22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3591)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. S.-M. talaði á síðasta þingi um efnishlið þessa máls. En þá var svo rækilega sýnt fram á afleiðingarnar af flutningi þingsins til Þingvalla, að hv. þm. hefir ekki þorað að fara út í þá sálma að þessu sinni. Ég kann illa við formið á þessari till. Hv. flm. vilja gefa kjósendum kost á að segja sitt álit, en þeir þora það ekki sjálfir. Mér finnst koma fram svo mikil óheilindi í þessu, að engum öðrum en flm. er trúandi til slíks. Hvers vegna á að varpa málinu undir úrskurð kjósenda í landinu? Er nokkur ástæða fyrir þingið að þjóta upp til handa og fóta, þótt nokkrir vindbelgir gali um þetta á ungmennafélagsfundum úti um land? Hugmyndin um flutning þingsins er algerlega úrelt, eins og staðhættir eru nú orðnir hér á landi. Hún hefði ef til vill átt við meðan engir bæir voru myndaðir hér á landi. Einfaldasta leiðin til þess að vita vilja kjósenda er, að þm. sjálfir ræði málið við þá á þingmálafundum. Því næst gætu þm. farið að berjast fyrir málinu á eigin spýtur, ef þeir treystu sér til. Ef þeir legðu áherzlu á framgang málsins, gætu þeir við kosningar lagt umboð sitt við, að kjósendurnir fylgdu því. Þetta væri hinn rétti gangur málsins.

Ég er ekki á móti því, að málið fari til allshn., því ég veit, að ef því verður vísað þangað, þá mun það sofna svefninum langa, svo sem vera ber.