13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Auðunn Jónsson:

Það liggja margar ástæður að brtt. minni á þskj. 87, en sú er þeirra veigamest, að ég vil alvarlega brýna fyrir hæstv. ríkisstj. að gæta hinnar allra ítrustu varfærni um vaxtakjör hins væntanlega ríkisláns. Sérstaklega ber að líta á það, að fasteignavextir hér á landi hljóta um langt skeið að miðast við vaxtahæð þessa stærsta láns, sem ríkið hefir tekið. Skiptir því mjög miklu máli, að vel takist um lánskjör og vaxtahæð þessa láns því að dýrtíðin í landinu stendur að ýmsu leyti í beinu sambandi við fasteignalánskjörin, en þau aftur miðast að verulegu leyti við vaxtakjör þau, er ríkið sætir á erlendum lánum. Húsaleiga í kaupstöðum, leiga af jörðum og margt fleira miðast beinlínis við almenn fasteignalánskjör í landinu, svo að mjög ber að gjalda varhuga við að stuðla að óhæfilegri hækkun þeirra.

Ég finn því frekar ástæðu til þess að brýna þetta fyrir núv. ríkisstj., þar eð málum vorum er nú þann veg háttað, að lítil líkindi eru til þess, að við sætum góðum lánskjörum erlendis, eftir atburði þá, sem hér hafa verið að gerast. En hinsvegar er það álit fjármálamanna, að erlendir vextir fari lækkandi í náinni framtíð. Vaxtahækkunin í Evrópu á síðasta ári varð fyrir eðlilegar orsakir; margir sáu það fyrir, að þetta myndi skella á. Hið gegndarlausa kapphlaup um stækkun og fjölgun atvinnufyrirtækja og sú fádæma bjartsýni, sem allir virtust gripnir af í Ameríku, hlaut að leiða til stórverðfalls þar. Útboð verðbréfa til nýrra atvinnufyrirtækja þar í landi og hin óvenjulega þátttaka almennings í fjárframlögum og verðbréfakaupum ýmsra fyrirtækja sýndi það, að fólk vildi heldur verja peningum sínum þannig en leggja þá í banka. Verð bréfanna steig upp úr öllu hófi og svo kom hrunið, sem varð stórkostlegra en menn höfðu almennt búizt við. Að vísu höfðu brezkir fjármálamenn sagt þetta fyrir, en bjartsýnin mátti sín meir en aðvaranir þeirra. Nú er afturkastið komið. Fólk vill nú ekki lengur eigi fé í fyrirtækjum, heldur leggja það inn í banka, og af því leiðir, að lánsstofnanirnar yfirfyllast af innstæðufé, vextirnir falla og lánsstofnanirnar í Ameríku taka að leita til annara landa, til þess að láta peningana ávaxta sig. Afleiðingin verður vaxtalækkun alstaðar, enda eru nú þegar vextir í Hollandi komnir niður í 4% og í Englandi 4½%, og fara stöðugt lækkandi. Að þessu athuguðu ætti að mega takast að fá ríkislán með 5½% vöxtum, því að sæmilega stæðar þjóðir fá venjulega lán til lengri tíma, og þá er venjan, að vextir slíkra lána eru 1—1½% hærri en þjóðbankavextir þess lands, sem lánið veitir.

Það er óþarfi nú sem stendur að leitast fyrir um lán erlendis. Dráttur sá, sem orðinn er á Íslandsbankamálinu, veldur því, að við sem stendur eigum ekki og megum ekki leita láns erlendis.

Annarsstaðar myndi það hafa verið álitið, að úr slíku máli ætti að greiða með hinum mesta hraða á annan hvorn veginn, en ekki láta allt sitja í sömu súpunni dag eftir dag og viku eftir viku. Ég hygg, að slík aðferð hljóti að vekja það álit á okkur og okkar fjármálastjórn, að ekki sé um mikla festu að ræða hjá okkur.

Annars vildi ég leyfa mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh., áður en ég afræð um það, hvort ég læt þá till., sem ég hefi borið fram, koma til atkvæða.

Það er í fyrsta lagi um það, hverjar vonir hæstv. fjmrh. hafi um lán erlendis og með hvaða vaxtakjörum. Í öðru lagi, hvað hæstv. ráðh. álítur, að við komumst af með minnsta lánsupphæð nú fyrst um sinn, vegna þess að ég álít, að við eigum, eins og nú standa sakir og trausti okkar er komið erlendis, að taka sem minnst lán að við komumst af með. Í þriðja lagi, hvort hæstv. ráðh. hefir von um lán, sem tekið væri til langs tíma, en það skilyrði fengist, að borga mætti lánið upp eftir visst árabil, t. d. eftir 5 ár, og í síðasta lagi, hvort lánstraust okkar erlendis hafi ekki beðið tjón við aðgerðaleysi þingsins í Íslandsbankamálinu.