22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Lárus Helgason:

Ég get ekki betur séð en að þessi þáltill. sé ákaflega óþörf. Ef hún á að vera til þess að fá almenningsvilja fram, þykist ég sjá, að hægt myndi að fá hann með öðru móti, ef hann er svo ríkur, sem þeir halda fram sumir, sem hafa flutt þessa till. Ég sé ekki betur en að almenningur geti komið með þetta á þingmálafundum, og sé viljinn sterkur, mætti þar herða á þingmönnum að fylgja málinu fast fram, sem sé að þingið yrði flutt til Þingvalla. Það finnst mér miklu eðlilegri leið en að reyna að toga þetta út úr mönnum með þeirri aðferð, sem þáltill. ber með sér. Það var líka réttilega tekið fram hjá hv. 1. þm. Skagf., að ógerningur er að leggja svo illa undirbúið mál fyrri kjósendur, og það er nauðsyn, að mönnum sé gerður kostur á að sjá kostnaðarhliðina jafnframt og atkvgr. fer fram.

Annars sýnist mér, að fleira sé illt við þetta mál en kostnaðarhliðin. Ég er sannfærður um, að fjölda bænda, sem sitja og koma til að sitja á þingi, hlýtur að vera mjög meinlegt að sækja það að sumri til. Það er líka ógeðslegt að þurfa að sitja inni við þingstörf á þeim tíma, og bændur eru miklu þarfari landinu, ef þeir vinna að heyskap á sumrin en þingstörfum á vetrin, heldur en ef þessu er snúið við, eins og hér er ætlazt til. Ég býst við, að yfirleitt vilji þeir, sem sendir eru af þjóðinni til að vinna þessi störf, heldur hafa til þess vetrartímann.

Það er ómögulegt að segja um, hvað yrði ofan á, ef málið verður borið svona illa undirbúið undir þjóðina. En kannske væri betra að þurfa svo að snúa aftur og gera öfugt við það, sem kæmi fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þegar menn á eftir færu að athuga það og sjá, hve miklir annmarkar væru á því?

Ég ætla svo að enda mál mitt á því, að okkar mikli frömuður, Jón Sigurðsson, sá margt glöggt og vel, og ég man ekki betur en að hann legði til, að Alþingi yrði háð í Reykjavík, og því eigum við að fylgja.