08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

153. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki vera margorður.— Hv. þm. Ísaf. áleit mig úr sögunni fyrst ég væri ekki ráðh., en afleiðingin af þessu er þá sú, að þessi hv. þm. er þá ekki kominn til sögunnar hér á landi. (HG: Ég sagði, að hv. þm. væri úr sögunni sem ráðh.). Ónei, ekki orðaði hann hugsun sína svo skýrt, en ég ætla að vona, að þessi hv. þm. komi aldrei til sögunnar sem ráðh. Það væri verst fyrir hann sjálfan. Því að það fyrsta, sem jafnaðarmenn gera, þegar þeir komast til valda, er að renna frá sínum eigin stefnumálum.

Hv. þm. þótti það ákaflega hættulegt, ef innlend fél. gætu fært út kvíarnar. Já, það er ákaflega hættulegt fyrir þessa „internationölu“ sócíalista, ef ísl. hlutafélag færir út kvíarnar, en heimska er það nú samt, Og mér er sem ég sjái hæstv. stj. neita hv. 2. þm. Reykv. um stækkun á stöð hins erlenda félags síns hér, ef hann kæmi með makt og miklu veldi til hennar, otaði hnúunum og segði: „Nú skalt þú deyja, ef þú segir nei“. — Ég held hún myndi láta fljótlega undan.

Hv. þm. sagði, að það væri auma plaggið að veifa, þessi hæstaréttardómur fyrir því, að félagið sé löglegt. Dómurinn segði ekkert annað en það, að ekkert hefði sannazt um, að nokkuð væri athugavert við félagið. Við skulum taka dæmi þessu til skýringar.

Ef ég kærði hv. þm. Ísaf. og hv. 4. landsk. fyrir, að þeir hefðu drepið mann, mundu þeir sjálfsagt verða sýknaðir. Dómurinn mundi hljóða svo, að ekki væri sannað, að hv. þm. Ísaf. og hv. 4. landsk. hefðu drepið neinn mann, og því væri ekki hægt að dæma þá fyrir það. (ÓTh: Það væri líka óvarlegt). Væri svo rétt af mér að hælast um á eftir og segja, að þeir hefðu samt líklega drepið mann? Hv. þm. snúa við öllum reglum um sönnunarbyrði í dómsmálum og halda, að þeir geti blekkt mönnum sýn með því. Ég held, að í siðuðu þjóðfélagi séu hæstaréttardómar það bezta, sem hægt er að bera fyrir sig.

Um ræðu hv. 2. þm. Reykv. er ekkert að segja. Hv. þm. talaði með því að koma einkasölu á, en benti á ýmsa agnúa á því, og þarf ég ekki frekar að fara út í það.

Hv. 4. landsk. hélt, að ég væri alltaf að hugsa um atkvæði kjósenda, en ætli það sé svo fjarri honum sjálfum? Þessi till. er ekkert annað en atkvæðaveiðar hjá jafnaðarmönnum. Þeir halda, að þeir heimti ekki alla sína sauði við næsta landskjör nema þeir minni á stefnumálin.

Hv. 4. landsk. sagði, að það væru engin rök, að olíuverðið hefði lækkað. Ég álít, að það séu veigamikil rök. Það er engin deila um það, að olíuverðið lækkaði. Hv. þm. slær vopnin úr höndum sér þegar hann segir, að olíuverðið hafi lækkað. Það lækkaði ekki á heimsmarkaðinum við afnám einkasölunnar, og því var engin ástæða til þess, að það lækkaði hér. (JBald: Þetta er fullyrðing, en ekki rök). Hv. þm. verður sjálfur að sýna fram á, að verðið hafi lækkað á heimsmarkaðinum; hann hefir aðeins sagt, að það gæti verið. Það er annars dálítið einkennilegt, hvernig þessar umr. snúast. Eins og vant er, þegar þessir flokksmenn hæstv. stj: ætla að ráðast á hana, þá gleyma þeir því og fara að deila á „stóra íhaldið“.