13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. hefir lagt hér fram tvö skjöl og segir, að annað sé þýtt af löggiltum skjalaþýðara, en hitt af lögfræðingi. Því ekki búfræðingi? Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að þessi löggilti skjalaþýðari skyldi ekki vera látinn gera báðar þýðingarnar, sérstaklega þar sem stóryrðin koma aðeins fyrir í þýðingu lögfræðingsins. Í þeirri þýðingu, sem hinn löggilti skjalaþýðari hefir gert, er einungis sagt, að það haft sé á tolltekjunum, að ekki megi veðsetja þær öðrum, og það er dálítið annað en að þær séu veðsettar, eins og hv 1. þm. Skagf. réttilega benti á. Ég hefi sjálfur haft með höndum lántökur erlendis og sætt sömu skilyrðum. Lánveitandinn heimtaði ekki, að ég veðsetti sér eigur mínar, heldur að ég veðsetti öðrum þær ekki. Þetta er algengt, þegar um lántökur er að ræða, og er allt annað en að veðsetja eigur sínar þeim aðilja, sem lánið veitir. Hinsvegar hefir þetta mikla þýðingu fyrir lánveitandann, sem með þessu tryggir sér, að aðrir njóti ekki betri réttar en hann sjálfur.

Ég vil endurtaka það, að mér þykir næsta undarlegt, að einmitt það skjalið, sem hæstv. forsrh. leggur mesta áherzlu á og stóryrðin eru í, skuli vera þýtt af lögfræðingi, en ekki af hinum löggilta skjalaþýðara. Um það, hvað rétt sé í þessu efni, skal ég ekkert segja. Ég er ekki bær þar um að dæma, því að ég hefi ekki séð þá samninga, sem fram fóru um enska lánið.

Um málið sjálft vil ég segja það — og beini ég því fyrst og fremst til hv. þm. Mýr., sem talaði hér einna hvellstum rómi —, að það stendur enn óhrakið, að annaðhvort verður að leggja til grundvallar þá afstöðu, sem var, þegar lánið var tekið, eða þá að miða við útkomuna. Hv. þm. segir, að lánið hafi verið mjög óhagstætt, afföllin 16% og vextir 7%. Þetta vil ég leiðrétta. Við tökum 500 þús. £ lán og fáum útborgað 420 þús. £. Með þessu greiðum við c. 9 millj. skuld í dönskum krónum, svo að ef lánið hefði ekki verið tekið, myndum við nú skulda 9 millj. í dönskum krónum eða 11 millj. í ísl. kr. Hinir „effektivu“ vextir lánsins eru því 7%. Afföllin vinnum við upp með gengismismuninum.

Ég segi ekki, að þetta sé hv. 1. þm. Skagf. að þakka. En annaðhvort verður að þakka honum þetta eða hafa af honum ámæli fyrir það, hve miklum vandkvæðum það var bundið að taka þetta lán.

Hv. þm. Mýr. heldur því fram, að Íslandsbanka hafi verið gerður bjarnargreiði með þeirri hjálp, sem honum var veitt með enska láninu. Þetta er hin mesta fjarstæða. Bankanum var hinn mesti greiði gerr með láni því, sem hann þá fékk. Bankinn græddi á láninu, því að hann tekur sterlingspundið á 27 ísl. kr., en greiðir það með 22.

En þó að Íslandsbanka hafi ekki verið gerður neinn bjarnargreiði með þessu, má vel vera, að það sé Bjarnagreiði af hv. þm. Mýr. að ganga svo langt í liðveizlu sinni við stj. og hann nú gerir.

Ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort stj. hefði ekki boðizt nein tilboð um lántöku. Hæstv. ráðh. svaraði því neitandi. Ég spurði um það, hvort stj. hefði ekki boðizt nein tilboð fyrir milligöngu Páls Torfasonar, vegna þess, að ég hefði ástæðu til að halda, að svo hafi verið. Ég hefi heyrt, að samkv. því tilboði ættu 91% af láninu að útborgast, og að vextirnir væru 5½%. Þetta er fyrsta tilboð, svo að vænta má betri kjara, ef til samninga kemur.

Hæstv. ráðh. eru að vitna til álits erlendra fjármálamanna í þessu máli. Ég verð að segja það, að það situr illa á þeim að vitna til þessara manna. Hæstv. forsrh. hefir sjálfur fengið skeyti frá bankastjóra eins aðalbankans á Englandi, Sir Eric Hambro, þar sem hann segir, að ef Íslandsbanki verði ekki opnaður aftur, muni af því leiða spjöll á lántrausti ísl. ríkisins og allra íslenzkra stofnana, eða eins og segir í skeytinu: „The credit of government and all icelandic institutions are affected“. Þessi merki erlendi bankamaður segist skora eindregið á hæstv. forsrh. — „I strongly urge you“ stendur í skeytinu — að grípa til hinna sterkustu ráða til þess að sjá Íslandsbanka borgið.

Þetta skeyti hins merka bankamanns Englendinga, Sir Eric Hambros, hefir hæstv. forsrh. virt að vettugi. Nú vitnar hann sjálfur til álits erlendra fjármálamanna. En hverjir eru þessir menn, eða hvaða stofnanir eru það, sem hæstv. ráðh. eru að vitna til? Ég bið þá að nefna nafn á einhverjum þessara manna eða einhverri þessara stofnana. Hæstv. ráðh. geta ekki búizt við því, að ég eða aðrir taki mark á ummælum ónafngreindra manna eða stofnana, þegar þeir sjálfir virða að vettugi ummæli annars eins fjármálamanns og Sir Eric Hambros.

Þó að ég treysti hæstv. stj. illa, sé ég mér ekki annað fært en að heimila henni að taka þetta 12 millj. kr. lán, þó að ég óttist, að stj. gangi erfiðlega að útvega það, eftir þá atburði, sem nú hafa gerzt í okkar þjóðlífi fyrir tilstilli hennar.