08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

153. mál, einkasala á steinolíu

Jón Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. mikið úr því sem komið er. Till. þessi er þrautrædd fyrir löngu, því að þetta er þriðja þingið, sem hún er flutt og alltaf rædd af miklum ákafa.

Frá mínu sjónarmiði horfa þessi mál þannig við: Ég get ekki talið æskilegt, að ríkið taki að sér einkasölu á einstökum vörutegundum, nema eitt af tvennu sé fyrir hendi: Annaðhvort óhæfilegt okur hjá verzlunarhúsum, sem þurfi að hefta, eða í öðru lagi, að um vöru sé að ræða, sem vel sé fallin til fyrir ríkið að taka að sér sölu á til að auka tekjur sínar. Nú skilst mér, að athugun hafi farið fram á því, hvort landsmenn hafi orðið illa úti hvað olíuverð snertir, og sú athugun gefið neitandi svar. Um hitt atriðið er heldur ekkert fyrir hendi, þar sem um mikla nauðsynjavöru er að ræða. Er þess vegna hvorugt skilyrðið fyrir hendi, og sé ég því ekki ástæðu til þess að samþykkja þessa till. Enda ber á það að líta, að lögin frá 1917 eru enn í gildi og heimila ríkisstj. að skerast í leikinn hvenær sem þurfa þykir. Ég vil því leyfa mér að bera fram rökstudda dagskrá, líka þeirri, sem afgr. var í fyrra. Vil ég leyfa mér að lesa hana upp og leggja hana fram. Skal ég taka það fram, að verði hún ekki samþ., sé ég mér alls ekki fært að samþykkja till. Dagskráin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Með því að ríkisstjórnin getur hvenær sem er gripið til heimildarlaganna frá 1917 um verzlun steinolíu, og í trausti þess, að stjórnin hafi nánar gætur á því, að landsmönnum verði ekki íþyngt af olíukaupmönnum, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.