15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Fjm. (Benedikt Sveinsson):

Vér flm. þessarar till. bárum fram samskonar till. og þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 327, í sameinuðu þingi í fyrra, en sakir mikilla þinganna komst hún aldrei til umr. Till. var upp borin í Sþ. 24. apríl, og 7. maí ákveður forseti, að fram skuli fara ein umr. 17. maí var till. á dagskrá, en var tekin út, og var þá ekki kostur vegna tímaskorts að taka hana á dagskrá aftur. Þó var svo ríkur áhugi fyrir því að ná fyrir ríkið yfirráðunum á lóðunum milli menntaskólans og stjórnarráðsins, neðan Skólastrætis en ofan lækjar, ásamt húsum þeim og mannvirkjum, er á lóðunum standa, að meiri hl. þingmanna skrifaði undir skjal í þinglok og sendi stj. áskorun um að leita samninga um kaup á þessum lóðum.

Ég skal nú fyrst gera grein fyrir, hvað oss flm. hefir gengið til að flytja þetta mál. Það er kunnugt, að skipulag Reykjavíkur er ekki eins og æskilegt væri og vera skyldi. Bærinn er byggður af nálega 26 þúsundum og hefir þanizt í allar áttir hin síðustu ár. Það er langt síðan rótin festist að þeim meinum, sem bærinn líklega verður að bera öldum saman, af því hvernig byggt var fyrst, enda hefir síðari tíminn lítið bætt úr. Það er einsdæmi í þessum bæ, að svo stórt svæði hafi verið skilið eftir autt, sem nú er ofan við Lækjargötu. Þetta belti er eitt hið fegursta í bænum. Fyrstu hús, sem þar voru byggð, voru latínuskólinn og stjórnarráðshúsið, en þar næst líklega Bernhöftsbakarí. Því næst hús Guðmundar landlæknis og loks Gimli. Þessi þrjú síðari hús standa þarna á milli „opinberu bygginganna“ tveggja, sem svo eru kallaðar á skrifstofumáli og búfræðinga, en vér flm. viljum kalla þjóðhýsi. Fyrir slík hús er hvergi fegurra stæði í bænum, og því viljum vér vernda þennan stað til grundvallar þeim. Þau mundu verða hin mesta bæjarprýði.

Svæðið liggur svo að segja í miðbæ, en þó utan við mesta skarkala hans, eins og hann er við Pósthússtræti og Austurstræti og annarsstaðar þar, sem mest er umferðin.

Ekki er beint hægt að ákveða nú, hver hús skuli reist þarna. En allir vita um mörg þjóðhýsi, sem liggur við borð að reist muni verða þegar á næstu árum. Á þessu svæði mundi vera grundvöllur handa 2–3 nokkuð stórum húsum. Mætti nefna alþingishús, sem tæplega mundi sóma sér betur annarsstaðar en þar, sem Bernhöftsbakarí er nú, eða jafnvel þar, sem sjálft stjórnarráðshúsið stendur, því að það mun ekki vera til frambúðar óbreytt. Ellegar þá hús handa háskólanum. Virðist nokkuð á hverfanda hveli, hvar því húsi sé ætlað að standa, því að ýmist er talað um að reisa háskólahús uppi á Skólavörðuholti ellegar suður við Tjörn. Enn má telja safnhús, fyrir náttúrugripasafn o. fl., sem vafalaust þarf að reisa á næstu áratugum. Og auðvitað komast þau ekki öll fyrir á þessu svæði. Þjóðhýsi standa nú báðum megin á lóðinni, stjórnarráðshúsið og menntaskólinn, og færi bezt á því, að þau og önnur ný á milli risu þar í einni breiðfylkingu í brekkunni á þessum fagra stað. Það er mjög hentugt að skipa þjóðhýsum í hvirfingu, því að margir eiga erindi við fleiri þjóðstofnanir en eina í senn. Er þá ólíkt hagkvæmara að hafa þau samstæð heldur en sitt í hverjum hluta bæjarins. — Þetta hefir dregið oss til að flytja þessa tillögu.

