12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

468. mál, kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Þó að ég yfir höfuð búist ekki við miklu af þeirri hæstv. stj., sem nú situr, hafði ég þó búizt við, að hún mundi láta heyra frá sér eitthvert orð, þegar fulltrúar stuðningsflokksins, sem haldið hefir þingræðislífi hennar við, bera fram till. eins og þessa. Og þó að hæstv. stj. hafi orðið orðfall til þess að byrja með við mál hv. 2. þm. Reykv., vona ég, að hún nái sér það mikið meðan á umr. stendur, að við fáum að heyra eitthvað til hennar áður en þeim lýkur.

Frá mínu sjónarmiði vil ég segja um þessa till., að það er ekki ný bóla, að menn verði varir við það misræmi, sem er á skipun Alþingis og leitt hefir af flutningi fólks úr sveitum til sjávarþorpa og kaupstaða og af þeim mikla vexti kaupstaðanna, sem auðvitað á sér líka aðrar rætur. Þegar fjölmenni er þar fyrir, þá verður líka viðkoman því meiri.

Þetta mál hefir alloft áður legið fyrir Alþingi til úrlausnar, og fram til núverandi kjörtímabils hefir ávallt verið notað sama úrræðið. Þegar kaupstaðir hafa verið orðnir svo fjölmennir, að það hefði verið áberandi ranglæti að láta þá ekki hafa áhrif á fulltrúaval til Alþingis, þá hefir verið bætt við þingmönnum fyrir þá. Ég þarf ekki að telja upp þau lög, sem sett hafa verið á undanförnum árum um þetta, en á núverandi kjörtímabili hefir í fyrsta sinn verið farin önnur leið. Áður höfðu fjórir kaupstaðir, Seyðisfjörður, Akureyri, Ísafjörður og Vestmannaeyjar, fengið hver sinn fulltrúa. En á þessu kjörtímabili og í höndum núverandi þingmeirihluta hefir málið tekið aðra stefnu og verið sett löggjöf, sem snertir eitt svæði, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjörð. Þá var hafið það nýmæli, sem óþekkt var áður, að látið var að kröfum kaupstaðarins um fulltrúa á þingi með því að taka þingmann um leið af héraðinu, sem hefir verið, og er enn, aðallega bændakjördæmi, jöfnum höndum sveitabænda og sjávarbænda.

Nú er það auðvitað, að þær ástæður, sem hafa legið til þess, að þingið hvað eftir annað fann ástæðu til að gera þessar umbætur á sinni eigin skipun, hafa haldið áfram að verka, og að þær verka enn í dag. Fólkinu heldur áfram að fjölga í kaupstöðunum, og þess vegna má sjálfsagt gera ráð fyrir, að sá tími hljóti að koma, að þingið verði að halda áfram með þessar breyt. eins og hingað til. Hv. flm. og frsm. till. á þskj. 468 nefndi nú þrjár leiðir til þess að ráða bætur á þessu. En meðal þeirra taldi hann hvoruga þeirra leiða, sem hingað til hafa verið farnar, hvorki þá, sem farin var fram að valdatímabili núv. hæstv. stj., að bæta þingmönnum við kaupstaðina eftir því, sem þörfin krefði, né heldur hina leiðina, sem hann og bandamenn hans hafa farið, að taka þingmann af sveitakjördæmi og fá hann kaupstaðnum. Það fannst mér að vísu dálítið undarlegt, að hann skyldi sýna þann ýmugust á þessu hjónabandsbarni þeirra Alþýðuflokksins og Framsóknar, að nefna ekki þá úrlausn.

Sjálfsagt eru til ýmsar leiðir til þess að ráða bætur á mestu misfellunum í þessu máli. Ég skal taka það skýrt fram, að ég álít, að ekki muni verða hægt að komast hjá að halda áfram eitthvað í sömu átt og áður og taka tillit til tilfærslu mannfjöldans á landinu. En að því er snertir till. á þskj. 468, þá er hún ákaflega einstrengingslega orðuð. Það er allhörð krafa, þetta, að kjördæmaskipunin skuli tryggja kjósendum jafnan rétt, hvar sem þeir búa. Í raun og veru er ekki hægt til fulls að fullnægja þeirri kröfu, nema með fyrstu aðferðinni, sem hv. flm. nefndi, að þm. séu allir kosnir á sama hátt og landsk. þm. eru nú, með hlutfallskosningum í einu lagi fyrir land allt. Það mun vera stefnuskráratriði Alþýðuflokksins. En það er alls ekki svo, að þetta, að allir kjósendur hafi jöfn áhrif á skipun Alþingis, sé eina atriðið, sem horfa þarf á í þessu máli. Við verðum líka vissulega að horfa á hitt atriðið, að fámennum, afskekktum landshlutum er líka nauðsynlegt að eiga á þingi fulltrúa, sem er kunnugur þeirra hagsmunum og staðháttum og getur beitt sér fyrir þeirra málum.

Þetta er atriði, sem taka verður til greina, þegar kjördæmaskipunin er endurskoðuð, en þáltill. gengur alveg framhjá því.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég hygg, að tölurnar styðji þá skoðun, að af kaupstaðarkjördæmum sé það ekki nema Reykjavík ein, sem fyrir verulegum misrétti verður eða harðræði af núverandi kjördæmaskipun. Mannfjöldi í hinum stærri kaupstöðum utan Reykjavíkur mun hvergi fara mikið fram úr 3 þús. íbúa, og þótt þessir kaupstaðir hafi aðeins 1 þm. hver, þá má benda á allmörg önnur kjördæmi með einn þm., sem hafa svipaða íbúatölu. Til þess að í aðalatriðum sé nokkurnveginn sæmilegt hlutfall milli kaupstaða og sveitakjördæma, er það einungis þingmannatala Reykjavíkur, sem skýtur verulega skökku við. Hér er um 6½ þús. íbúa á hvern þm., eða rösklega tvöfald tala hinna kaupstaðakjördæmanna. Ég hygg, að ekki verði hjá því komizt til lengdar að leiðrétta nokkuð þennan mun. En ég er ekki viss um, að nauðsynlegt sé að fara út í gagngerðar breyt. á kjördæmaskipuninni til þess að fá þá lausn, sem vel mætti una við nokkra hríð.

Þótt ég viðurkenni, að ástæða sé til að taka ýmislegt í kjördæmaskipuninni til athugunar, mun ég þó ekki geta fallizt á að greiða þeirri till. atkv., sem hér liggur fyrir. Hún er svo einstrengingsleg, að hún litur aðeins á eina hlið málsins og útilokar ýmsar þær úrlausnir, sem hljóta að koma til skynsamlegrar yfirvegunar. Ennfremur hefi ég það á móti till., að hún felur núv. hæstv. landsstj. að undirbúa málið fyrir næsta þing. Ég verð að segja það eins og það er, að ég ber alls ekkert traust til hennar að leysa úr þessu máli. Rökstyð ég það vantraust með því, að hæstv. stj. hefir farið inn á þá braut að svipta Gullbringu- og Kjósarsýslu öðrum þingmanna sinna, til þess að geta gert Hafnarfjörð að sérstöku kjördæmi. En þetta er braut, sem ég álít, að helzt hefði ekki átt að leggja inn á.

Að svo stöddu finn ég ekki ástæðu til að segja fleira. Gæti ég bætt einhverju við síðar, sérstaklega ef hæstv. stj. raknaði nú við, svo að menn fengju að heyra hennar skoðun.