12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3654)

468. mál, kjördæmaskipun

Magnús Torfason:

Ég er samþykkur þeirri hugsjón, sem liggur að baki till. hv. jafnaðarmanna, að sem mestur jöfnuður eigi að vera með landsmönnum, einnig að því er tekur til áhrifa á stjórnmálin, og ekki sízt þar. En ég held, að enn sé ekki kominn tími til að ráða þessu máli til lykta. Ég hefi reynt að fylgjast með því, sem fram hefir komið, bæði í ritgerðum og blaðagreinum, um breytta kjördæmaskipun, og mér hefir virzt, að umr. um þetta séu alveg í byrjun og að langt sé frá, að menn hafi enn komið auga á kjarna þessa máls. En eitt er víst, og það er, að hið mesta ranglæti væri að láta höfðatöluna eina ráða, annaðhvort um skiptingu í kjördæmi, eða þá að landið væri gert að einu kjördæmi. Af því að höfuðborgin er tiltölulega fjölmennari en í nokkru öðru landi, er ég þekki, verða áhrif hennar þegar af þeirri ástæðu miklu meiri á stjórnmál landsins en tala þingmanna hennar bendir til. Og ég fullyrði, að áhrif höfuðborgarinnar á stjórnmál landsins eru miklu meiri en hún á rétt til samkv. atkvæðamagni. Hér er ¼ hluti landsmanna saman kominn, en þótt það sé ekki meira, þá hefir það oft komið fyrir, að Reykjavík hefir ráðið lögum og lofum á þingi gagnvart hinum smærri kjördæmum, og það í málum, sem snerta hag Reykjavíkur einnar og brjóta bág við hagsmuni allra annara kjördæma. Þarf ekki annað en minnast þess, þegar Reykjavík fékk það lögfest, að hún gæti gert hvern þann mann skattskyldan, sem hingað leitaði til vinnu. Það var þegar skilyrðum fyrir útsvarsskyldu var svo breytt, að hver maður varð að borga háan toll af vinnu sinni hér. (MJ: Hvers vegna hafa Reykvíkingar ekki fleiri þingmenn, ef þeir eru svona voldugir?). Það er einmitt þetta, sem hv. þm. vill fá breytt. En það vill nú einmitt svo til, að í því máli eru alveg. sérstakar ástæður fyrir hendi. Og hin kjördæmin hafa þjappast betur saman í því máli en öðrum. En þó getur hv. þm. ekki neitað því, að hvað eftir annað hefir verið fjölgað þm. hér, þrátt fyrir andstöðu úr öllum öðrum byggðum landsins. En þetta, að Reykjavík ræður svo miklu, er af því, að svo margir þm. eru búsettir hér. En það er þó ekki eina ástæðan, og jafnvel ekki aðalástæðan. Aðalástæðan er, að Reykjavík hefir að heita má verið eina menningarstöð landsins til skamms tíma. Skólar hafa verið hér nær því allir, en sáralítið af menningarstofnunum úti um land. Nú lítur þó út fyrir, að þetta sé að breytast nokkuð, en áhrif þeirrar breyt. þó ekki enn komin í ljós. En það ræður að líkum, að þeir hlutar landsmanna, sem nú eiga kost meiri menningar, muni að sjálfsögðu hafa, meiri áhrif á landsmál en verið hefir. Þess ber ennfremur að gæta, að blaðakostur er mjög lítill úti um land. Hann er nærri allur í Reykjavík. Og það er vitanlegt, að blöðin ráða afarmiklu. Þetta hefir líka einn stjórnmálaflokkurinn séð — einmitt sá flokkurinn, sem hefir sínar dýpstu rætur í Reykjavík. Hann hefir einmitt lagt afarmikla áherzlu á að fjölga blöðum bæði hér og úti um land.

Við stöndum nú við tímamót í atvinnuvegum landsmanna. Nú er fyrst farið að bóla á, að menn nemi land í sveitum. Og nú er fyrst farið að bóla á, að menningarstofnanir séu settar niður í sveitum. Ég verð því að líta svo á, að eins og nú er háttað, þá sé alveg ótímabært að leggja annað eins mál og þetta undir atkv. kjósenda. Málið þarf áður að athugast miklu betur og ræðast miklu meira.

Ég get ekki hugsað mér, að þetta mál geti orðið afgr., nema á undan hafi gengið kosningar, sem eingöngu hafa snúizt um þetta mál. Og á undan þeim kosningum þarf að fara fram fræðsla um það og það hafa verið sótt og varið í blöðum landsins og á kjósendafundum.

Um okkur framsóknarmenn er það að segja, að engin ákvörðun hefir verið tekin í flokknum um þetta mál. Það er og líka kunnugt, að hann hefir látið sig það litlu skipta, eins og blöð hans bera vott. um. Út af þessu, sem ég nú hefi sagt, get ég ekki nú samþ. slíka till. sem þessa. En ég skal bæta því við, að ég tala aðeins fyrir sjálfan mig, en ekki fyrir flokkinn.