14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3630)

519. mál, kaup á sauðnautum

Frsm. (Einar Jónsson):

Ég veit, að hv. þm. rekur minni til þess, hvað gert var á síðasta þingi. Þá var það, að heimiluð var talsvert stór upphæð úr ríkissjóði til sauðnautaveiða. Síðan var för farin af hraustum karlmönnum og tókst vel. Þeir komust heim með sjö sauðnaut. Þessir kálfar voru fyrst hafðir hér á Austurvelli, og þar döfnuðu þeir vel. Eftir stutta stund voru þeir færðir upp að Reynisvatni í Mosfellssveit, og er sagt, að þeim hafi farnazt þar vel líka. Nokkru seinna var ályktað, að þeir skyldu fluttir austur í girðingu í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Þar fór verr, því að eftir fáa mánuði voru 6 dauðir, en einn lifir eftir.

Landbn. þessarar deildar hefir athugað, hvað í húfi er, að láta þessa kvígu verða að engu. Þrátt fyrir óhöppin vill hún nú reyna að halda við þessu eina dýri. Því miður er engum hv. þm. eins kunnugt um það og mér, sem bý þar í nágrenninu. En mér er óhætt að fullyrða, að það er við beztu heilsu, í góðum holdum og í fullu fjöri. Kvíga þessi er höfð sem fangi í kví til þess að láta hana ekki ganga með öðrum gripum, því að mönnum er ekki grunlaust, að það hafi valdið dauða hinna, að þau gengu um nokkurn tíma með öðrum kálfum í Gunnarsholti. Kvígan hefir nú verið bólusett einum þrisvar sinnum, held ég, og er öll von til, að það dugi. Nú lifir hún auðvitað á heyi og mjólk í kví sinni í Gunnarsholti og farnast vel. En nú eiga hv. þm. að ráða því, hvort hún skuli skotin, þegar á að hleypa skepnum út í vor, eða leitað skuli annara ráða til þess að útvega henni eitthvað, sem hún gæti unað við og aukið kyn sitt.

Vitanlega fæst það ekki að kostnaðarlausu. Sigurður búnaðarmálastjóri hefir gert tilraun til að ná kaupum á dýrum með því að skrifa til Grænlands. Leiðangurinn í fyrra kostaði ríkið 20 þús. kr., og mun þó ekki hafa nærri hrokkið til að gera mennina skaðlausa. Nú býst Sigurður búnaðarmálastjóri við, að kostnaður geti orðið miklu minni með því að kaupa dýrin af dönskum Grænlandsförum. Hann hefir sýnt mér bréf, er hann hefir fengið sem svar við málaleitun sinni. Það geta allir hv. þm. fengið að sjá, og vildi ég því ekki tefja tímann með því að lesa það upp, en biðja hæstv. forseta leyfis, að þingskrifarar megi færa það inn í þingtíðindin án þess. (Forseti: Sjálfsagt að lesa það). Jæja, með leyfi hæstv. forseta. (Forseti: Þarf ekki leyfi nema um prentað mál): Þetta bréf er dagsett 7. apríl og hljóðar þannig:

„Samkvæmt bréfi yðar 20. f. m. viljum vér taka fram, að vér með ánægju viljum gera það, sem í voru valdi stendur til að útvega yður hin umbeðnu sauðnaut. Í tilefni af því viljum vér taka fram, að sauðnaut eru friðuð í Scoresbysundi, svo að sérstakt leyfi þarf til að mega fanga þar nokkur dýr.

Þetta mun verða auðvelt. Aðferðin yrði sú, að vér sendum gufuskipið, sem kemur til Scoresbysunds, lengra inn í fjörðinn, til þess að ná í nokkra kálfa, því að eins og þér vitið, er ómögulegt að koma fullorðnum dýrum út í skip. Þau eru alveg villt og óviðráðanleg. Rekist maður á hóp, getur maður skotið fullorðnu dýrin og handsamað kálfana, en að það verði eitt karldýr og tvö kvendýr, er ómögulegt að vita, og væri því gott að hafa yfirlýsingu yðar um, ef þér viljið reyna þessa málaleitun aftur, að þér tækjuð tvö karldýr í stað eins, ef svo vildi til.

Hversu langan tíma þetta tæki, að ná í dýrin, er ekki vel hægt að segja fyrirfram. Hitt er hægt að reikna út, hvað það muni miklu að koma við á Íslandi með dýrin, í stað þess að fara beint heim frá Scoresbysundi. Þetta mundi kosta talsvert, því að skip eins og Gertrud Rask kostar talsvert daglega í rekstri. Vér teljum daglegan kostnað 7–800 kr., og við gerum ráð fyrir um það bil einni viku til að ná dýrunum, og svo viðkomunni í Reykjavík.

Það leiðir auðvitað af sjálfu sér, að yður verður ekki reiknað þetta dýrar en það kostar oss; en betra væri að heyra skoðun yðar um það, hvað miklu megi offra til í þessu efni, því að komið getur það fyrir, að ferðin inn í fjörðinn verði árangurslaus, þannig að enginn hæfilegur dýrahópur finnist“.

Eftir þetta svar frá stjórn grænlenzku verzlunarinnar hefir Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri góða von um það, að hægt verði þarna að komast að betri kjörum um útvegun nokkurra dýra en reyndin varð um kostnað af hinni rösklegu för árið sem leið. Og allar líkur eru til, að ekki muni miklu um kostnaðinn, þó að dýrin, sem næðust, yrðu nokkru fleiri en gert er ráð fyrir. Það getur verið, að 2–3 dýr kosti 10 þús. kr., en vel má líka vera, að 10 dýr náist fyrir það verð.

Nú geri ég það í sátt og samráði við hv. landbn. að bera það undir þingið, hvort nú eigi að eyðileggja þessa einu kvígu eða þá ná henni í ektamaka eða samskonar dýr, sem sé henni til ánægju og gagns.

Áður en ég lýk máli mínu vildi ég minnast á meðferð þessa dýrs. Ekki skal ég fullyrða, að það sé ekki illa ráðið að sleppa því út í hraun og móa, en vankvæði verða á að geyma það einangrað í girðingu. Sandgræðslusvæðin þurfa að vera alfriðuð, svo að ég geri ekki ráð fyrir, að þessum dýrum verði leyft að kroppa og sparka þar.

Af því ég hefi verið spurður um þrif og hreysti kvígunnar, skal ég bæta við, að fyrir ekki alllöngu kom ég að Gunnarsholti og sá gripinn. Þetta er engin stærðarskepna, hún hafði þá nýlega verið vigtuð og reyndist 58 kíló, og var ekki við meiru að búast. Og mér er óhætt að segja, að hún er lífleg.

Ég reiði mig á, að hv. þdm. greiði atkv. með sanngirni um þetta mál.