17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Hákon Kristófersson:

Ég er nú alllengi búinn að sitja á þingi, og man ég þó aldrei eftir því fyrr, að fundur væri hafður þann dag, sem nú er byrjaður. Má slíkt firnum sæta.

Hv. þm. Borgf. hefir nú tekið fram margt af því, sem ég vildi sagt hafa um þetta mál.

Það er alltaf leiðinlegt, þegar hæstv. forsrh. segir eitthvað það, sem hann hefði ekki átt að segja. Hann hefir fyrr látið fjúka orð um flokk þann, sem ég fylli, sem maður hefði varla búizt við úr þeirri átt. Hinn skynsami og góðgjarni maður, hv. 1. þm. Skagf., hefir nú sem fyrr borið fram viturlega till., og á hann sízt skilið brigzlyrði fyrir.

Hv. þm. V.-Húnv. kom fram með fróðleik hér, sem mikilsverður er fyrir búnaðarframkvæmdirnar. Hann upplýsti það, að hægt væri að rækta hverja dagsláttu fyrir það verð, sem styrknum fyrir hana nemur. Ef á þessu má byggja, ætti hv. þm. að láta ljós sitt skína sem víðast. Ég vildi, að hann ræktaði dálítið í minni sýslu á þann hátt. Ef hann tæki að sér að vinna dagsláttuna þar, þó ekki væri fyrir minna en 100 kr., mundi það verða borgað með glöðu geði.

Mig furðar dálítið á að heyra afstöðu Magnúsar Þorlákssonar í þessu máli. Ég er nefnilega ókunnugur öllum málavöxtum. Við hvað miðar Magnús till. sínar um stærð dagsverksins? Miðar hann þær við það, hvað kostar hann að rækta hvern fermetra suður á Blikastóðum? (BÁ: Vitanlega meðal annars). Ég þakka fyrir upplýsinguna. En ég vil benda á það, að þessi heiðursmaður fær oft mjög ódýra menn til að vinna að jarðræktinni. Hann tekur oft allvel þroskaða unglinga til að kenna þeim jarðyrkju, og geldur þeim eflaust lítið kaup. Er eðlilegt, að hann geti ræktað nokkra faðma ódýrt með svo ódýrum vinnukrafti. Hitt er líka vitanlegt, að jörðin á Blikastóðum er ekki sambærileg til vinnslu við þá jörð, sem t. d. Barðstrendingar hafa til að rækta. Af þessu leiðir, að það er mjög villandi að miða við, hvað kostar að vinna fermetrann hjá Magnúsi á Blikastöðum.

Það var réttilega tekið fram hjá hv. þm. Borgf., að Magnús er ekki fulltrúi neins ákveðins pólitísks flokks. Ég veit alls ekki til, að hann sé sérstaklega fulltrúi minn eða annara sjálfstæðismanna í stj. Búnaðarfélagsins. Skárri væri það líka auminginn, ef hann gæti ekki komið fram sem fulltrúi bændanna yfirleitt, þó hann sé kosinn af þm. Sjálfstæðisflokksins. Ég hélt, að Magnús á Blikastöðum væri meiri maður en svo, að ætla mætti slíkt.

Ég hugsa til þess með mikilli ánægju, þegar hv. þm. V.-Húnv. fer að styðja mig og sýslunga mína við ræktunina, með því að miðla okkur af sinni miklu þekkingu á því, hvernig hægt er að rækta á ódýran hátt. Ég er viss um, að bróðurkærleiki hans er svo víðfeðma, að hann nær allt vestur í Barðastrandarsýslu.