08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3489)

153. mál, einkasala á steinolíu

Jón Baldvinsson:

Mér skildist á hæstv. atvmrh., að hann væri að ávíta hv. þm. Ísaf. fyrir að flytja sömu till. ár eftir ár. Öðruvísi mér áður brá, þegar hæstv. ráðh. var í stjórnarandstöðu. Þá báru þeir flokksmenn hans fram áhugamál sín þing eftir þing. T. d. flutti núv. hæstv. dómsmrh. þá frv. um Byggingar- og landnámssjóð þing eftir þing, vitaskuld af því, að hann áleit það gott mál og þarflegt. Þannig mætti tína til fjölda dæma. Mér virðist því dálítið spaugilegt að vera nú að finna að þessu við okkur jafnaðarmenn.

Ég veit, að það má finna sterkar yfirlýsingar í Alþt. af hálfu hæstv. atvmrh., og sennilega hæstv. dómsmrh., um það, að landið ætti að taka olíuverzlunina í sínar hendur, enda barðist hæstv. atvmrh. á móti því, að steinolíueinkasalan væri lögð niður. Nú virðist hann snúinn í því máli.

Ég þarf ekki að bera fram rök í þessu máli, vegna þess að hv. þm. Ísaf. hefir rækilega gert það, svo að ekki hefir tekizt að hnekkja þeim. Hæstv. atvmrh. var þeim samþykkur að því er virtist, og hv. 6. landsk. hefir heldur ekki gert tilraun til að hnekkja þeim.

Hv. 1. þm. Skagf. var töluvert rogginn og þykist sennilega öruggur, þegar stjórnarflokkurinn stendur með honum. Annars situr illa á þeim hv. þm. að vera að víkja skætingi að hv. 2. þm. Reykv., því þó hann starfi að olíuverzlun, þá hefir hann þó flutt þessa till. og sýnt, að honum er alvara í þessu máli. Hv. þm. talaði um sitt félag sem innlent, en félag hv. 2. þm. Reykv. sem útlent, og vísaði til hæstaréttardóms, sem gengið hafi um þessi efni. Ég skal benda á það, að félag þetta hefir þótt svo grunsamt, að stj. hefir ekki séð sér fært annað en játa rannsaka félagið, og enda þótt dómar hæstaréttar séu félaginu í vil, þá býst ég nú við, að allur almenningur hafi ekki sannfærzt um, að fullt réttlæti væri í þeim dómum.

Ég býst svo við, að við flytjum þessa till. a. m. k. einu sinni enn, til þess að sjá, hve staðfastur stjórnarflokkurinn er í því að láta útlenda hringa ráða olíuverðinu hér á landi, og hversu langt flokkurinn er horfinn frá fyrri stefnu sinni í þessu máli.