16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (3670)

231. mál, húsrúm fyrir listaverk landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég get litlu svarað þessari fyrirspurn, af skiljanlegum ástæðum, þar sem svo mikil þörf er á því, að ríkið byggi, og svo mikið hefir verið byggt undanfarin ár. Þetta er ekki óeðlilegt, þar sem svo má kalla, að núlifandi kynslóð tæki við ónumdu landi í þessu efni. Því er ógerningur að byggja allt í einu, sem þörf er á. Ég er samdóma hv. fyrirspyrjanda, að þörf er á listasafnsbyggingu, og verður að hugsa fyrir henni. En ég fæ ekki séð, að röðin sé komin svo nálægt listasafnshúsi og húsi yfir náttúrugripasafnið, meðan ekki er til hér í Reykjavík gagnfræðaskóli og háskóli, og að sama skapi skortur á skólahúsum og öðru úti um landið. Ég hefi litið þannig á, að þetta væri að vísu rétt mál, en ekki sanngjarnt að búast við, að Alþingi geti á næstu missirum lagt verulegt fram í þessu efni. Svo sem hv. 2. landsk. tók fram, verður þetta að vera vandað stórhýsi; er því betra að láta það bíða síns tíma heldur en að koma fljótlega upp einhverri ómynd, sem bráðlega yrði of lítið.

Ég álít, að hv. 2. landsk. hafi nokkuð blandað saman orsök og afleiðingum í sambandi við listaverkin. Það er rétt, að nokkur árangur hefir orðið af lögunum um Menningarsjóð frá 1928. Með þeim var að litlu leyti bætt úr mjög mikilli þörf, sem erfitt var að uppfylla áður. Síðan munu hafa verið keypt listaverk fyrir 12000–14000 kr. árlega. Þetta hefir þá þýðing, að þeir mörgu og að miklu leyti markaðslausu listamenn hafa fengið, að vísu lítinn markað, en þó þann bezta, sem þeir hafa aðgang að. Á þennan hátt eignast þjóðin dálítið af listaverkum, styður listamenn og safnar varanlegri eign í þessu. Þó að þau séu enn geymd hér og lokuð inni, þá er samt sú bót í máli, að þau eru eign þjóðarinnar og koma einhverntíma fram, bíða aðeins eftir húsinu. Og því lengur sem safnað er, því meiri verður nauðsynin að byggja yfir safnið. En ég hygg, að hv. 2. landsk. hljóti að verða mér sammála í því, að þótt keypt hafi verið fyrir 12–14000 kr. í 2 ár, þá sé það ástæðulaust, að til þess að geyma 25000 kr. virði af listaverkum verði nú þegar að reisa byggingu fyrir ½ millj. kr., meðan annað nauðsynl. bíður.

Listaverkum ríkisins hefir verið skipt á milli Alþingishússins, ráðherrahússins og sendiherrabústaðarins í Kaupmannahöfn. Ég lét ennfremur nokkur málverk í ríkisskólana: 3 í menntaskólann, 3 í kennaraskólann, eitt í Akureyrarskóla, eitt í hvern héraðsskólanna, eitt í Blönduósskóla og eitt í húsmæðradeildina að Laugum. Ég hefi heyrt, að eitt hefði verið sent kvennaskólanum. (IHB: Ekki). Ég heyrði ráðgert að senda þangað mynd af sr. Eiríki Briem, sem var þar heilan mannsaldur í skólanefnd, en af því hefir þá ekki orðið. Ennfremur er eitt málverk í skrifstofu konungsritara í Amalienborg. Það kann að vera, að þessi upptalning sé ekki tæmandi, en listaverkin eru í stuttu máli á opinberum stöðum hér á landi og á 2 stöðum erlendis. Ég veit ekki til, að nein listaverk séu annarsstaðar; sé svo, hefir því verið þannig ráðstafað af öðrum en mér. — Þetta er það, sem ég hefi um málið að segja. Býst ég ekki við að þurfa að eyða meiri tíma í það, með því annríki, sem hér er í hv. deild.