16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

496. mál, sæsímasambandið við útlönd

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er vitanlega eitt af okkar mikilsverðustu málum að ganga vel og tryggilega frá símasambandinu við útlönd. En ég álít samt, að sá hluti af því máli, sem hér er um að ræða, nefnilega hvort við eigum að segja upp þeim samningi, sem nú gildir, sé svo sjálfsagt mál, að við getum án mikilla umr. ákveðið að segja samningnum upp. Þegar samningur var gerður síðast, munu allir, sem við hann voru riðnir, hafa litið svo á, að þegar heimild væri til þess, væri sjálfsagt að nota tækifærið og segja samningnum upp. Ég vil segja það sem mína skoðun, út frá viðtali við Gísla Ólafson landssímastjóra, að það er engin áhætta fyrir okkur að segja samningnum upp og að okkar aðstaða til samningsgerðar út á við er sterkari nú en síðast, svo að allar horfur eru á, að við getum fengið betri samning.

Það má líka minna á, að sæsímasambandið er að verða ótryggara en áður, og það ýtir líka undir nýjan samning. Þess vega finnst mér, að hvort sem við snúum okkur aftur að Stóra norræna eða reynum að semja við Marconifélagið, gefur uppsögn gamla samningsins okkur betri aðstöðu til samningsgerðar.

Tilefnið til, að þetta mál er borið fram nú, er það, að frá landssímastjóra hefir borizt erindi þessa efnis. Auk þess hefir stj. leitað álits annara símamanna, og allir ljúka upp einum munni um það, að sjálfsagt sé að segja samningnum upp. Þeir lögðu til, að farið yrði til þingsins til að fá heimild til uppsagnar, og ég áleit, að mér sem atvmrh. bæri skylda til þess. Ég vænti þess fastlega, að það orki ekki tvímælis hér frekar en innan landssímans, að stj. fái þessa heimild, og mun hún þá fela landssímastjóra og ráðunautum hans allan frekari undirbúning málsins, með tilmælum um, að öll gögn séu lögð fyrir næsta þing og ekkert spor stigið nema með fullri heimild frá Alþingi.

Ég vil segja að lokum, að ég lít ekki eingöngu á þetta mál sem viðskiptamál, heldur líka sem sjálfstæðismál. Alveg eins og við viljum taka utanríkismálin að öllu leyti í okkar hendur, er sjálfsagt að taka þetta.