22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Pétur Ottesen:

Það kom greinilega fram í ræðu hv. flm. áðan, að andstaða hans gegn því, að till. sé vísað til nefndar til þess að rannsaka kostnaðarhlið hennar, er einungis sprottin af því, að hann er hræddur við niðurstöðuna. Hann er hræddur um, að það, sem rannsóknin leiðir í ljós, verði á þann veg, að sá þjóðernisandi, sem hann byggir till. á, verði borinn ofurliði. Það þýðir ekkert fyrir hv. flm. að vera að margtaka það upp eftir öðrum, að þetta og þetta mál sé svo óskaplega þýðingarmikið, að það sé alveg sama, hvað það kosti. Málið verði að ná fram að ganga. En við erum nú einu sinni svo miklir smælingjar, að við verðum að taka fullt tillit til kostnaðarins í hvaða máli sem er. Og vanræksla hv. þm. á að hafa ekki undirbúið kostnaðarhlið málsins dregur alls ekki úr skyldu þingsins til að gera það. Kjósendur landsins eiga heimtingu á að fá að vita um kostnaðinn af þessu.

Hv. 2. þm. Árn. hefir orðið mjög tíðrætt um áhrif þau, sem þingmenn yrðu fyrir hér í Reykjavík, og það atriði virtist vera hans aðalröksemd í málinu. En það er svo bæði um þingmenn og alla aðra menn, að hvar sem þeir eru á jörðunni, eru þeir undir allskonar áhrifum. Það þýðir ekki að ætla sér að flýja með þingið landshornanna á milli til þess að forðast, að þm. verði fyrir áhrifum af öðrum mönnum. Eina ráðið er að kjósa sjálfstæða menn á þing, sem láta ekki slík áhrif teygja sig lengra en góðu hófi gegnir. Ég býst við, að hv. 2. þm. Árn. tali út frá eigin reynslu. Það getur verið, að hann hafi lent í þeirri raun að liggja flatur fyrir þessum áhrifum, en hann liggur þá jafnflatur á Þingvöllum, ef hann getur ekki komið í veg fyrir, að samgöngur haldist við Þingvelli. Meðan bílar fullir af fólki þjóta til Þingvalla oft á dag, eru Reykjavíkuráhrifin alveg eins sterk þar eins og hér.

Hv. þm. neitaði að hafa sagt, að flutningur Alþingis mundi kosta 2–3 millj. kr. Hv. þm. nefndi þessar tölur; honum þýðir ekki að neita því. Og ég dró þá ályktun, að hann nefndi það, sem honum þætti rétt. En það sló sorglega út í fyrir hv. þm., þegar hann reiknaði hagsmunina af flutningnum ekki í milljónum, heldur í billjónum. Það er varla, að maður kunni að nefna svo háar tölur. Og hv. 1. þm. S.-M. þótti það ekki tiltökumál, að halda Alþingi undir berum himni á Þingvöllum! Sér er nú hver heimskan!