22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Lárus Helgason:

Hv. 2.þm. Árn. tók það dæmi til að mæla með flutningi Alþingis til Þingvalla, að sýslufundir Árnesinga hefðu gengið mun betur síðan hætt var að halda þá á Eyrarbakka, því að við Ölfusá séu allir fundarmenn saman komnir á einum stað. Það er vitanlegt, að margt fleira en þetta getur komið til greina, sem stytti og lengi fundi, t. d. undirbúningur frá oddvita. Í Skaftafellssýslu hafa sýslufundir t. d. staðið stundum í viku eða lengur, en stundum ekki nema 2–3 daga. Nú á síðari tímum eru þeir miklu skemmri tíma en áður. Þetta þakka ég góðum undirbúningi og röggsamri fundarstjórn. Ég er nú farinn að hrósa hér andstæðing mínum í stjórnmálum, og sé ég ekkert á móti því, þar sem um sannleika er að ræða, en ég tek þetta bara sem dæmi til að sýna það, að þótt sýslufundur gangi betur við Ölfusá en á Eyrarbakka, skiptir það engu máli um það, hvort málin gangi betur, þótt Alþingi verði flutt til Þingvalla, þar sem þingmenn verða allir á einum stað.

Hv. þm. talaði um, að meiri samúð myndi verða meðal þingmanna, ef þeir byggju allir á sama stað. Ég get ekki betur séð en menn hér á þingi hafi fullkomlega tækifæri til að kynnast hver öðrum, svo ekki sé það í vegi fyrir samvinnu þeirra í milli. Þetta lýsir vantrú á þjóðinni hjá þeim, er að þessu standa. En þetta er alls ekki rétt, og slík ráðstöfun sem þessi því alveg óþörf.

Ég ætla ekki að telja hv. þdm. trú um, að við þingmenn höfum betra vit á þessu en aðrir. En hitt er vitanlegt, að það er fjöldi fólks, sem hefir annað að gera en hugsa um þessa hluti, og það er rangt að bera þetta upp fyrir þjóðinni eins og hún nú er undir þetta búin. Það er ekki vantraust á þjóðinni, þó að ég vilji ekki bera þetta upp fyrir hana eins og sakir standa nú.

Hv. þm. talaði um, að þetta væri stórmál. Ja, það má kannske kalla það svo, ef það kemst í námunda við það, sem hv. þm. talaði um, að slíkur flutningur mundi kosta tugi millj. kr. Er hv. þm. virkilega alvara? Höfum við ekki meir en nóg að gera með það fé, sem fyrir hendi er? Það væri nær að nota það til að gera vegi, brýr eða aðrar verklegar framkvæmdir en að flytja þingið með ærnum kostnaði og jafnmikilli fordild, sem raun er á, því engin sönnun er fengin fyrir því, að þingstörf fari þar betur úr hendi en hér. Ég ætla svo að vona, að þessi till. fái að sofna hér í þessari hv. deild, eins og hún hefir fengið á undanförnum árum. Það væri ákaflega óviðfelldið, að á sama tíma og verið er að skera allt við neglur sér til vega og annara verklegra framkvæmda væru nógir peningar til þessa óþarfa og illa hugsaða fyrirtækis.