16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (3455)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Magnús Guðmundsson:

Það er nú orðið nokkurnveginn bert af orðum hv. aðalflm. þáltill., hvers vegna hún er borin fram. Það skein í gegnum alla framsöguræðu hans, að till. er eingöngu fram komin í pólitískum tilgangi og til þess að reyna að sverta andstæðing í augum þings og þjóðar. Þetta er að vísu ekki annað né meira en það, sem við er að búast úr þeirri átt. En hv. aðalflm. hefir hér ekki sagt nema hálfa sögu og hálfan sannleika, en sleppir allri forsögu málsins og notar svo hinn hálfa sannleika til þess að hefja árás á mig fyrir þau afskipti, sem ég hafði af lántökunni. En hefði hann sagt alla söguna, hefði það ekki orðið til þess að styrkja hans málsstað.

Ég ætla því að leyfa mér að minna á, að ég ætlaði ekki að taka neitt lán og stóð lengi á móti því, að nokkurt lán væri tekið. En vegna þess að Alþ. samþ. þá að kaupa hluti í Íslandsbanka, þá sá ég, að lántakan var óumflýjanleg. Þó gekk ég fyrst inn á að taka lánið, þegar mikill þingmeirihluti hafði samþ. að gera það, til þess að á þann hátt væri hægt að bjarga Íslandsbanka úr þeirri kreppu, sem hann var þá kominn í.

Þetta er forsaga málsins. En um hitt, hvort lán þetta hafi verið með betri eða verri kjörum en önnur lán, sem tekin voru á sama tíma, er rétt að ræða nokkuð.

Ég lagði fram á þingi 1922 bréf um þetta mál, og er það að finna í B.-deild Alþt. í 43.–44. dálki. Og af því að langt er liðið síðan og eflaust farið að fyrnast yfir bréfið, enda látið í veðri vaka, að stj. hafi engan umboðsmann haft um lántökuna, þá vil ég leyfa mér að lesa upp þetta bréf, ef hæstv. forseti hefir ekkert á móti því. Bréfið er til Kaabers bankastjóra Landsbankans og hljóðar á þessa leið:

„London, 23. ág. 1921.

Herra konsúll Kaaber,

Hótel Cecil, London.

Um leið og ég staðfesti símskeytaskipti okkar, vil ég bæta því við, að ég hefi átt í samningum við aðalbankana og fjármálafélög hér, sem vér höfum gott samband við, meðal annars Lloyds Bank Ltd, Imperial & Foreign Corporation Ltd, British, Foreign & Colonial Corporation, Lazard Bros, Seligan Bros, og reynt að stofna félag til að taka að sér lán hins íslenzka ríkis, en ætíð kom það í ljós, að hér í London þekktu menn lítið til ástandsins á Íslandi, sérstaklega vegna þess, að Ísland hefir ekki áður tekið lán í Englandi.

Með því að ég hefi nú fengið að vita, að til mála hefir komið að taka lán þetta í Skotlandi með aðstoð hins nafnkunna firma Helbert, Wagg & Co. Ltd., þannig að Ísland fái 84 af hundraði hverju með 7% vöxtum til 30 ára og uppsegjanlegt eftir 13 ár, hlýt ég í samráði við beztu sérfræðinga okkar að ráða yður til að taka þessum skilmálum, með tilliti til hinna erfiðu ástæðna, sem nú eru alstaðar, og að athuguðum öllum kringumstæðum.

Þess má geta, að Noregur fékk aðeins 83 af hundraði af 6% láni, er hann tók hér nýlega, og þó hefir það land ætíð verið meðal þeirra lántakenda hér, sem bezt kjör hafa fengið.

Eigi má heldur gleyma því, að ef íslenzka lánið ætti að bjóða út opinberlega, yrði útboðið vegna hins mikla kostnaðar, sem því er samfara, til stimpilgjalds o. fl., að hljóða um ca. 90 af hundraði og með 7% vöxtum, þolir slíkt lán samanburð við lán, sem hin bezt stæðu ensku félög hafa tekið nú í seinni tíð, og þess vegna er það sannfæring mín, að Ísland eigi að taka því tilboði, sem það nú hefir, einkum þar sem það er mikilsvert fyrir Ísland að ráða sem fyrst nokkra bót á hinum erfiðu viðskiptum við önnur lönd.

A. Kjær“.

Bréfritarinn er bankastjóri við British & North European Bank í Lundúnum.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að umboðsmenn okkar við þessa lántöku voru þeir Kaaber bankastjóri og Sveinn Björnsson sendiherra. Og ég skal gjarnan bæta því við, að ég hefi ekki trú á, að hæfari menn hefðu þá fengizt til þessa starfs.

Þegar Kaaber bankastjóri fór héðan til þess að annast um lántökuna, þá þótti honum kjörin óaðgengileg og slæm, og gerði sér jafnvel vonir um að komast að betri kjörum þegar til London kæmi. En þær vonir brugðust, enda rak hann sig fljótt á það, að betri kjör var ekki hægt að fá eins og þá stóðu sakir.

