17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Jón Auðunn Jónsson:

* Ég hefi litlu við það að bæta, sem hv. 1. þm. S.-M. hefir sagt. Ég vil þó benda á það, að ef fyrri hluti till. er samþ., þá yrði að mínu áliti afleiðingin sú, að leynivínsalar og smyglarar bæði hér í Reykjavík og austanfjalls mundu bara selja þeim mun meira og fá þannig drjúgar tekjur vegna þessarar ráðstöfunar, en vín yrði engu minna á hátíðinni. En það vil ég taka undir, að ofnautn víns yrði mjög mikið til að spilla hátíðinni, og þess vegna treysti ég því, að haft verði strangt eftirlit í þeim efnum. En að ætla sér að bjóða tignum gestum, sem vita, að ríkið hefir vínsölu á hendi og eru vanir að hafa vín með hverri máltíð, ef ætti að bjóða þeim hingað og láta þá alls ekkert vín hafa í veizlum, það get ég ekki fellt mig við, þar sem þetta sýnist nú ekki heldur geta breytt hátíðahöldunum neitt til batnaðar, heldur yrði þessi ráðstöfun aðeins til að æsa vínlöngun og vínnautn hjá öllum þorra manna. Þessi aðferð er því þýðingarlaus. Það er ekki hægt að neyða menn þannig til að neyta ekki víns.