13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Það er aðallega ræða hv. þm. Mýr., sem ég þarf að fara nokkrum orðum um. Hann hélt því fram, að gengissveiflur hefðu ekki þýðingu í því, sem snertir enska lánið. Það er hart, ef á að gera upp niðurstöðurnar af láninu, að mega ekki taka með, hvað græðzt hefir á gengi. En árið 1921, þá var þetta athugað, og þá ákvað þingið að taka lán til að kaupa hluti í Íslandsbanka. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um þetta. Það stendur í lögunum frá 1921, lögum, sem við höfum haft til breytingar undanfarna daga. Ég var ekki að þakka mér þetta. En það er óhjákvæmilegt að taka tillit til, hvort gengissveiflur hafa orðið okkur í hag eða óhag. Hitt er rétt, sem hv. þm. Mýr. segir, að það er hvorki plús eða mínus fyrir mig. En ef hann skilur þetta ekki, ef hann t. d. vili kaupa hlut frá útlöndum, en vill ekkert tillit taka til gengisins, þá er ekki til neins að ræða málið við hann.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég væri að gera enska lánið eins ágætt og hægt væri. Ég var bara að reyna að láta það koma út, sem rétt er. En hann vitnar til þessara útlendinga, sem alltaf komi til móts við hann, þegar hann vill fá lán. Því sýnir hann þeim ekki fram á, að þetta sé ekki rétt, tolltekjurnar séu ekki veðsettar. Því að þegar samið var um lánið, kom það skýrt fram, að hinir erlendu aðilar vildu aðeins tryggja sér, að ekki væri veðsett öðrum. Það svíður kannske nú að geta það ekki.

Veðsetning í þessum skilningi er ómöguleg. Við sjálfir höfum hér í þinginu hringlað með tollalöggjöfina og ekki þurft neinn að spyrja. Ég veit, að hæstv. fjmrh. telur þetta lagaflækjur. En það sést þó skýlaust, að það var ekki hægt að stofna til veðs hér á landi, nema með því að gera sérstakar ráðstafanir, sem aldrei hafa verið gerðar. Eina bandið, sem á tolltekjunum hvílir, er, að þær verði ekki veðsettar öðrum.