27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Halldór Stefánsson:

Það hefir komið hér fram till. um að vísa þessu máli til fjhn. Ég get ekki séð, hvaða þýðingu það hefir að vísa málinu eins og það liggur nú fyrir til fjhn., þar sem hæstv. stj. hefir lýst því yfir, að hún myndi ekkert gera í þessu máli, þótt till. verði samþ. eins og hún nú liggur fyrir. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að þetta er lögfræðilegt mál, sem verður að útkljá á lögfræðilegum grundvelli. Þess vegna finnst mér vera þýðingarlaust að bera þetta mál fram hér á þingi í þessu formi. En fari svo, að því verði vísað til fjhn. eins og það nú liggur fyrir, er ekki nema sjálfsagt, að n. taki það til þeirrar athugunar, sem kostur er á. Þó ber þess að gæta, að fyrir n. liggja mörg stórmál óafgreidd, og ég álít, að henni sé skylt að afgreiða þau áður en hún geti gefið sér tíma til að rannsaka þetta mál.

Eins og ég gat um áðan, er þetta mál þannig vaxið, að það er frekar lögfræðilegt atriði en það heyri undir álit eða úrskurð nefndar. Ég álít því, að nær sé að vísa því til fjvn., því að það sé þess eðlis, að það sé nánast beiðni um fjárveitingu, og að þá sé eðlilegt, að fjvn. gefi umsögn sína um slíka beiðni. Ég geri því að till. minni, að málinu verði vísað til fjvn.