17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Hannes Jónsson:

* Mér finnst ekki skipta miklu máli, hvaðan séu runnar breyt. þær, sem gerðar voru á jarðabótastyrknum síðastl. haust, en hitt skiptir miklu meira máli, hvað fái að standa í framtíðinni í þessu efni.

Annars vil ég fræða hv. þdm. á því, að hér í landi eru fleiri staðir, þar sem reynsla Magnúsar á Blikastöðum gæti gilt. Ég hefi t. d. nýlega gert samning við jarðræktarmann um að brjóta 10 ha. land fyrir mig. Og það, sem kostar mig að búa landið undir sáningu, ætla ég að nemi sem næst því, er ég vænti að jarðræktarstyrkurinn verði. Nú skyldi ég glaður fallast á það að breyta stærð dagsverksins í fyrra horf, ef ég væri viss um, að styrkurinn fengi síðan að haldast óbreyttur um æðilangan tíma. Ekki fyrir það, að ég búist við að hafa persónulegan hag af því, heldur af því að ég álit því fé vel varið, sem lagt er til þess að auka ræktunina. En ég legg aðaláherzluna á það, að styrkurinn fái að haldast óbreyttur um nokkurt árabil, og ég álít líkur til, að það yrði, ef dagsverkið er ekki stækkað aftur nú. Einnig dregur það úr mér að fylgja þessari till., að mér finnst kenna ósamræmis hjá aðstandendum hennar, þar sem þeir eru annað veifið að tala um, að landbúnaðurinn sé yfirleitt óeðlilega mikið styrktur. (MG: Hefi ég talað um það?). Nei, en það hafa aðrir gert.

Ég tel reyndar ekki aðaltilgang laganna, að bændunum sé greiddur styrkurinn, heldur að vekja áhuga þeirra og vekja þá til framkvæmda, og það mun bezt gert með fjárhagslegri aðstoð. Ég er því ekki í vafa um, að rétt er að styrkja bændur til framkvæmda á fleiri sviðum, til þess að koma þeim á stað; er það alls ekki síður nauðsynlegt en að hækka jarðræktarstyrkinn frá því, sem nú er, þó hann sé mjög nauðsynlegur.

Ég vona að þeir, sem flytja till., verði fúsir til að láta þessa löggjöf standa óbreytta framvegis, og að þeir verði einnig fúsir að rétta landbúnaðinum hjálparhönd á öðrum sviðum, sem hann þarfnast hennar, t. d. til hlöðubyggingar o. fl.