22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Magnús Jónsson:

* Það var ætlun mín að leiða hjá mér að taka þátt í þessum umr., því ég hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls. En það voru einstök atriði í ræðu hv. 2. þm. Árn., sem mér fannst erfitt að þegja alveg um.

Það var rétt hjá hv. 1. þm. S.-M, að ég var einu sinni dálítið veikur fyrir þeirri hugsjón, sem liggur á bak við þá skoðun, að flytja eigi Alþingi til Þingvalla, og skrifaði grein um hana. Þá vakti sú hugsun fyrir mér, að það væri vel við eigandi að sýna þessum fornhelga stað þá virðingu að hafa Alþingi þar í framtíðinni. En nú er ekki lengur talað um það sem aðalatriði þessa máls, að þingið eigi að vera á fornhelgum stað, heldur hve nauðsynlegt sé að koma því burtu úr Reykjavík og hennar pestnæma loftslagi. Hin fagra hugsjón er að deyja, en í staðinn kemur einhver leiðinda „agitation“ gegn höfuðstaðnum.

Það hefði mörgu þurft að svara af ummælum hv. 2. þm. Árn., ef þau hrykkju ekki af eins og vatn af gæs. Hann sagði eitthvað á þá leið, að „Reykjavíkurskríllinn.“ hefði eyðilagt saklausa og góða skemmtun manna í Skeiðaréttum. Hverja telur hann til þessa skríls?

Héðan hefir farið margt heiðvirðra borgara í Skeiðaréttir, sem ég veit ekki til, að hafi verið neitt ósiðsamari en sumir samsýslungar þessa hv. þm. Og ég er viss um, að ef þeir væru leiddir fyrir hann einn og einn, þá þyrði hann ekki að segja um neinn þeirra, að hann tilheyrði þessum „skríl“.

Réttirnar hafa frá fornu farið verið einskonar þjóðlegar hátíðir, en þar sem margir innansveitarmenn hafa þar störfum að gegna, er ekki óeðlilegt, þó meira beri á aðkomufólki við skemmtanirnar. Ég mótmæli því alveg ummælum hv. 2. þm. Árn. um reykvískan „skríl“ sem rakalausum rógi.

Hv. þm. þóttist vera á móti fjölgun þingmanna Reykjavíkur af þeim ástæðum, að Reykvíkingar hefðu svo mikið vald yfir þingmönnum yfirleitt. Ég vil leyfa mér að skora á hann að benda á einhver dæmi þess í löggjöfinni, að þetta vald hafi komið í ljós. Hvenær og hvernig hefir verið hlaðið svo mjög undir Reykjavík af löggjafarvaldinu? Eða hverskonar er þetta ógurlega ónæði, sem þm. verða fyrir hér? Þetta eru bara gömul glamuryrði, sem kastað er fram aftur og aftur, af því þeim er ekki mótmælt og ekki krafizt sagna um, á hverju þau eru byggð. Það má vera, að menn, sem sækja um styrk til þingsins, tali við þingmenn, en þeir myndu eflaust gera það líka á Þingvöllum.

Hvað snertir val annara þjóða á þingstöðum sínum, þá veit ég ekki, hvort nokkurt löggjafarþing er háð í minni bæ en Reykjavík; auðvitað er Washington miklu stærri. Og Bandaríkjamenn þurfa ekki að hugsa um, hvað þingsetrið kostar; þeir hafa þvert á móti gaman af að sýna auðæfi sín og veldi með skrautlegu stjórnarsetri, og að byggja þar raðir af dýrum og glæsilegum höllum; en slíkt nýtur sín miður og er ekki eins áberandi í hrikalegri stórborg eins og í lítilli borg. Það má segja, að þeir flytji þingin í þessar borgir til þess að þau kosti meira og séu meiri auglýsing um veldi þjóðarinnar.

Hv. flm. halda því fram, að næði til þingstarfa verði miklu betra á Þingvöllum en hér. Ég er á allt öðru máli. Ég held einmitt, að þinghald yrði ónæðissamara á Þingvöllum, af því að Reykjavík er orðin þetta stór. Þeir, sem koma til Þingvalla, eru iðjulausir menn, sem koma þangað til að skemmta sér og til að finna þingmenn, ef þing yrði háð þar. Þó að hér sé mannfleira en á Þingvöllum, skipta menn sér minna af þingmönnum en þeir mundu gera á Þingvöllum. Hér eru menn bundnir við sín störf. Ég leyfi mér því að mótmæta harðlega ummælum hv. þm. um Reykjavíkurskrílinn, sem geri þeim svona mikið ónæði; það er allt orðum aukið og órökstutt.