12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3653)

468. mál, kjördæmaskipun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Með því að hæstv. forsrh. er forfallaður, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu ríkisstj. til þessa máls. Það mun vera rétt, sem hv. þm. N.-Ísf. skaut fram i, að hæstv. forsrh. lét í ljós skoðun sína um breyt. á kjördæmaskipuninni við eldhúsdagsumr. hér í hv. þd., og ber því að skoða það, sem ég segi hér, sem viðbót við orð hans.

Aðallega munu vera uppi þrjár skoðanir um það, hvernig fara skuli með kjördæmaskipunarmálið. Hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans munu helzt hallast að því að gera allt landið að einu kjördæmi. Hv. 3. landsk. og hans flokkur munu hinsvegar vera þeirrar skoðunar, að gera aðeins breytingar á einstökum stöðum, aðallega í þá átt að láta Reykjavík fá fleiri þm., og eins aðra kaupstaði, eftir því sem fjölgar þar. En ég hygg, að það sé skoðun okkar framsóknarmanna, þótt það sé ekki flokksmál, að halda núverandi skipulagi á kjördæmaskiptingunni og að játa Reykjavík alls ekki fá fleiri þm. Þetta verður sjálfsagt mikið deilumál nú við landskjörið, og geta þá íhaldið og jafnaðarmenn staðið saman. (SE: Flokkarnir eru ekki farnir að taka neina afstöðu til málsins!).

Ég vil gera nánari grein fyrir því, af hverju ég álít, að Reykjavík eigi ekki að fá fleiri þm. Fyrst er þá það, hversu margir þm. eru búsettir í Reykjavík og að þingið er hér háð. Það þykir og alstaðar hlýða, að höfuðborgirnar hafi færri þm. að tiltölu við fólksfjölda en önnur kjördæmi. Í höfuðborg Noregs eru t. d. ekki kosnir nema 7 þm., og sjá allir, hve lág tala það er, þegar íbúatala borgarinnar er borin saman við íbúatölu alls Noregs.

Hæstv. forsrh. sagði á sínum tíma eitt, sem ég vil nú undirstrika, að að vísu hefir orðið fólksfækkun í sveitum og fjölgun við sjóinn undanfarið, en það er enginn, sem segir, að þetta muni halda áfram. Nú er góðæri til lands og sjávar, en ef sjórinn bregzt, mun það breyta straumnum upp til sveita aftur, eins og góðærið við sjóinn hefir dregið fólkið þangað. Aftur á móti hefir Alþingi nú um tíma vitandi vits stutt sveitirnar með bættum samgöngum o. fl., sem nokkuð hefir vegið upp á móti góðærinu við sjóinn. Þótt nú svo færi, sem ekki er líklegt, en allir óska, að aldrei framar kæmi harðæri við sjóinn, þá eru þó líkur til þess, að a. m. k. helmingur fólksins haldist til sveita. Við framsóknarmenn viljum ekki minnka áhrif þessa hluta þjóðarinnar á málefni hennar. Því erum við bæði á móti till. hv. 3. landsk. um að fjölga þm. sérstaklega fyrir Reykjavík, og till. hv. 2. þm. Reykv. um að gera allt landið að einu kjördæmi. Við erum svona afturhaldssamir um þetta atriði, því að við grunum báða hina flokkana um að ætla að taka höndum saman um að breyta kjördæmaskipuninni og brjóta niður áhrif hinna dreifðu byggða á löggjöf landsins. Það er því enginn vilji hjá stj. til að taka vel í till. hv. 3. landsk. eða jafnaðarmanna um þá stærstu byltingu, sem hér hefir verið farið fram á um það, hverjir ættu að ráða málefnum þjóðarinnar. (SE: Fer stj. frá, ef till. verður samþ?). Það má alltaf athuga, þegar að því kemur.