13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. flm. till. var að tala um það, að flestir þm. hefðu verið sammála um, að þetta svokallaða enska lán skyldi tekið í Englandi, en ekki í Danmörku. Mér er ekki kunnugt um þetta, en hitt veit ég, að þetta lán var tekið á þeim tíma, sem þingið sat, og veit ég ekki til, að þm. væru spurðir um það, hvar taka skyldi lánið, enda var sjálfsagt, að stj. réði því og sinnti þeim kjörum, sem þá voru boðin. Að því leyti er ekkert að áfellast þá stj., þótt hún tæki lánið í Englandi. Ég geri ráð fyrir, að hún hafi ekki getað fengið betri kjör annarsstaðar, en ei að síður var lánið óheppilegt fyrir okkur. En til þess að það sé ekki neinn vafi á um það, sem ég skaut fram í ræðu hv. þm. N.-Ísf., um að þetta lán muni fá að standa annað árið til, vil ég benda á, að ég get ekki fullvissað hv. d. um þetta, en allar líkur eru til þess. Ég vil taka þetta skýrt fram, svo að það valdi engum misskilningi.

Þá var það hv. 1. þm. Skagf. Mér fannst hann eiginlega verða óþarflega vondur út af því, sem ég sagði um enska lánið. Það er almennt viðurkennt, að lánið er óheppilegt, og þar sem hv. þm. er að tala um, að lánið sé gott og þetta sé aðeins af því, að ég hafi ekki vit á að meta það, þá vil ég benda hv. þm. á, að útlendir fjármálamenn geta alveg eins reiknað það eins og hann. Þeir meta þetta lán öðruvísi en hv. þm. gerir. Þeim er vel kunnugt um, hverjir samningarnir eru bönkum í Ameríku er vel kunnugt um það. Þeir hafa algerlega sína skoðun á þessu enska láni, hvað sem hv. 1. þm. Skagf. segir um það.

Hann sagði, að lánið væri tekið til þess að borga skuldir erlendis. Það er rétt, en í því felst þó engin sönnun þess, að skynsamlegt hafi verið að borga þessar skuldir erlendis eins og á stóð. Það er ósannað mál, hvort ekki hefði verið hægt að komast að betri kjörum um greiðslu skuldanna. Mér skildist að vísu á hv. 1. þm. Skagf., að þetta væri ágætt lán, miklu betra en mörg önnur, sem ríkið hefði tekið, af því að krónan hefði hækkað í verði, og við þar af leiðandi grætt gengismuninn, En fyrst og fremst verðum við að reikna út, hvað það kostaði okkur að hækka krónuna. Ég tel mjög vafasaman gróða á þeim hluta enska lánsins, sem lánaður var Íslandsbanka. Það er ekki enn séð fyrir endann á því, hvað mikið tap ríkissjóður líður þar.