14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

519. mál, kaup á sauðnautum

Frsm. (Einar Jónsson):

Ég er þakklátur hv. þm. N.-Þ. fyrir þau hlýju orð, sem hann sagði í garð þessa máls. Vona ég, að hv. d. kunni að meta orð hans nú sem fyrr, og að þáltill. fái þeim mun betri byr, sem orð hans voru hlýlegri.

Ég hefi ekki beint á móti því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, en þó var umsögn hans öll verri en hv. þm. N.-Þ. Það er ekki rétt hjá hv. þm., að ekki sé um nema tvær leiðir að velja, að kaupa dýrin af Norðmönnum eða að semja við „Eirík rauða“. Hefi ég það fyrir satt, að frá Norðmönnum er ekki að fá nema dýr, sem geymd hafa verið í dýragörðum lengri eða skemmri tíma, og hlýtur því að hafa fallið á þau mikill kostnaður. Ég get ekki skilið, hví hv. þm. hefir svo mikið á móti tilboði því, er ég las upp frá Dangaard-Jensen nýlendustjóra um að veiða dýr og koma með þau hingað, gegn greiðslu kostnaðarins. Sé ég engar líkur til, að þessi kostnaður yrði á neinn hátt minni, þótt við færum sjálfir aðra veiðiför norður. Auk þess felli ég mig ekki við veiðiaðferð þá, sem skipverjar af „Gottu“ þurftu að hafa í sumar, er þeir skutu niður öll fullorðnu dýrin til að ná kálfunum. (LH: Grænlendingar verði víst að gera þetta líka). Þeir um það, en mér sárnar þessi veiðiaðferð svo, að ég vil ekki senda mína eigin landa norður í höf til að beita henni.

Út af því, sem skilja mátti á hv. þm. N.-Þ., að e. t. v. væri mjög erfið aðstaða að komast svo langt norður sem þurfti til að ná í dýrin, vil ég segja, að við þurfum alls ekki að láta okkur koma það neitt við. Okkur er nóg, ef við fáum dýrin hingað fyrir sæmilegt og sama sem ákveðið verð. Tel ég á engan hátt betra að hafa þá aðferð, sem höfð var í fyrra, að lofa ákveðnu framlagi, — og eiga síðan von á eftirkröfum, eins og nú hafa komið. Ég var ekki með í þessari för í fyrra, en ég get ekki neitað, að mér þykir hún hafa sorglega farið: Fyrst er eytt til fararinnar 20 þús. kr., síðan allmiklu fé til fóðurs kálfunum, og nú eru þeir allir dauðir nema einn. Þar fyrir dettur mér auðvitað ekki í hug að segja, að leiðangursmenn eigi á því nokkra sök, að dýrin drápust. En ég er handviss um, að reynslan hefir nú kennt okkur það, að sauðnaut geta lifað hér, ef rétt er með þau farið. Það, að dýrin voru flutt austur og svipt mjólkinni, sem þau eru vön að fá frá móður sinni, — sem nú var engin til, — var áreiðanlega ein höfuðástæðan til þess, hve dýrin urðu mögur og að þau fengu þá gest, sem varð þeim að bana. En þetta þarf ekki að koma fyrir aftur.