17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (3551)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Pétur Ottesen:

Ég sé ekki neinn mun á því, að forsrh. taki á móti gestum á sínu heimili og því, að forsetar taki á móti gestum á því heimili, sem þingið ákveður. Þingið kemur fram gagnvart sínum gestum á sama hátt sem forsrh. gagnvart sínum gestum. En sá er munur í þessu efni á aðstöðu forsrh. og forseta sameinaðs þings, að forsrh. framkvæmir það eitt, sem hann álítur rétt, án þess að taka tillit til óska annara, en því er yfir lýst af hæstv. forseta Sþ., að hann ætli sér í þessu að haga sér eftir vilja meiri hl. þingsins. Því leyfi ég mér að vænta þess, að þótt till. þessari sé ekki beint til hæstv. forseta Sþ., heldur til hæstv. stj., þá áliti hann það vilja Alþingis gagnvart sér, sem kemur hér fram, og telji ekki þörf á að bera málið fram á bænarörmum með undirskriftum. Málið er nú lagt fyrir hv. Nd., og hún tekur sína ályktun. Þar sem hæstv. forseti Sþ. var að hneykslast á því, að okkur sumum, sem yngri erum, hafi fundizt lítið til um léttúð hv. 1. þm. S.-M., þá var það sannarleg léttúð hjá hv. þm., þótt gamall sé, að vera með fleðulæti um till., en leggja þó til, að henni verði vísað til nefndar, sem svo átti ekki að skila áliti sínu fyrr en á næsta þingi.