22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Ég þarf fáu að svara hv. þm.; flestu, sem máli skiptir, hefir hv. 2. þm. Árn. svarað.

Það hefir verið reynt nú, eins og áður, að gera grýlu úr kostnaðarhlið þessa máls, ef til þingflutnings kæmi. Um þetta hefir verið talað á víð og dreif eins og stórmerka uppgötvun, þótt aðeins sé það yfirvarp. Út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. upplýsti ég áður, að eftir því, sem fram kom á þinginu 1926, mundu nauðsynlegar byggingar á Þingvöllum kosta 500–600 þús. kr. Sú áætlun var þá gerð af glöggskyggnum manni, aðalmótstöðumanni málsins, þáv. forsrh. En það segir sig sjálft, að ómögulegt er að komast að neinni fastri niðurstöðu um það, hvað kostnaðurinn mundi mikill verða. Hann getur svo að segja alveg farið eftir því, sem Alþingi vill vera láta. Það er vafalaust hægt að draga mjög úr þeim kostnaði, jafnvel að há Alþingi undir berum himni um hásumarið eða undir tjaldi og búa í tjaldbúðum, eins og var til forna. En það verður auðvitað ekki gert, þótt til kæmi, og þess vegna mundi þurfa að koma upp nauðsynlegum byggingum á þingstaðnum. Verð þeirra mundi að sjálfsögðu fara eftir því, hve veglegar og stórar Alþingi vildi hafa þær. En óneitanlega mætti komast af í byrjun með ódýran húsakost, ef þörf þætti.

Einhver andmælandi taldi, að við flm. mundum hafa gleymt því, að þingið þyrfti að hafa prentsmiðju og bókasafn. Nei, við höfum alls ekki gleymt því og álítum ekkert þrekvirki að koma þar upp lítilli prentsmiðju. Ef þinghús væri reist á Þingvöllum, mundi sjálfsagt, að það rúmaði bæði bókasafn þingsins og prentsmiðju. Jafnvel gæti til álita komið, að það rúmaði heimavistir fyrir þingmenn líka.

Það var minnzt á skoðun Jóns Sigurðssonar í þessu máli. Um hana hefir áður verið rætt aftur og aftur, oftast þó til að hnekkja þingflutningi. En þar er eigi rétt með farið, því að sannað hefir verið og sýnt, að Jón Sigurðsson var í hjarta sínu sammála Fjölnismönnum, sem vildu hafa Alþingi á Þingvöllum, þótt hann teldi flutning þingsins til Þingvalla ofraun þjóðinni og óframkvæmanlegan 1844, vegna átakanlegrar fátæktar hennar og samgönguörðugleika. Hann var of hagsýnn og hygginn til þess að vilja, eins og þá stóð á, stofna mikilsverðasta máli þjóðarinnar, endurreisn þingsins, í hættu vegna ofurkapps um það, hvar það ætti að koma saman.

Hv. þm. V.-Sk. hélt því fram, að samvinna þingmanna mundi ekki verða heillavænlegri eða betri á Þingvöllum en hér. Slíkir spádómar sanna ekkert. En vel má hér nefna hliðstæð dæmi, t. d. um tvo skóla, þar sem nemendur annars eru dreifðir um fjölmennt umhverfi, en nemendur hins allir í heimavist. Enginn vafi er á því, að samvinna öll verður meiri og nánari í heimavistarskólanum. Ég þekki hvorttveggja þetta fyrirkomulag af eigin reynd og er ekki í neinum efa um, að á þessu tvennu er stórkostlegur munur.

En ekkert þýðir að þrátta um svona hluti, enda er þetta atriði fremur smávægilegt, samanborið við aðrar hliðar málsins. Vel má í þessu sambandi — þegar hv. þm. sýta um kostnað við þingflutning — benda á það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði á þinginu 1926, þegar þetta mál var til umr., að hér væri um að ræða hluti, sem ekki sæmdi að meta til peninga.

Þetta er svo stórt mál og örlagaríkt fyrir þjóðfélagið, að úrslit þess mega ekki velta á því, hvort breytingin kostar nokkrum krónum meira eða minna.

Úr því ég er nú á annað borð farinn að vitna í ummæli þeirra manna, sem áður hafa lagt þessu máli liðsyrði, vil ég minna á grein, sem hv. 1. þm. Reykv. skrifaði í Eimreiðina árið 1923. Honum mæltist þar einkarvel og komst hann svo að orði, að þingflutningurinn til Þingvalla væri prófsteinn á þroska íslenzku þjóðarinnar og þegar hún þekkti sinn þrótt og vitjunartíma, þá mundi hún aftur flytja Alþingi á Þingvöll.

Ég vil ekki tefja tímann lengur við tilvitnanir í eldri ummæli stuðningsmanna málsins. Umræðurnar frá síðasta þingi munu líka flestum í fersku minni. Þess vegna takmarkaði ég líka framsögu mína að þessu sinni. Frekari umr. geta að vísu tafið málið, en skoðunum munu þær ekki breyta.