15.04.1930
Neðri deild: 83. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

404. mál, rýmkun landhelginnar

Fyrirspyrjandi (Pétur Ottesen):

Það getur vel verið, að svo geti farið, að við verðum að bíða nokkuð með lausn þessa máls. En þetta mál er háð því lögmáli sem önnur, að því betur, sem að því er unnið, því meiri líkindi eru til, að það nái fram að ganga.

Mér þykir það mjög líklegt, að það sé rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að ein af leiðunum, sem liggja til þess að geta sannfært nágrannaþjóðirnar um nauðsyn málsins, sé sú, að sanna á vísindalegan hátt, að rýmkunin sé líka til hagsbóta fyrir þær. Til viðbótar við það, sem félag það, er stendur að slíkum vísindarannsóknum hér í norðurhöfum, leggur fram, er sjálfsagt, að við leggjum sjálfir eitthvað af mörkum. Nú er svo komið, að „Þór“, sem hafði slíkar rannsóknir á hendi undir forustu dr. Bjarna Sæmundssonar, er úr sögunni. Því höfum við lagt áherzlu á, að hið nýja strandvarnarskip yrði búið rannsóknartækjum. Vona ég, að stj. geri ráðstafanir til þess, að skipið hafi slíkan útbúnað.

Eftir upplýsingum frá Bjarna Sæmundssyni er gert ráð fyrir, að bráðlega verði birtar niðurstöður þær, sem fiskirannsóknir hér við land hafa leitt í ljós. Ég skildi hann svo, að sú birting myndi verða okkur hagkvæm. Nú hefir hæstv. forsrh. upplýst, að ráðstafanir hafi verið gerðar til, að Sveinn Björnsson færi á alþjóðafund í Haag til að fylgja fram og fylgjast með þessu máli. Eftir því, sem á stendur, er ekki ámælisvert, þó að skýrsla sé ekki enn komin um þá för. En ég vona, að þessi skýrsla verði birt hið fyrsta, svo að almenningur sjái, hver árangur hefir orðið af förinni.

Ég get verið þakklátur hæstv. forsrh. fyrir það, hve vel hann tók í að nota tækifærið í sumar til að vinna þessu máli gagn. Ég skildi hann þannig, að hann vildi athuga, hvort ekki væri hægt að taka málið til athugunar og afgreiðslu í sumar, og mun ég þá hreyfa málinu aftur, er nefnd hefir athugað það.

Þætti mér gott, ef hátíðin í sumar gæti fært oss nær þessu takmarki.