08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (3483)

153. mál, einkasala á steinolíu

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 4. landsk. þm., sem mun vera flokksforingi hv. þm. Ísaf. og jafnaðarmanna annara hér á landi, gat þess við 1. umr. fjárl. í Ed. í ár, þegar hann gerði eldhúsdag að stj., að m. a. þyrfti hann enn að víta stj. fyrir eitt mál, sem hann hefði nú í samfleytt 8–9 ár vítt stj. fyrir.

Hv. þm. Ísaf. ferst svipað. Hann hefir tekið að sér eitt mál og hamrað á því öll þau ár, sem hann hefir setið á þingi. Er þetta í þriðja skiptið, sem hann heldur sömu ræðuna í þessu sama máli.

Ég get látið mér nægja að vísa til þess, sem prentað er eftir mér í þingtíðindunum fyrir árið 1929 um þetta mál, sem hér liggur fyrir, en get þó bætt því við, þó að ég hafi reyndar upplýst það á eldhúsdaginn, að samkv. loforði frá því í fyrra hefir stj. látið fara fram rannsókn á verðlagi steinolíunnar. Var Fiskifélaginu falið að framkvæma þessa rannsókn, og sendi það skýrslu um rannsókn sína til atvmrn. Liggur sú skýrsla þar frammi. En nú fer hv. þm. Ísaf. þungum orðum um það, að þm. og þingn. skuli ekki hafa verið send þessi skýrsla. Þykir honum slíkt með þeim endemum, að ósæmilegt sé. En ég verð nú að segja það, að ef hv. þm. Ísaf. er eins mikil alvara í þessu máli sem hann lætur, hefði hann ekki talið það eftir sínum kviku fótum að ganga upp í stjórnarráð til þess að sjá þessa skýrslu. En það bar hann ekki við, enda virðist mér sem aðalatriðið í þessu máli sé það fyrir hann, að hafa nú getað haldið þessa sömu ræðu sína í þriðja sinn.

Fulltrúar sjávarútvegsins stóðu að þessari rannsókn, eins og áður segir, og þeir hafa ekki borið fram neinar óskir til stj. um það, að hún hæfist handa í þessu máli. Virðist og eftir áðurnefndri skýrslu, sem verðlag á olíu hér sé ekkert frábrugðið verðlagi því, sem er í grannlöndum okkar.

Ég þarf svo ekki að segja mikið meira, en vil aðeins minna á það, að mér finnst hv. aðalflm. ætti fremur að beina sínum stóru orðum út af skakkaföllum sjávarútvegsins vegna steinolíuverzlunarinnar í nokkuð aðrar áttir. (ÓTh: Já, til hv. 2. þm. Reykv). Og til hv. 1. þm. Skagf. ekki síður. Það eru þeir, sem ráða olíuverðinu, og ég veit ekki betur en að þeir séu innilega sammála um það. Þetta ættu hv. flm. að athuga. En sem sagt, þá hefir stj. í hendi sér heimild til þess að skerast í leikinn jafnskjótt sem þörf þykir, og þá heimild mun hún nota sér umsvifalaust, svo framarlega, sem hún fær sönnur fyrir því, að misnotun eigi sér stað á þessum sviðum og olíuverðið sé óhæfilega hátt. En eins og nú standa sakir, þá hefir engin ósk komið fram um þetta frá hlutaðeigendum. Ég geri ráð fyrir, að ef steinolíuverðið væri nú óhæfilega hátt, þá myndi ekki líða á löngu áður en kvartanir bærust um það til ríkisstj., og ef þær reyndust á rökum reistar, þá skyldi ekki standa á stj. að skakka leikinn með þeim heimildum, sem felast í lögunum frá 1917.