði mínu, þar sem ég mun greiða atkv. á móti þessari till.

Það, sem einkennir þetta mál eins og ýms önnur mál jafnaðarmanna, er það, hvað það er fallegt á pappírnum. En reynslan um þessar tryggingar er hinsvegar ekki eins góð og þær sýnast fallegar í hillingum morgunroðans úti í himingeimnum. Hefi ég séð bækling eftir íslenzkan lækni um það, hversu þessar tryggingar hafa reynzt vel — eða öllu heldur illa — erlendis. Ég skal játa það, að þessi bæklingur er ekki með öllu laus við að vera hlutdrægur læknunum í vil, en ég held þó, að niðurstöðum þessa læknis, sem hefir dvalið lengi í París, verði ekki haggað í neinu verulegu. Hann sýnir fram á það, hversu sjúkratryggingarnar séu demoraliserandi, með dæmum úr reynslu sjúkrahúsanna í þessum efnum. Þeim tryggðu batnar verr og seinna en þeim ótryggðu. Það tekur helmingi lengri tíma að græða fótbrot á tryggðum manni en þeim, sem er ótryggður fóturinn, svo að ég nefni eitt af fjölmörgum dæmum læknisins. Í sömu átt bendir desembersýkin svonefnda. Það skellur yfir atvinnuleysi, fólkið leggst veikt hrönnum saman, svo að til stórra vandræða horfir. Nú hafði ekki borið á neinum veikindafaraldri fyrir atvinnuleysið, en þar sem svo rammt kvað að þessu eftir að það skall yfir, sá ríkisstj. sér ekki annað fært en að skerast í leikinn. Gaf hún út tilkynningu um það, að allir þeir, sem veikir væru, skyldu skoðaðir — ég man ekki töluna, en þeir skiptu milljónum —, og niðurstaðan varð sú, að meira en helmingurinn reyndist — ekki veikur. En fólkið hafði borgað í þessa sjóði og vildi fá sitt, ekki sízt þar sem það fékk helmingi meira en það hafði lagt fram.

Ég vil láta rannsaka þetta mál gaumgæfilega. Samkv. till. á einungis að skipa mþn. til þess að undirbúa og semja frv. til l. um sjúkra-, elli-, örorku-, slysa- og mæðra- eða framfærslutryggingar. Minna má svo sem ekki gagn gera!

Í till. liggur þannig bein ákvörðun um, að frv. um þessi efni skuli samin. Slíkt get ég ekki gengið inn á. Hitt væri annað mál, þó að n. yrði skipuð til þess að athuga, að hve miklu leyti hinar ýmsu tryggingar væru heppilegar hér á landi.

Þá fæ ég ekki séð, að nein ástæða sé til þess, að Alþingi afsali sér þeim rétti að kjósa sjálft þessa n. Mér sýnist, sem hæstv. núv. stj. hafi skipað svo margar n. upp á sitt eindæmi, að Alþingi megi ekki lengur við það una. Áður fyrr var það venjan, að Alþingi skipaði sjálft mþn., en síðan hæstv. núv. stj. tók við völdum, hefir algerlega verið gengið framhjá Alþingi í þessum efnum. Er þess skemmst að minnast, þegar hæstv. dómsmrh. skipaði kirkjumálan. degi áður en Alþingi kom saman.

Ég vil leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við þessa till. og vænti, að hún fái að komast að. Er hún á þessa leið:

„Fyrsta málsgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að kjósa þriggja manna milliþingan. til þess að rannsaka, að hve miklu leyti sé rétt að koma hér á alþýðutryggingum, og undirbúa löggjöf um þau atriði tryggingarmálanna, sem hún telur heppileg“.

Þessa leið tel ég sjálfsagt að fara. Aðalatriðið í þessu máli er það, að rannsakað verði, hvort það yfirleitt er heppilegt fyrir okkur að taka upp þessa tryggingarlöggjöf, og þá hvaða greinir hennar. Slíka rannsókn er eftir atvikum rétt að fela mþn., og myndi hún þá víða að gögnum aðallega, sem gerðu Alþingi hægara fyrir með að taka ákvörðun í þessu efni. Auk þess vil ég alls ekki láta Alþingi afsala sér réttinum til að skipa þessa n. sjálft.

Atvinnuleysistryggingarnar eru stórkostleg byrði á þeim þjóðum, sem þær hafa lögleitt, og margir líta svo á, að þær séu fremur til skaða en góðs. Þessar sömu þjóðir stynja undan atvinnuleysinu, sem við sem betur fer erum lausir við enn, enda er það orðið svo mikil plága, að ekki getur aðra meiri fyrir nokkra þjóð. Við síðustu kosningar í Englandi var atvinnuleysið eitt aðalmálið, sem barizt var um. Verkamannaflokkurinn þar í landi, sem kallar sig The labour party, kenndi konservatíva flokknum um atvinnuleysið, og svo fór, að verkamannaflokkurinn sigraði við kosningarnar. En hvað tók við? Ég veit ekki betur en að flokkurinn hafi gefizt upp við að leysa þetta mál. A. m. k. er það víst, að atvinnuleysið í Englandi hefir fremur aukizt en minnkað. Reynslan varð sú um þessa sem aðrar skýjaborgir jafnaðarmanna, að hún varð ekki eins góð til að búa í og virzt hafði úti í hillingum morgunroðans.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vil endurtaka það að síðustu, að ég legg mikla áherzlu á, að það verði sem vendilegast rannsakað, hvað langt sé rétt fyrir okkur að ganga í þessum málum, og hvort það yfirleitt er heppilegt fyrir okkur að feta í fótspor annara þjóða í tryggingarmálunum.