Ég segi þetta af því, að mér er kunnugt um, að þegar enska lánið var tekið, var ekki hægt að fá betri kjör, en ekki vegna þess, að ég vilji ekki láta greiða lánið upp samstundis og hægt er að fá annað lán til þess með betri kjörum, og tel ég hverri stj. skylt að gera það. Það hefir tíðkazt meðal fjölda þjóða að greiða með nýjum lánum þau lán, sem tekin voru á þessum óhagstæða tíma, og er þetta bein sönnun þess, að margir aðrir en við urðum að bíta í hið súra eplið að taka dýr lán. Ákvæðið um greiðslu áður en samningstíminn er á enda er sett einmitt með það fyrir augum, að þeir tímar geti komið, að hagstætt sé fyrir lántakanda að greiða lánið. Ég mun þess vegna fyrir mitt leyti greiða atkv. með þessari þáltill., því að mér þykir líklegt, að hægt verði að fá lán með betri kjörum en 1921, enda vita það allir, sem nokkuð til þekkja um lántökur yfirleitt, að nú er auðvelt að fá betri kjör, en í því liggur engin sönnun fyrir, að betri kjör hafi verið hægt að fá 1921.

Hv. aðalflm. segist hafa reiknað vexti þessa láns og væru þeir 9% eða 9,88%, eftir því hvenær lánið yrði borgað.

En ég vil spyrja hann, hvort hann hafi tekið tillit til þess gengisgróða, sem orðinn er á láninu. (BÁ: Nei). Ég átti von á þessu, en slík aðferð er alveg röng. Ef tillit er tekið til gengishagnaðarins, þá mun það sýna sig, að gengisgróðinn einn nægir til þess að borga afföllin. Og úr því að hv. aðalflm. hefir ekki gert þetta, sem þó var skylda hans, þá mun ég reikna dæmið á þann hátt og reyna að sjá um, að sá útreikningur komist til almennings.

Hv. aðalflm. ætti að sjá það og viðurkenna, að þegar hann fer að reikna út, hvað lánið kostar okkur, en tekur ekki tillit til, að við höfum grætt sem næst 4 krónur á hverju £, sem við höfum fengið, að þá er hann ekki lengur óhlutdrægur í þessu máli, þá fer hann með rangar skýrslur.

Þá er nú komið að aðalrúsínunni í ræðu hv. aðalflm., sem sé veðsetningu tollteknanna. Hann las upp kafla úr lánssamningnum og skuldabréfi máli sínu til sönnunar. En það merkilega við þennan upplestur var það, að í hinum upplesnu köflum var hvergi talað um veðsetningu. Hinsvegar er það sagt, að tolltekjurnar séu bundnar þannig, að þær séu til tryggingar láninu. Þetta er ekki veðsetning, heldur í raun og veru loforð um, að þær verði ekki veðsettar öðrum, meðan lánið sé ógreitt. Það höfum við heldur aldrei ætlað að gera, svo að ummæli hv. þm. um niðurlægingu okkar utanlands eru gripin úr lausu lofti.

Árið 1921 vorum við Íslendingar algerlega óþekktir á enskum peningamarkaði. Þess vegna sögðu enskir fjármálamenn sem svo, að það væri ekki hægt að veita okkur lán nema við lofuðum því að láta ekki aðra fá tolltekjur landsins að veði.

Hv. aðalflm. sagði, að sá skilningur erlendra fjármálamanna á því, að tolltekjurnar væru veðsettar, hefði einatt reynzt óþægilegur þrándur í götu, er leitað hefði verið fyrir sér um lántökur erlendis hin síðari árin. Ekki veit ég, hvaðan hann hefir þetta. En mér er kunnugt um, að tekin hafa verið lán 1924, 1926 og 1927 og aldrei heyrt fyrr en nú, að þetta hafi orðið lántökum okkar að fótakefii. Ég geri því ráð fyrir, að hér sé ekki um annað en skröksögu að ræða, enda hlýtur svo að vera, þar sem endurtekin reynsla okkar mælir þessu í gegn.

Ég sé svo ekki ástæðu til, þar sem mál þetta hefir verið hér til umr. áður í vetur, að fara lengra út í það. Þó er ég reiðubúinn að ræða það áfram við hv. aðalflm., og það ítarlega, ef hann vill það endilega síðustu daga þingsins.

Hvað standa kunni um þetta lán í fræðibókum, skal ég ekkert um segja; ég hefi ekki séð það. Skuldabréfin hefi ég heldur ekki séð, svo ég muni, því að Sveinn Björnsson undirskrifaði þau, en hann skýrði mér upphaflega frá, að að því leyti, er tolltekjurnar snerti, væri um kvöð að ræða, en ekki veðsetningu. M. ö. o., að við mættum ekki veðsetja tolltekjurnar öðrum.

Þó að ég hafi ekki fleiri orð um þetta mál að sinni, þá er ég samt, eins og ég tók fram áðan, reiðubúinn að ræða það ítarlega við hv. aðalflm., hvort sem heldur það á að verða nú eða síðar. En þar sem sagt er, að komið sé að þinglokum, ætla ég ekki að tefja umr. lengur að þessu sinni.