14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3632)

519. mál, kaup á sauðnautum

Sveinn Ólafsson:

Úr því að verið er að tefla fram tilboðum um útvegun sauðnauta, þykir mér rétt að minna á, að fyrir liggur tilboð frá h/f „Eiríki rauða“, hinum sama félagsskap, sem aflaði kálfanna í sumar leið. Hefir þetta félag boðizt til að útvega sauðnaut gegn því, að því verði greiddur rekstrarhalli af förinni í fyrra, sem er 6 þús. kr. Veit ég ekki, hvort það eru fá dýr eða mörg, sem „Eiríkur rauði“ býst við að geta útvegað, en ég get ímyndað mér, að þetta félag sé líklegast til að geta útvegað sauðnautin við sæmilegu verði. Tilboð það frá Dönum, sem hér hefir verið upp lesið, er alveg óaðgengilegt, þar sem það er bundið við veiðiskap í för, sem enginn veit, hvað kostar eða hvenær verður farin. Sýnist mér sjálfsagt fyrir hæstv. stj. að gera annað tveggja, að semja við „Eirík rauða“ eða Norðmenn þá, sem fara í norðurveg.

Ef þáltill. verður samþ., er hæstv. stj. sjálfráð, hverja leið hún velur til útvegunar sauðnautanna, en mér fannst rétt, að það kæmi fram á Alþingi, að þetta tilboð, sem ég nefndi, liggur fyrir frá „Eiríki rauða“.