27.06.1930
Sameinað þing: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

589. mál, milliríkjasamningar

Jón Þorláksson:

Ísland hefir aldrei þurft að grípa til annars en friðsamlegra ráða til að útkljá deilumál. Mætti því e. t. v. þykja óþarft að fara að gera samninga um friðsamleg úrslit slíkra mála við frændþjóðirnar, sem minnstir möguleikar eru fyrir að lenda í sundurþykki við. Ekki er það heldur af því, að við gerum ráð fyrir, að nokkurntíma komi til annars en friðsamlegra úrslita, að ég og flokksmenn mínir viljum vinna að því, að þessir samningar séu gerðir. En hitt er það, að við viljum, með því að gera þessa samninga fyrir okkar leyti, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar fyrir sitt leyti, undirstrika, að við teljum vinsamlega samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar eiga að vera innsta þáttinn í okkar samlífi meðal þjóðanna.

Við státum af því, Íslendingar, að við höfum betri reiður á okkar uppruna og ætterni en aðrar þjóðir. En ætternistilfinningin leiðir af sér aðra tilfinningu henni náskylda, frændsemitilfinninguna. Og eins og við viljum halda áfram að, minnast ætternis okkar, viljum við líka rækja okkar frændsemi við þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar.

Með þessum ummælum fyrir hönd þess flokks, sem ég telst til, mæli ég með því, að till., sem hér liggur fyrir, verði samþ.