16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (3454)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki fara langt út í forsögu þessa máls eða rekja aðdragandann að því, að lánið var tekið. Það kemur ekki beint við efni þessarar till., og hefir auk þess verið gert oft áður.

Ég skal ekki heldur minnast á eftirspil þessa máls, þar sem er krafa Páls Torfasonar um vangoldna þóknun fyrir milligöngu við lánið, en aðeins stikla á stærstu atriðunum, sem till. snerta, og leiða rök að því, að samþ. eigi till. og framkvæma hana.

Eins og kunnugt er, var hið nafntogaða enska lán tekið 27. ágúst 1921 með samningum milli ríkisstj. annarsvegar og tveggja enskra peningafirma hinsvegar. Undirskrifaði Sveinn Björnsson samninginn fyrir hönd þáverandi fjmrh., hv. 1. þm. Skagf.

Enska lánið hljóðaði upp á £500000 og skyldi greitt út með 15% afföllum. Auk þessa nam lántökukostnaðurinn um 1%, þannig að hin raunverulega greiðsla var 84% af sjálfri upphæðinni. Vextir lánsins eru 7% af nafnverði þess.

Þessu láni var skipt í þrjá staði. Fékk ríkissjóður £130249–15–9, Landsbankinn £88819–9–3 og Íslandsbanki £280930–15–0.

Eftirstöðvar lánsins eru sem hér segir: Hjá ríkinu £117341–18–7, hjá Landsbankanum £81545–10–2 og hjá Íslandsbanka £253090–5–2.

Svo sem kunnugt er, var með l. um stofnun Útvegsbankans samþ., að ríkið tæki á sig 3 millj. af skuldum Íslandsbanka, þannig að meiri hlutinn af þessu láni bankans færist yfir á ríkið, sem ber meginbyrðarnar, auk þess sem segja má, að þjóðin í heild sinni bæri allt saman, hvort heldur sem bankinn eða ríkið gerðu það formlega.

Við flm. þessarar till. höfum fengið sérfræðing til þess að reikna út hina effektivu vexti enska lánsins, miðað við afföllin. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að vextinir væru 9%, ef lánið stæði allan lánstímann, eða til ársins 1951. Ef við hinsvegar notum þá heimild, sem í samningnum felst, um að greiða lánið upp fyrr en lánstíminn er á enda runninn, en það er í fyrsta lagi 1. sept. 1932, nema hinir effektivu vextir 9,88%, sem orsakast af því, að ef lánið er greitt upp áður en það fellur í gjalddaga, ber að greiða það með £103 fyrir hver £100 í skuldabréfum, eða 3% yfir nafnverði. Verður lánið því ríkinu í raun og veru dýrara, ef það er greitt upp fyrr en 1951.

En þrátt fyrir það, þó að það leggi auknar byrðar á ríkið að greiða lánið upp fyrir tilsettan tíma, getur það samt borgað sig, ef hægt er að fá lán með það góðum kjörum, að vaxtamunurinn nemi því, sem hleðst á lánið við að greiða það út. Hefir sami maður reiknað út, hvað dýrt slíkt lán mætti vera, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að effektivir vextir þess mættu nema 6,7%.

Eftir því, sem peningamarkaðinum í heiminum er nú háttað, eru líkur til þess, að takast mætti að fá lán með þessum vöxtum, og ef til vill lægri, svo að það myndi borga sig fjárhagslega að greiða þetta lán upp við fyrsta tækifæri. En jafnvel þótt ekki fengist svo ódýrt lán, að þetta borgaði sig fjárhagslega, eru aðrar orsakir til þess, að nauðsynlegt er að greiða þetta lán sem fyrst upp, eins og ég skal nú víkja að.

Þegar enska lánið var tekið, var töluvert um það deilt, hvort tolltekjurnar væru veðsettar fyrir því. Minnist ég þess úr þeim deilum, að þáv. fjmrh., hv. 1, þm. Skagf., neitaði, að svo væri. Hafa menn sennilega treyst því, að þessi fullyrðing væri sönn, því að þessar deilur féllu niður um stund. En á tveim síðustu árum, eftir að Alþingi hafði gefið ríkisstj. heimild til lántöku erlendis, fór að koma annað upp úr kafi. Þeir menn, sem ríkisstj. fól að annast þessa lántöku, ráku sig á þann skilning hjá erlendum fjármálamönnum, að tolltekjurnar væru veðsettar fyrir enska láninu. Komu þeir allir með sömu kröfuna, og þó að þeir féllu frá henni aftur, hafði þetta þau áhrif, að heimtaðir voru hærri vextir en ella.

