27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3621)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Halldór Stefánsson:

Ég skal játa, að ég skil ekki vel samhengið í ýmsum atriðum þessa máls. Torskildast er þó þegar hæstv. stj., sem ekki hefir komizt að neinni niðurstöðu um, hvað rétt sé í máli þessu, þrátt fyrir ítarlega rannsókn, ætlast til þess, að n., sem fyrirfram er hlaðin störfum, geti komizt að niðurstöðu í því.

Hv. aðalflm. vildi heldur vísa þessu máli til fjhn. en fjvn. Ég hefi lítið annað um þetta að segja en áðan, að ef samþ. verður að vísa þessu máli til fjhn., mun hún rannsaka það eftir því sem tími verður til. En ég álít henni ekki skylt að taka það til athugunar fyrr en hún hefir afgr. önnur mál, sem fyrir henni liggja nú, og mörg þeirra eru stór mál og merkileg. Ég álít það vafasama hollustu við málið, að vilja endilega vísa því til n., sem hlaðin er störfum fyrir og ekkert getur sinnt því fyrst um sinn.

Þá vil ég víkja að því, að hv. þm. Borgf. var að þakka mér, að ég hefði meira traust á fjvn. en fjhn. og hún mundi snjallari í að taka afstöðu til þessa máls. Hv. þm. hefir annaðhvort ekki heyrt eða skilið orð mín, eða í þriðja lagi talið sér bezt borgið með því að snúa út úr þeim. Ástæða mín var einungis sú, að eftir eðli málsins væri nær að vísa því til fjvn. en fjhn.

Um það, hvor n. hafi meira að starfa, skal ég að vísu viðurkenna það, að þangað til fjvn. hefir skilað af sér áliti sínu mun hún hafa nóg að gera. En hins vil ég geta, að ýmsum hefir virzt, að hún þurfi ekki að hafa fjárl. svo lengi til meðferðar sem raun hefir á orðið. Og þegar hún hefir skilað áliti sínu, hefir hún nefnda minnst að gera. Aftur er það svo um fjhn., að ekki er líklegt, að hún geti afgr. þau mál, sem fyrir henni liggja nú, fyrr en fjvn. hefir skilað áliti sínu. Þar við bætist, að alltaf eru ýms mál að koma til fjhn., en til fjvn. kemur varla nokkurt mál nema þetta eina, fjárlögin.