Hið breiða og óbyggða belti frá vestri húsalínu brekkunnar niður að Lækjargötu er sjálfkjörið til þess að setja þar skrúðreiti. Mætti þarna hafa gosbrunna til prýði, og eins mætti setja þar myndastyttur af ýmsum þjóðmæringum, skáldum og öðru stórmenni. Þannig mætti prýða þennan stað á ýmsan hátt, til fegurðarauka fyrir höfuðstað Íslands.

Á hinni nyrztu og stærstu þessara lóða standa nú gömul hús, sem ekki eru til annars en niðurrifs. Þessi staður er mjög vel fallinn fyrir þjóðhýsi, en miklu miður fyrir verzlunarhús, með því að að húsunum verður ekki komizt nema eftir Skólastræti, sem er engin umferðargata. Skólastræti var að vísu nokkuð góð gata til skamms tíma, þar sem húsalínan var alllangt frá götubrún. En nú hefir svokölluð skipulagsnefnd illu heilli látið reisa kumbalda alveg niður að götubrúninni, og þar með stórspillt Skólastræti og þeim eignum, sem að því standa. En þó er jafnframt á það að líta, að þetta hefir áhrif á verðmæti lóðanna, til hagnaðar fyrir þann, sem þarf að kaupa, að því leyti, sem verðið hlýtur að metast lægra en ella.

Ég hefi nú stuttlega lýst umhverfinu á þessum stað og vænti, að menn geti nú séð, að hin fegurstu stórhýsi bæjarins munu hvergi sóma sér betur en þarna og hvergi vera betur sett. Hitt er miklu ógöfugra, að hola þeim niður hér og þar inn á milli annara húsa, þar sem þau gætu alveg horfið fyrir stærri nýjum húsum í umhverfinu. Enda er þetta, sem ég hefi sagt, á hvers manns tilfinningu. Þegar menn koma í bæinn og líta upp til þessara húsa, verður flestum að orði: „Þarna ætti háskólinn að standa“ eða „þarna ætti alþingishúsið að vera“. — Nú segi ég ekki, að endilega þyrfti að reisa þarna annað þessara tveggja húsa. Hitt er höfuðatriðið, að staðurinn sé geymdur fyrir einhver myndarleg hús, sem reisa þarf fyrir þjóðina í heild.

Hæstv. forsrh. tók í fyrra á móti áskorun frá þingmönnum um þetta sama efni. Hefir hann tekið hana til greina, þótt hún væri ekki formlega samþ., en um þær undirtektir, er hann hefir fengið hjá umráðamönnum lóðanna, var oss flm. ókunnugt, er vér sömdum till. vora. Hæstv. ráðh. hefir falið Lárusi hæstaréttarmálfærslumanni Fjeldsted samningaumleitanir um kaup á lóðunum, og hefir hann skrifað eigendum þeirra allra: Kristilegu félagi ungra manna, Hallgrími stórkaupmanni Tulinius og Guðmundi landlækni Björnssyni. Svar hefir aðeins boriz frá K. F. U. M. Ef hæstv. forsrh. leyfir, vildi ég til skýringar mega lesa hér bréf hrm. Lárusar Fjeldsteds til hans um þetta mál. Það er dagsett 12. febr. þ. á. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt beiðni yðar, herra forsætisráðherra, hefi ég reynt að fá upplýst, fyrir hvaða verð og með hvaða skilmálum eigendur eignanna milli Bankastrætis og Amtmannsstígs, frá Lækjargötu upp að Skólastræti, vildu selja nefndar eignir, ef ríkisstjórnin skyldi óska að kaupa þær til þess að sameina hinar opinberu eignir á þessum stað.

Með því að ég gat ekki fengið nein svör við munnlegri málaleitun minni um þetta, ritaði ég eigendum 3: 1) Stjórn K. F. U. M, 2) Hallgrími Tulinius stórkaupmanni og 3) Guðmundi Björnssyni landlækni, bréf, sem dags. eru 15. janúar þ. á., svo sem meðlögð afrit bera með sér.

