17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal ekki þreyta hv. dm. á langri ræðu.

Í till. þessari er um tvö meginatriði að ræða. Það fyrra er: að skora á hæstv. ríkisstj. að hafa lokaðar áfengisbúðirnar hér og í Hafnarfirði vikuna, sem alþingishátíðin fer fram. Hitt atriðið er: að skora á hæstv. stj. að sjá svo um, að ekki verði veitt vín í opinberum veizlum, sem haldnar verða í sambandi við hátíðina.

Ég veit það, að mörgum segir þungt hugur um það, hvernig hátíðin muni takast. En leiðari veizluspjöll er varla hægt að hugsa sér heldur en drykkjuskap og það, sem honum fylgir. Ég játa að vísu, að þó till. þessi verði samþ., er ekki víst, að þar með verði útilokaður allur drykkjuskapur í sambandi við hátíðina. Það fer þá mest eftir röggsemi stj. og yfirvalda, hvort launsölum tekst að hafa áfengi á boðstólum. En til þeirra sækja menn tíðast, þegar þeir eru komnir á bragðið hjá áfengisverzluninni; því reynslan er, að mest kaupa menn alltaf af áfengi eftir að þeir eru orðnir ölvaðir. Og ef áfengisbúðirnar eru opnar fyrir allan þann mannfjölda, sem búizt er við, að verði hér saman kominn þessa daga, þá er það því miður alveg víst, að stórfelld spjöll hljóta að verða vegna drykkjuskapar og drykkjuláta.

Mig furðar mjög á því, í hvaða tóntegund sumir hv. þm. tala um takmörkun áfengisnotkunar við hátíðahöldin. Vil ég í því sambandi drepa á eina hlið þessa máls, þ. e. slysahættuna. Ef hingað safnast 20–30 þús. gestir, og sífelldur bifreiðastraumur verður ekki aðeins til og frá Þingvöllum, heldur og aftur og fram um bæinn, þá er næsta líklegt, að til slysa í stórum stíl geti leitt, ef vín flóir um allar gáttir takmarkalaust.

Ef þingið samþykkir þessa till., hefir það þar með lýst yfir vilja sínum í þessu efni og bent stj. og hátíðarnefndinni á, hvað gera skuli til þess að verjast vansæmd og slysum af áfengisnautn í sambandi við hátíðahöldin. Nógu er til kostað og nægilega teflt í tvísýnu, þótt reynt sé að sporna við slíkum ósóma.