08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

153. mál, einkasala á steinolíu

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. hafa talað lítilsháttar um mig í ræðum sínum, og kann ég ekki við annað en að láta nokkur orð falla um þetta, m. a. þar sem ég er meðflm. þáltill.

Ég hygg, að við rannsókn á olíuverði hér á landi og í nágrannalöndunum muni vera auðvelt að sanna, að verðið sé svipað, og a. m. k. sé það ekki hærra hér en búast má við, á móts við það, sem er í nágrannalöndunum. Enda er sú ástæða ekki tekin til í grg. þessarar till. En þar fyrir eru margar aðrar almennar ástæður til að taka upp steinolíueinkasölu, og vil ég benda lauslega á þær. Það er að vísu nokkurnveginn séð, að þessi till. okkar verði felld nú, en þó þykir mér rétt að láta þetta koma fram.

Eins og olíuverzlunin er nú skipulögð hér á landi, hafa verið lagðar minnst 6–7 millj. kr. í olíugeyma og önnur tæki, olíubirgðir og útistandandi skuldir, og það er augsýnilegt, að ríkisstj. gæti ekki tekið verzlunina að sér, nema með því að hafa til allmikið fjármagn. Eftir lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að taka einkasölu á steinolíu getur stj. tekið lán í því skyni, svo að heimildin er nægileg, og það má búast við, að lánstraustið sé svo, að hægt sé að fá fé. Það ætti því að vera hægt að komast yfir þennan þröskuld.

En í sambandi við þetta mikla fjármagn vil ég segja það, að enginn vafi er á því, að ef olíuverzlunin væri á einni hendi, mætti komast af með þó nokkru minna fé. Hvert félag byggir sína geyma og reynir að ná aðstöðu án tillits til hinna. Þess vegna er nú þrefalt fjármagn á ýmsum sviðum á móts við það, sem þyrfti.

Að öðru leyti mætti spara, ef tekinn er samanburður á rekstri þessara þriggja félaga og því, ef ríkið hefði einkasölu. Það væri áreiðanlega hægt að hafa minni rekstrarkostnað, ef einkasalan væri ein um hituna. Að þessu leyti væri hægt að fá meiri hagnað með einkasölu heldur en því að olíufélögin hafi verzlunina með höndum, sem annaðhvort kæmi fram í ágóða af verzluninni, lægra verði, eða hvorutveggja.

Í þriðja lagi er það, að Alþingi myndi hafa í höndum sér að tryggja betur olíuverzlunina en nú er. Félögin lána nú mikið og tapa á því. Það kemur fram í olíuverðinu og minni hagnaði. En það mundi vera auðvelt fyrir einkasöluna að tryggja sig gegn þessu, þar sem mikill hluti tapanna verður á sjávarútveginum, með því að taka einskonar sjóveð í afla, eins og hægt er um vinnulaun samkv . lögum. Með því mundi sparast miklu meira fé heldur en menn trúa.

Útkoma einkasölunnar mundi því geta orðið betri en þessara þriggja félaga. Hagnaðinn mætti leggja í ríkissjóð eða nota hann til að setja olíuverðið niður. En skilyrði fyrir því, að hægt sé að framkvæma þetta, er fyrst og fremst, að ríkið nái í fjármagn til þess. Þá er og sjálfsagt æskilegt að taka lögveð í aflanum, og loks að tryggja sér erlend sambönd, svo að menn gætu alltaf fengið þær olíutegundir, sem nothæfar eru hér á landi. Jafnvel þótt þessi till. yrði samþ., mundi ríkisstj. ekki geta tekið upp einkasöluna fyrr en hún væri búin að tryggja sig að þessu leyti.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði um, að við jafnaðarmenn hefðum stj. í hendi okkar og gætum sett á hana vantraust hvenær sem væri. Ég verð að segja eftir reynslu þessa þings, að ég er ekki viss um, að hv. 2. þm. G.-K. mundi greiða atkv. með vantrausti. Ég veit ekki betur en að í því máli, sem hv. þm. reif sig mest í á móti stj., hafi því lyktað svo, að hv. þm. var ánægður með hennar gerðir. Ef við jafnaðarmenn hefðum þá komið með vantraust, býst ég við, að hv. þm. hefði verið fyrstur manna til að greiða stj. traustsyfirlýsingu.

Annars getur hv. þm. alltaf reynt, hvernig þetta stendur í þinginu, með því að koma sjálfur með vantraust.

Ekki er hægt að neita því, að þótt innlend félög hafi að einhverju eða jafnvel öllu leyti olíuverzlunina, er það ekki hægt fyrir einstaka menn hér á annan hátt en að fá fjármagn frá útlöndum að mestu leyti. Og á meðan svo er, má segja, að þau innlendu félög, sem hafa þessa verzlun, starfi ekki einu sinni á æskilegum grundvelli frá sjónarmiði sjálfstæðis landsins, án tillits til hagsmuna þjóðarinnar að öðru leyti. En er ekki svo með nálega öll íslenzk verzlunarfyrirtæki, að þau vinna aðallega með erlendu lánsfé? Ef ríkið ræki þessa verzlun, gæti það átt sitt eigið fjármagn og verzlunin því orðið óháðari en ella.

Þetta mál um einkasölu á olíu er fjarri því að vera annað eins smámál og sumir hv. þm. virðast telja. Því að olíuverzlunin snertir allan bátaútveginn og samgöngur á landi, og innan skamms tíma má búast við, að komi upp „diesel“-togarar, sem nota olíu, þannig að olían verði grundvöllur undir meginatvinnuvegi landsins, sjávarútveginum. En til þess að taka einkasölu á slíkum vörutegundum verða menn að leggja nokkuð á sig og hafa fulla sannfæringu um, að þetta sé rétt. Þeir, sem vilja óátalið af þingi og almenningi fara með útflutning sjávarafurða landsmanna geta ekki skilið, eða eru að minnsta kosti á móti því, að ríkið tryggi sér yfirráðin yfir verzluninni með aflgjafann.

Hvað það snertir, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, að þetta snerti mína hagsmuni, ætla ég ekki að segja annað en það, að þó að einkasala á steinolíu yrði tekin upp aftur, mundi ég hafa eitthvað að lifa af. Meðan ég hefi fulla heilsu, treysti ég mér til að hafa með vinnu minni nægilegt að bita og brenna hér á landi. (ÓTh: Hv. þm. lifir þá bara af rentunum). Ég lifi a. m. k. ekki af rentum af fé foreldra minna. (ÓTh: Óþarfi að taka það fram).