08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

153. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Skagf. var ærið drjúgur yfir því, að hann væri ekki alveg úr sögunni. Hann hefir nú verið úr sögunni um nokkurra ára bil, bæði sem dómsmrh. og fjmrh., og mín trú er sú, að þess verði langt að bíða, að hann komi aftur til sögunnar sem slíkur. Ég vona, að forsjónin sé Íslendingum svo velviljuð, að hún láti það ekki koma fyrir.

Hv. þm. sagði, að það væri einkennilegt að áfella innlent félag fyrir leppmennsku. Hv. þm. virðist ekki hugsa mjög skarpt. Ég veit ekki, hvernig hægt er að áfella erlent félag, sem viðurkennir, að það sé útlent, fyrir leppmennsku. En þegar erlent félag fær íslenzka menn til þess að leppa starfsemi sína á þessu landi, og þeir stofna svo félag í þessu skyni, þá er hægt að tala um leppmennsku, og það með réttu.

British Petroleum hefir fengið leyfi til að eiga hér eignir sem útlent félag, og í hvert skipti, sem það vill færa út kvíarnar, verður það að fá leyfi til þess á ný hjá landsstj. og bæjarstj. Það hefir því ekkert með lepp að gera. Það siglir undir eigin flaggi. Allt öðru máli er að gegna um Shell. Það hefir fengið hv. 1. þm. Skagf. og nokkrar slíkar „sjálfstæðishetjur“ til að feðra „íslenzka Shell“ fyrir sig.

Þetta er hv. 1. þm. Skagf. kunnugt um, og það er ekki sæmilegt að vilja rugla þessum félögum saman.

Þessi hv. þm. er rogginn yfir því, að hæstiréttur hefir ekki dæmt félagið sem leppfélag. Ég vil benda honum á það, að þessi hæstaréttardómur segir aðeins, að ekki hafi sannazt, að félagið væri leppur fyrir útlendinga, en hann er engin yfirlýsing um, að svo geti ekki verið, heldur aðeins um, að ákæruvaldið hafi ekki lagt fram nægileg gögn til sönnunar. Hv. þm. er kunnugt um ástæðurnar, er því valda, t. d. skjöl, sem týndust í flutningi frá Reykjavík og suður á Álftanes. Verð ég því að segja, að það er aum fjöður, sem hv. þm. ætlar að skreyta sig með, ef hann hefir ekkert annað en þennan hæstaréttardóm.

Hv. þm. tók svo til orða, að eftir því sem hann bezt vissi, væru landsmenn ekki beittir neinu sérstöku okri hvað snertir olíuverzlun. Ef um okur er að ræða, þótt ekki sé það sérstakt okur, finnst mér ástæða til þess að taka það til athugunar. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að okrað sé á landsmönnum, á hann ekki að bíða eftir því, að það verði sérstakt okur.

Ég hefi ekkert sagt um, að okrað væri á landsmönnum. Ég hefi aðeins sagt, að þessi félög hafi möguleika til þess að skammta álagninguna eftir sínum geðþótta, geta farið alveg upp í tunnuverð, og ég geri ráð fyrir, að þau noti aðstöðu sína til að útvega sér ríflega hagnað. En hitt liggur í augum uppi, að þótt ekki sé um okur að ræða, verður samt margfaldur kostnaður við olíusöluna, þegar þrjú félög eru í staðinn fyrir einkasölu.

Hv. 2. þm. G.-K. sé ég ekki ástæðu til að svara. Hann er vanur því, þessi hv. þm., að standa upp sí og æ og gjamma ávallt það sama. Hann sagði, að þetta mál væri ekki af heilindum flutt. Ég vil þá skora á þennan hv. þm., ef nokkur mannræna er til í honum, að greiða þessu máli atkv. og fá flokksmenn sína til hins sama og vita, hvort stendur á jafnaðarmönnum að fylgja því fram. Það er gaman að reyna einu sinni, hvort manndómur hans er jafn við stóru orðin, sem hann flytur á Alþingi. Annars eru þessi ummæli hv. þm. ekkert annað en spegill af sálarástandi hans sjálfs. Hann veit, að hann mælir fleiri orð en flestir aðrir þm. gera, án þess að meina nokkuð með því, eingöngu til þess að reyna að gylla sig í augum annara. Og hann býst við, að líkt muni aðrir skapi farnir.

Ég endurnýja þessa áskorun mína um að reyna, hvort við fylgjum ekki þessu máli eins og öðrum, sem við höfum borið fram.