Ég hefi ekki enn fengið svar frá öðrum en K. F. U. M., er ég læt hér með fylgja, og sem sýnir, að ekki mun unnt að fara þessa leið.

Ástæðan til þess, að síðasta málsgrein bréfsins segir, að engin sambærileg lóð standi til boða, er þannig tilkomin, að ég, í samráði við yður, lét í ljós, að til greina gæti komið, að K. F. U. M. gæti fengið aðra lóð í skiptum á Arnarhóli, en K. F. U. M. lítur svo á, að félagið geti ekki notfært sér lóð þar.

Þar sem þannig virðist ógerlegt að fara samningaleiðina í þessu efni, er ekki önnur leið opin en sú, að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að taka eignirnar eignarnámi, og ætti það þá að gerast áður en K. F. U. M. reisir nýja byggingu á lóð sinni. Eins og stendur munu þær byggingar, er á lóðinni standa, ekki verða metnar mjög háu verði. Hinsvegar má búast við, að lóðir á þessum stað verði hátt metnar, þó hlýtur að koma til greina kvöð sú, er á lóðunum liggur, um að jafnan skuli standa óbyggt lóðarbelti við Lækjargötu.

Ég hefi talið mér skylt að tjá yður, hvar málinu er komið, ef ske kynni, að ríkisstjórnin óskaði að fá eignarnámsheimildina á þessu þingi.

Virðingarfyllst,

sign. Lárus Fjeldsted.

Hr. forsætisráðherra

Tryggvi Þórhallsson“.

Þá vildi ég og lesa svar það frá kristilegu ungmennafél., sem þarna er vitnað til. Er það dagsett 6. febr. og hljóðar svo:

„Herra hæstaréttarmálaflutningsm.

Lárus Fjeldsted

Reykjavík.

Út af bréfi yðar, herra hæstaréttarmálaflutningsmaður, dags. 15. f. m., skal yður tjáð, að stjórnir K. F. U. M. og K. F. U. K. hafa áformað og undirbúið byggingu á lóð sinni við Lækjargötu og Bankastræti, og virðist oss því, að sala á nefndri eign geti ekki komið til greina, þar eð engin önnur sambærileg lóð stendur oss til boða.

Virðingarfyllst

Fyrir hönd stjórnar K. F. U. M. í Rvík.

sign. Bjarni Jónsson“.

Af þessu sést, að K. F. U. M. hefir nú sjálft í hyggju að reisa hús á þessum stað, og er það þegar farið að búa sig undir það. Getur verið, að þessu húsi verði komið upp þegar á þessu sumri, og má búast við, að þetta yrði nokkurt stórhýsi, en það mundi eingöngu sniðið við eigendanna hæfi. Ef menn vilja ekki, að þessi staður gangi alþjóð úr greipum, eru því síðustu forvöð að heimila hæstv. landsstj. nú þegar að ná tangarhaldi á lóðinni og þeim mannvirkjum, sem þar eru nú.

Landsvæði þetta allt er nokkuð mikið að víðáttu, en það stafar af því, að allbreitt belti óbyggt er frá Lækjargötu að húsalínunni. Var spilda þessi upphaflega hluti af Arnarhóli, en þeir, sem nú eiga hús þarna — eða þeir, sem þeir leiða rétt sinn til —, hafa fengið leyfi til að hagnýta sér lóðirnar með því skilyrði, að þeir byggðu ekki neðan við húsalínu stjórnarráðshúss og menntaskóla. Þessir menn munu upphaflega ekki hafa greitt neitt verð fyrir lóðirnar. Hefi ég að vísu ekki athugað eignarheimild þeirra að þeim, en vel væri það vert rannsóknar, hvernig henni er háttað. Má vera, að það gæti haft nokkur áhrif á verð lóðanna. — Með þessu vil ég á engan hátt neita því, að þeir, sem nú eiga hús á þessum lóðum, geti verið fyllilega löglega að þeim komnir, fyrir hefð eða á annan hátt.

