12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3650)

468. mál, kjördæmaskipun

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Við þrír Alþýðuflokksþm. erum flm. þessarar till. fyrir hönd flokksins. Hér á Íslandi ríkir í orði þingræði og lýðstjórnarfyrirkomulag. En grundvöllurinn undir því ætti að sjálfsögðu að vera almennur og jafn kosningarréttur, svipaður því, sem er í nálægum löndum, þar sem samskonar skipulag er. En nú fer því fjarri. Almennur er kosningarrétturinn ekki, því að samkvæmt stjskr. eru ýmsir menn undanskildir kosningarrétti. Það eru t. d. þeir, sem hafa orðið að þiggja fátækrastyrk, og þeir, sem ekki hafa náð 25 ára aldri, þó að þeir séu annars fullveðja 21 árs. Mest af þessum höftum er nú afnumið við kosningar til sveitar- og bæjarstjórna, en ekki við kosningar til Alþingis. Við höfum ekki tekið fyrir þessa hlið að sinni, heldur hina, að gera kosningarréttinn jafnan, hvar sem er á landinu. Nú hafa kjósendur víðsvegar á landinu mjög mismunandi áhrif á þingið. Þingið, sem ætti að vera spegilmynd af þjóðinni, er það ekki, nema þá af hendingu. Það er orðinn nokkuð langur tími síðan komið var á þeirri kjördæmaskipun, sem nú gildir, og hún var miðuð við allt aðrar kringumstæður. Þá bjó mestur hluti þjóðarinnar í sveitum, en síðan hefir orðið hinn mikli innflutningur þaðan til bæjanna. Í sumum sveitum hefir þó einnig fjölgað nokkuð, en víðast staðið í stað eða fækkað. Afleiðingin af þessu er það, að þingmenn, sem sitja á Alþingi, hafa mismunandi tölu af kjósendum bak við sig. Við það að taka hagskýrslur um kjósendur 1927 kemur þetta mjög greinilega í ljós. Það eru ein 10 kjördæmi með 16 þm., sem hafa meira en meðaltal kjósenda:

Kjósendur

Þingmenn

Reykjavík . . . . . .

12.496

4

S.-Þingeyjarsýsla ....

1.937

1

Rangárvallasýsla ....

1.706

2

Gullbr.- og Kjósars. .

1.668

2

Akureyri ............

1.606

1

Eyjafjarðarsýsla ....

1.496

2

Barðastrandarsýsla ..

1.494

1

Snæfellsnessýsla .....

1.480

1

Vestmannaeyjar .....

1.465

1

N.-Ísafjarðarsýsla ...

1.438

1

16

Aftur eru 16 kjördæmi með 20 þm., sem hafa færri kjósendur en meðaltal:

Kjósendur

Þingmenn

Árnessýsla ..........

1.303

2

Borgarfjarðarsýsla ..

1.222

1

Suður-Múlasýsla ....

1.217

2

Austur-Húnavatnss. .

l.l20

1

V.-Ísafjarðarsýsla ....

1.077

1

Ísafjörður ...........

962

1

Skagafjarðarsýsla . . .

960

2

Mýrasýsla ..........

925

1

V.-Skaftafellssýsla ...

883

1

Dalasýsla ...........

868

1

V.-Húnavatnssýsla ...

808

1

Strandasýsla ........

787

1

N.-Þingeyjarsýsla ....

757

1

N.-Múlasýsla ........

669

2

A.-Skaftafellssýsla ...

615

1

Seyðisfjörður .......

449

1

20

14 þingmenn í 12 fámennustu kjördæmunum hafa á bak við sig tæp 10 þús. kjósendur í þeim kjördæmum, eða minni kjósendastyrk en Reykjavík ein, en hún hefir aðeins 4 þingmenn.

Ef borin eru saman áhrif kjósenda á skipun Alþingis í nokkrum fámennustu héruðunum við áhrif Reykvíkinga og Suður-Þingeyinga, verður útkoman þessi:

1 kjósandi á Seyðisfirði jafnt og ca. 7 kjós. í Rvík og ca. 41/3 í Suður-Þingeyjarsýslu.

1 kjósandi í Norður-Múlasýslu jafnt og ca. 9¼ kjós. í Rvík og ca. 5¾ í SuðurÞingeyjarsýslu.

1 kjósandi í Austur-Skaftafellssýslu jafnt og ca. 5 kjós. í Rvík og ca. 3 í Suður-Þingeyjarsýslu.

1 kjósandi í Vestur-Skaftafellssýslu jafnt og ca. 3 kjós. í Rvík og tæpt 2 í Suður-Þingeyjarsýslu.

1 kjósandi í Dalasýslu jafnt og ca. 31/3 kjós. í Rvík og ca. 2 í Suður-Þingeyjarsýslu.

1 kjósandi í Strandasýslu jafnt og ca. 4 kjós. í Rvík og ca. 2½ í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þetta fyrirkomulag er hvorki byggt á viti né réttlæti. Nú finnst mér það vel til fallið árið 1930, þegar við minnumst fyrsta vísis til lýðstjórnar hér á landi, að samþ. yrði till. um, að kosningarréttur skuli vera jafn, og þar með að fullkomið lýðræði verði að því leyti í landinu.

Við, sem berum fram þetta mál fyrir hönd okkar flokks, höfum ekki í þetta sinn tilskilið neina sérstaka aðferð til að koma þessu í framkvæmd, en látum nægja að óska þess, að hæstv. stj. athugi málið til næsta þings og beri þá fram þær till., sem henni virðist rétt.

Ég skal nefna þær þrjár aðferðir, sem helzt koma til álita. Fyrst er það, sem við Alþýðuflokksmenn teljum réttast, það eru hlutfallskosningar um allt land. Þá hafa atkvæði allra landsmanna jafnan rétt. Önnur till. er það, að skipta landinu í fjórðungakjördæmi og að Reykjavík ein verði sérstakt kjördæmi. En báðar þessar breyt. mundu heimta breyt. á stjskr., því að hlutfallskosningar eru eftir henni ekki lögleyfðar nema í Reykjavík. Þriðji möguleikinn er að skipta landinu í einmenningskjördæmi og hafa nokkra þm. að auki til uppbótar þeim stjórnmálaflokkum, sem fá ekki nógu marga fulltrúa eftir atkvæðafjölda við kosningar.

Við vildum ekki vekja neina deilu nú á þinginu um það, hverja aðferðina skyldi upp taka að þessu sinni, og vitum ekki nema fleiri aðferðir gætu komið til greina. Við leggjum aðaláherzluna á, að kjördæmaskipunin nú er orðin úrelt og óverjandi.

Ég efast ekki um, að einstökum hv. þm. á Alþingi, sem eru úr kjördæmum, sem hafa minna en meðaltal atkvæða, finnist að einhverju leyti gengið á rétt sinna kjósenda, sem þeir eru í umboði fyrir, enda þótt þeir í hjarta sínu verði að viðurkenna, að hitt sé meira virði, að gera öllum jafnan rétt, enda þótt réttur þeirra minnki við það, sem nú hafa of mikinn. Og stjórnmálaflokkur, sem ekki vill sinna þessum kröfum, mun ekki eiga sér langt líf í landinu, þó að hann gæti um nokkurn tíma haldið sér uppi á ranglátri kjördæmaskipun.

Ég vænti þess, að hv. þm. taki vel í þetta mál og greiði till. atkvæði.