16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Mér fannst það óþarfa gassi, sem hljóp í hv. 3. landsk. út af orðum mínum, og ég viðurkenni ekki, að ég hafi gefið tilefni til þeirrar löngu ræðu.

Ég fór ekkert út í það ástand, sem var, þegar lánið var tekið. Ég sagði, að ég væri ókunnugur þeim málavöxtum og lagði engan dóm á það. Þess vegna hittir það mig alls ekki, sem hv. þm. sagði í þessu sambandi.

Viðvíkjandi því, að þessi þáltill. sé markleysa, þar sem sé verið að fara fram á það, sem alstaðar sé talið sjálfsagt, þá veit ég ekki betur en að bornar séu fram þáltill. um margt, sem má telja sjálfsagt, en sem þingið vill leggja áherzlu á. Og það er ekkert annað, sem verið er að gera með þessari till.

Hv. þm. sagði, að alltaf væri sjálfsagt, að hver stjórn skipti um lán, þannig að fáist hagstæð lán fyrir óhagstæð. En ég legg áherzlu á, að þótt þetta nýja lán yrði ekki hagstæðara að vöxtum, þá er samt ástæða til að reyna að losna við það óorð, sem orðið hefir vart við hjá erlendum fjármálamönnum vegna þessa láns.

Ég skal ekki ætla mér þá dul að fara út í vaxtareikning við hv. 3. landsk. En þótt hann sé skýr maður, gat hann ekki sannfært mig um, að það eina, sem hér væri um að ræða, væri 7% vextir, en afföllin kæmu ekki til greina. Ég veit ekki betur en að alltaf, þegar á að reikna út raunverulega. vexti, eigi að taka tillit til affallanna og tímalengdarinnar. Því að vitanlega koma afföllin þyngra niður á láninu, því styttri sem lánstíminn er. (MG: Afföllin eru þegar greidd öll með gengisgróða!). Ég ætla ekki að fara að þræta um þetta við hv. 1. þm. Skagf., og hv. þm. sannfærir mig ekki um sínar „teoríur“. Annars treysti ég þeim manni, sem reiknaði þetta út fyrir mig, alveg eins vel og hv. 3. landsk.