15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3434)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins, út af þeirri brtt., sem fram er komin, segja það, að það er ekki hægt að líta á hana öðruvísi en sem tilraun til með krókaleiðum að smeygja sér framhjá skýlausum ákvæðum þingskapanna, og ég verð að segja, að mér þykir því verr, að það skuli vera hæstv. forseti Nd., sem gerir slíka tilraun. Því að vitanlega er hans hlutverk allra fyrst að sjá um, að þeim till., sem fram eru bornar, sé haldið innan þeirra takmarka, er þingsköp setja.

Ég gleymdi að minnast á það áðan, að hv. þm. N.-Þ. var að tala um það, að vafi gæti leikið á um eignarréttinn á þessari lóð, sem hér er um að ræða. Þetta getur verið, eða mér er ókunnugt um það; en eftir að búið er að samþ. viðaukatill., þá er Alþingi fyrir sitt leyti búið alveg að leggja sinn dóm á og taka af öll tvímæli í þessu efni, því að í till. liggur það, að semja eigi við réttan eiganda. Þeir, sem því samþ. viðaukatill., eru búnir að lýsa yfir því sem sinni skoðun, að ekki sé um neinn vafa að ræða í því efni.

Út af því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að hann hefði orðið var við það í ræðu minni áðan, sem hann hefði ekki orðið var við áður, sem kom honum undarlega fyrir sjónir, þá skal ég bara segja honum það, að ég hefi aldrei haft neina tilhneigingu til þess að opna mínar hugrenningar fyrir honum, — síður en svo.