13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Bjarni Ásgeirsson:

Það, sem ég vildi fá slegið föstu, er þetta, að það kemur ekki enska láninu við, hvaða gengissveiflur hafa orðið síðan. Þær breytingar koma ekki á neinn hátt við kjörum þeim, sem við urðum að sæta um lántökuna í upphafi, og er því sérstakt mál út af fyrir sig.

En út af þessari tilraun sumra hv. þdm. að fela aðalkjarna þessa máls í gengissveiflum síðari ára, þá vil ég í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, upplýsa um það, að mjög glöggur og fróður fjármálamaður hefir reiknað það út, að ef við greiðum lánið upp 1932, þá séu raunverulegir vextir þess sem næst 10%, eða nákvæmlega tiltekið 9,8%.

Ég ætla litlu að svara hv. þm. N.-Ísf. og hv. 1. þm. Skagf. Þeir hafa brýnt raddir sínar út af þeim skilningi, sem hæstv. stj. leggur í enska samninginn, og segja, að stj. dragi hlut erlendra lánardrottna með því að halda fram, að tolltekjur landsins séu veðsettar. Og báðir þessir hv. þm. hafa gengið svo langt að saka hæstv. stj. um landráð í þessu efni. En ég vil aðeins í þessu sambandi minna á, að í hvert skipti, sem hæstv. stj. leitar fyrir sér um lántöku erlendis, þá rekur hún höfuðið í þennan sama stein: að tolltekjur Íslands séu veðsettar, og þetta er dómur allra fjármálamanna úti um heim, sem spurðir eru um þetta. Þess vegna verður mér að spyrja: Hverjir eru landráðamenn, þeir, sem halda því fram, að tolltekjurnar séu veðsettar, eða hinir, sem veðsettu þær?