15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3678)

278. mál, landsspítalinn

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Ég hefi leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi landsspítalanum, á þskj. 278, sem leyft var 15. marz að kæmi til umr. Það er nákvæmlega mánuður síðan, en betra er seint er aldrei, og mér þykir vænt um að fá nú tækifæri til að skýra þessa fyrirspurn. Hún er fram komin í því skyni, að fá tekin af öll tvímæli um það, hvað ríkisstj. ætlar sér um landsspítalann. Í fyrri lið fyrirspurnarinnar segir svo: Er það ekki tilætlun ríkisstj., að landsspítalinn verði tekinn til afnota fyrir almenning og til háskólakennslu haustið 1930, svo sem samningur stendur til?

Eins og kunnugt er, hefir í mörg ár verið unnið að spítalanum, og verkinu á bráðum að vera lokið, því að eftir samningum á milli ríkisstj. og stj. landsspítalasjóðsins skal spítalinn vera tilbúinn árið 1930, og hér á Alþingi hefir alltaf verið miðað við haustið 1930. Þar sem nú er svo langt liðið á þennan frest, er full ástæða til að grennslast eftir því, hvort spítalinn muni verða tilbúinn á tilteknum tíma. Líklega má gera sér vonir um, að aðalspítalabyggingin geti orðið tilbúin á þessu ári.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. stj., hvað liði bygging starfsmannahússins. Allir telja sjálfsagt, að starfsfólki spítalans sé ætlaður bústaður utan spítalans. En þess sjást enn engin merki, að slíkt starfsmannahús eigi að reisa. Verði ekki reistur starfsmannabústaður, leiðir af því, að taka verður verulegan hluta af húsrúmi því, sem sjúklingum er ætlað, og nota það til annara þarfa. Þá er ekki hægt að taka við eins mörgum sjúklingum og ella og tekjur spítalans verða minni. En þrátt fyrir það verður starfsfólkið sennilega að vera jafnmargt. Allur rekstur spítalans verður því dýrari og auk þess mundi síðar — þegar starfsmannabústaður kemur — þurfa að breyta þeim herbergjum, sem nú yrðu notuð öðruvísi en ráð var fyrir gert í fyrstu.

Eftir því, sem séð verður, er þvottahúsi hvergi ætlað rúm ennþá, enda var svo ráð fyrir gert, að þvottahúsinu yrði komið fyrir utan spítalabyggingarinnar. Aftur á móti er svo vel séð fyrir rúmi til röntgenstofunnar, að of þröngt verður í eldhúsi, búri og geymslu. Hver á nú að annast allan hinn mikla þvott spítalans, og hversu mikill kostnaðarauki kemur þar til greina? Stór og vönduð þvottahús eiga að fylgja öllum spítölum. Að ætla þvottahúsi rúm í kjallara starfsmannabústaðarins er að vísu ekki gott, en þó má una við það, þegar tekið er tillit til þess sparnaðar, sem það leiðir af sér.

Á að koma upp líkhúsi fyrir spítalann? Þess er ekki sízt þörf, þegar þess er gætt, að í landsspítalanum á kennsla læknaefna að fara fram. Og vitanlega er miðað við það, að læknanemar hafi tækifæri til að nema læknavísindi undir betri skilyrðum en áður. Allir, sem um spítalamálið hafa fjallað, eru sannfærðir um, að önnur aðalnauðsynin er sú, að gefa læknaefnum Íslands betri skilyrði en þeir hafa hingað til þekkt fyrir undirbúning þeirra undir æfistarf sitt. Þeir aðiljar, sem bezt vita, hversu ábótavant okkur er í þessu efni, nefnilega kennarar læknadeildar háskólans og læknafélagið, hafa oft látið í ljós þá skoðun sína, að nauðsyn beri til að skapa ný skilyrði fyrir læknakennslu háskólans. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma nú, þó að ég hafi með höndum rækilegt bréf, sem að þessu lýtur. Árið 1925 lá fyrir Alþingi í sambandi við landsspítalamálið umsagnarbréf frá læknadeild háskólans, sem prentað er í Alþingistíðindunum frá því ári.

Þá hefir og frá upphafi verið gert ráð fyrir því, að landsspítalinn yrði miðstöð ljósmóðurfræðslunnar í landinu og hjúkrunarkvennafræðslunnar. Spítalinn á að verða bezta — já, einasta stofnunin í sambandi við þá fræðslu. Nú vil ég spyrja hæstv. stj., hvort landsspítalinn geti ekki þegar á næsta hausti orðið aðsetur lækna-, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennafræðslu.

Allir vita, að íslenzkar konur hafa lagt mikla áherzlu á, að sómasamleg deild yrði við landsspítalann fyrir sængurkonur, enda er það beint tekið fram í þeim samningi, sem ég hefi áður nefnt. En að því er ég bezt veit, verður ekki hjá því komizt að nota flest eða jafnvel öll þau herbergi, sem sængurkvennadeildinni voru ætluð, fyrir starfsfólkið.

Efndirnir á því, sem lofað hefir verið, eru þá þessar: engin sængurkvennadeild, ekkert athvarf fyrir ljósmæður og ekkert sérstakt húsnæði fyrir berklasjúklinga.

En slíkt húsnæði þyrfti nauðsynlega að vera í spítalanum. Berklasjúklingar koma hrönnum saman til Reykjavíkur og þurfa að leggjast inn í spítala, á meðan þeir bíða eftir endanlegum ákvörðunum læknis.

Það fer því fjarri, að staðið hafi verið við gerða samninga. Auk þess sem spítalinn er verr settur og almenningur svikinn í þýðingarmiklum atriðum, hefir þetta í för með sér margskonar óþægindi, að ég ekki segi hneykslanleg brigðmælgi á því, sem stj. og Alþingi hafa lofað.

Þá kem ég að öðrum lið fyrirspurnar minnar, er svo hljóðar:

„Hvar skal þá fé taka til kaupa á áhöldum og innanstokksmunum, og hvar rekstrarfé, úr því það er ekki talið í fjárlögunum?“

Það er ekki að undra, þó að um þetta sé spurt, þar sem í því fjárlfrv., sem nú liggur fyrir, er hvorki stafur né dráttur af staf, er gefi til kynna, að stj. ætli að útbúa og starfrækja landsspítalann. Það verður þó ekki gert af engu. Svo mikið er víst.

Á þessum tímum liggur náttúrlega beint við að svara þessu sem svo, að ekki sé leitað samþykkis Alþingis á öllu því fé, sem hæstv. stj. þykist þurfa með, og að svo geti þá einnig orðið í þessu tilfelli. Vegna þeirra afskipta, sem ég og aðrar íslenzkar konur höfum haft af þessu máli, þykir mér miður, ef grípa þarf til þessa úrræðis.

Ég vænti þess því, að hæstv. ráðh. svari mér um það, hvar eigi að taka þetta fé. Það er ekki hægt að komast í kringum það, að ætla verður spítalanum eitthvert rekstrarfé, í hvaða mynd, sem hann verður rekinn. Þótt ef til vill megi með nokkrum sanni telja áhöld og innanstokksmuni til byggingarkostnaðarins, verður starfrækslan með engu móti færð undir þann lið.

Ég læt svo, að svo stöddu, lokið máli mínu, en vænti þess fastlega, að hæstv. dómsmrh. svari skýrt og afdráttarlaust því, sem hér er spurt um.