13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Ég mun síðar útvega upplýsingar um það, hvað þeir menn, sem voru riðnir við samninginn um enska lánið, álíta um hann. Ég mun þá sýna fram á, að sá maður, sem tók lánið fyrir hönd stj., veðsetti ekki tolltekjur landsins fyrir því. Þessi skjöl hefir hæstv. forsrh. undir höndum., og ef hann vildi skýra hlutlaust frá málavöxtum, mundi hann leggja þau fram líka.

Það eru liðin 9 ár síðan lánið var tekið, og allan þann tíma hefi aldrei bólað á því, að tolltekjur landsins væru veðsettar. Við höfum breytt tollalöggjöf okkar eftir okkar eigin vild öll þessi ár. En nú þykist hæstv. stj. þurfa á því að halda að koma þessari skoðun inn hjá almenningi.

Og ég skil, hvað hún meinar með þessu. Hana órar fyrir því, að það geti reynzt erfitt að taka lán í útlöndum, þegar vitnast, að hún hafi drepið aðra aðalbankastofnun landsins. Þess vegna er gripið til þessa örþrifaráðs að reyna að læða því inn hjá þjóðinni, að tolltekjurnar séu veðsettar, og kenna því um, ef við þurfum að sæta einhverjum afarkostum um lántökuna.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði aldrei átt að verða ráðherra. Um það ætla ég ekki að deila við hann. Sagan mun á sínum tíma fella sinn dóm bæði yfir mér og honum. En ég ætla aðeins að minna hæstv. forsrh. á, að hann þurfti ekki einu sinni helminginn af minni ráðherratíð til þess að koma öðrum aðalbanka landsins á heljarþröm, og það þeim bankanum, sem honum var sérstaklega trúað fyrir.