Er vér flm. sömdum þáltill., vissum vér eigi, að málinu væri svo langt komið, sem nú er raun á orðin, né að K. F. U. M. hefði tekið svo dauflega í málaleitanina um að selja sinn hluta af þessum lóðum.

Vér vissum því eigi, að þörf mundi vera á eignarnámsheimild til að ná þessum lóðum. Því höfum við tveir af flm., ég og hv. 1. þm. Árn., flutt viðaukatill, svo hljóðandi:

„Ennfremur heimilar Alþingi ríkisstj. að festa kaup á lóð og húseign K. F. U. M., sem er ein ofangreindra eigna, ef samningar takast, sem stj. telur viðunandi, en ella verði eign þessi tekin eignarnámi, að fenginni heimild með bráðabirgðalógum, áður ný mannvirki verði þar reist“.

Einhverjir kynnu nú að ætla, að lagaheimild þyrfti til þessa nú þegar, en þó hefir þetta verið látið nægja stundum áður, að samþykkja áskoranir til landsstj. um að gefa út bráðabirgðalög, ef á þyrfti að halda. Samkv. þeirri venju höfum við flm. viðaukatill. talið þetta nægilegt, ekki síður fyrir þá sök, að mjög er óvíst, hvort nokkurntíma þarf að taka til bráðabirgðalaganna, er K. F. U. M. sér, að ríkinu er full alvara að eignast lóðina.

Vil ég að lokum segja, að mér fyndist æskilegast, ef ekki þyrfti að koma til eignarnáms á neinni af þessum lóðum eða húseignum. Hefi ég og góða von um, að hjá því megi sneiða, þar sem annarsvegar er trúbragðafélag, sem kennir sig við kristindóm, svo að varla þarf að óttast eigingirni þeim megin. Þessi félagsskapur keypti eign sína fyrir fáum árum á 90 þús. kr. og mun engu hafa til hennar kostað, eða mjög litlu. Þykir mér sennilegt, að þessir menn láti sér nægja að sleppa skaðlausir eða vel það af kaupum sínum. Það er kunnugt um þennan kristilega félagsskap, að hann lítur meira á hina innri prýði en hið ytra prjál, og getur honum því ekki verið til muna hugleiknara að hafa samkomustað sinn á þessum stað en hverjum öðrum. Vér hinir, sem meiri erum veraldarmennirnir, lítum hinsvegar meira á hið ytra og leggjum meira upp úr því að velja byggingum vorum fagra staði og láta þær vera glæsilegar útlits. Fyrir þessar sakir vænti ég, að samningar ættu að geta tekizt um þessa lóð.

Um hinar eignirnar er það að segja, að ekki er líklegt, að þeim verði breytt mjög í náinni framtíð. Á annari lóðinni stendur nýlegt steinhús, sem varla þarf að óttast að verði stækkað mjög bráðlega. Á hinni er hús landlæknis, sem að vísu er orðið nokkuð gamalt, en þó engin ástæða til að búast við, að það verði rifið eða byggt upp nú fyrst um sinn. A. m. k. er um bæði þessi hús meira svigrúm til að átta sig á, hv að gera skuli, enda hafa engin svör borizt frá eigendum þeirra, svo að ekki er að vita, nema þeir séu fúsir til að selja húsin.

Menn fárast oft yfir því eftir á, ef einhver mistök eru gerð, og mun svo fara um þetta, ef vér látum íslenzku þjóðinni ganga úr greipum tækifærið til að eignast þennan stað fyrir fegurstu byggingar sínar. Ég veit, að komandi kynslóðir munu liggja oss mjög á hálsi, ef vér náum eigi þessum kaupum, er till. ræðir um.

Að svo mæltu fel ég Alþingi till. og vænti góðs fylgis.