Í fræðibók einni, þar sem birt er skýrsla yfir öll opinber ríkislán, smá sem stór, er það tekið fram um Ísland, að tolltekjur þess séu veðsettar fyrir enska láninu. En það þarf ekki að sækja vitnin svo langt. Hér er eitt af þeim skuldabréfum, sem gefin voru út fyrir láninu og ganga kaupum og sölum í Englandi og viðar. Er það undirskrifað af Sveini Björnssyni sendiherra. 14. gr. þessa skuldabréfs hljóðar svo:

„Lánið er bæði um höfuðstól og vexti bein skuldbinding konungsríkisins Íslands, og til frekari trygg, fyrir greiðslu þess, sem þarf til að standa straum af láninu nákvæmlega á réttum gjalddögum, tiltekur ríkisstj. hér með óafturkallanlega og bindur sérstaklega til hagsmuna fyrir handhafa, alla jafnt, að skuldabréfum láns þessa tolltekjur Íslands, þangað til innleystur hefir verið að fullu höfuðstóll lánsins og greiddir hafa verið allir vextir af láninu; því er hér með lýst yfir, að tolltekjur þessar eru óbundnar nú. Ef tolltekjurnar eitthvert ár fullnægja ekki til að standa straum af láninu, þá mun stj. útvega nægilega upphæð af almennum tekjum konungsríkisins og greiða bönkunum hana fyrirfram“.

Þetta stendur nú í skuldabréfinu sjálfu. Um þýðinguna skal ég ekki deila, því að ég geng út frá því, að þýðandinn hafi vitað, hvað hann setti á pappírinn.

Þessu til viðbótar vil ég lesa upp 7. lið samningsins sjálfs. Er þýðing samningsins gerð af löggiltum skjalaþýðara og yfirfarin af lögfræðingi, sem er mjög vanur fjármálum. Þessi liður hljóðar svo:

„Umrætt lán, bæði að því er snertir höfuðstól og vexti, skal vera bein skuldbinding íslenzka konungsríkisins, og skal ennfremur vera tryggt með sérstakri kvöð á tolltekjunum, sem ríkisstj. lýsir yfir, að séu við dagsetningu þessa samnings engri kvöð bundnar. Meðan nokkur skuldabréf þessa láns eru útistandandi, má enga þá kvöð leggja á tolltekjurnar, sem annaðhvort gangi fyrir þessari kvöð eða sé henni hliðstæð“.

Nú mun það vera svo, að það viðgengst ekki nema meðal þjóða á lægsta stigi efna og menningar, að þær gangi inn á að veðsetja tolltekjur sínar, er þær taka lán. Það er því ekki hægt annað að segja en að með enska láninu hafi verið settur skrælingjastimpill á okkur Íslendinga, auk þeirra lánstraustsspjalla, sem af þessu leiðir. Við flm. þessarar till. leggjum því ríka áherzlu á það, að hæstv. stj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að greiða þetta lán sem fyrst, en það getur fyrst orðið samkv. samningnum 1. sept. 1932. Leggjum við áherzlu á þetta, í fyrsta lagi vegna þess, að hugsanlegt er, að hægt verði að fá lán með lægri vöxtum, þannig að beinn fjárhagslegur hagnaður verði af því að greiða lánið sem fyrst, en þó sérstaklega vegna þeirrar niðurlægingar, sem það er fyrir okkur Íslendinga, að þetta lán skuli vera auglýst út um allan hinn menntaða heim. Er þess að vænta, að hæstv. stj. geri gangskör að því að losa okkur við þetta lán, bæði vegna skaðans og þó sérstaklega vegna skammarinnar.

Ef þetta lán verður borgað upp 1. sept. 1932, þarf að segja því upp með sex mánaða fyrirvara, eða fyrir 1. maí 1932 í síðasta lagi. Það er því ekki langur tími til stefnu um að fara að leita fyrir sér um lántöku í þessu skyni.