17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Pétur Ottesen:

Hæstv. forsrh. talaði um, að Magnús Þorláksson væri fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stj. Búnaðarfélagsins. En Sjálfstæðisflokkurinn kaus hann ekki sem fulltrúa sinn í stj. Búnaðarfél., heldur kaus flokkurinn hann sem fulltrúa bændanna af sinni hálfu. Telur hæstv. forsrh. sig fulltrúa síns flokks í Búnaðarfélagsstj.? (Forsrh.: Fyrst og fremst). Heldur hann sig fyrst og fremst eiga að gæta pólitískra hagsmuna Framsóknarflokksins, þegar hann tekur þátt í stj. Búnaðarfélagsins? Sé svo, þá lítur hann algerlega rangt á hlutverk sitt. Búnaðarfélagsstj. á að hugsa um hag bændanna án tillits til pólitískra flokka. Ef hún lítur ekki þannig á starf sitt, þá koma fram í því pestnæm sjúkdómseinkenni, sem þarf að uppræta.

Aðdróttun forsrh. í garð Sjálfstæðisflokksins um það, að hann mundi ráðast á jarðræktarstyrkinn, ef hann kæmist til valda, er ekki svaraverð. Jarðræktarlögin eru samin og sett fyrir till. og atbeina manna, sem skipa Sjálfstæðisflokkinn, og auk þess er það svo, að allt það, sem gert hefir verið af því opinbera til umbóta og viðreisnar landbúnaðinum síðari árin, er ýmist fram komið fyrir atbeina manna úr þeim flokki eða stutt af þeim flokki með ráðum og dáð. Ummæli hæstv. ráðh. eru því gersamlega tilhæfulaus og þvert ofan í allt það raunverulega í þessu efni og sýna einungis hina alþekktu framhleypni og fljótfærni ráðh.