15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3680)

278. mál, landsspítalinn

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Ég þóttist hafa spurt allgreinilega á þskj. 278. En það fór sem ég bjóst við, að lítið yrði um svör, heldur yrði farið á hundavaði með öfgar og útúrdúra og blekkingar. Annars var ræða hæstv. ráðh. svo ruglingsleg, að engin leið er að rekja hana lið fyrir lið, og leiðir af því, að samhengið í svarræðu minni verður minna en ella myndi.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði um samning þann, sem íslenzkar konur hafa gert við íslenzk stjórnarvöld um landsspítalann, og Alþingi síðar samþykkt, að þær gætu farið í mál við ríkið út af honum, ef þeim þætti hann vanhaldinn! Ég get gefið þá yfirlýsingu fyrir hönd íslenzkra kvenna, að þær munu ekki láta ögra sér til að ná rétti sínum, ef sú stjórn, sem nú situr við völd, ætlar að sýna þeim brigðmælgi og óvirðingu. Þessi samningur er samþ. af stj. og þingi 1925 og. hér á þingi hefi ég iðulega vitnað í hann bæði í sókn og vörn. Þótt hæstv. ráðh. kalli hann „familíusamning“, læt ég mig það litlu skipta. Sú spurning, hvaða rétt konur hafi til að semja um fé, sem þær hafa sjálfar safnað, er þannig vaxin, að hún virðist annaðhvort koma frá óvita eða brjáluðum manni. Rétturinn liggur í fjársöfnuninni sjálfri. Þetta mál er komið á dagskrá fyrir tilhlutun íslenzkra kvenna, og þær hafa síðan stuðlað að því í orði og verki. Dylgjur hæstv. dómsmrh. í garð þeirra verða metnar að maklegleikum.

Ég hefi aldrei stuðlað að því, að sá stóri spítali, sem hæstv. ráðh. var að tala um, yrði reistur. Við, hæstv. núv. dómsmrh. og ég, stóðum einmitt saman að því að færa málið í rétt horf. Skal ég viðurkenna, að hæstv. ráðh. átti á þeim tíma nokkurn þátt í því, að horfið var frá „stóra planinu“, sem hann svo kallar. Síðan var byrjað á byggingu landsspítalans eingöngu fyrir fjárframlög frá konum, en næsta ár fyrir framlag frá landsspítalasjóði og ríkissjóði

Ég vil þá leyfa mér að lesa upp upphafið að samningi þeim, sem ég hefi svo oft nefnt áður. Hann er undirritaður af Jóni Magnússyni, Jóni Þorlákssyni og Magnúsi Guðmundssyni, sem þá voru allir ráðherrar, og stjórn landsspítalasjóðsins. Þar segir svo:

„Samkvæmt heimild 1. gr. laga nr. 14, 28. nóv. 1919, um húsagerð ríkisins, hefir ríkisstjórnin gert svo hljóðandi samning við stjórn Landsspítalasjóðs Íslands“ o. s. frv., sjá samninginn.

Hér hygg ég, að sé næg sönnun fyrir því, að um löglegan samning sé að ræða, staðfestan af þingi og stjórn. Allar vífilengjur ráðh. um gildisleysi samningsins eru þar með sjálfdauðar.

Ég spurði að því, hvenær landsspítalinn yrði tilbúinn til afnota fyrir almenning og háskólakennslu. Ég fékk svar eins og ég væri brekótt og þráspurult barn: Getur verið um nýár, getur verið eftir nýár. Hér er aðeins verið að spyrja um það, hvort fullnægja eigi samningnum, annað ekki. Svar hæstv. ráðh. um það, hvenær spítalinn yrði tilbúinn, var: Eftir mánuð verður hann tilbúinn handa Vestur-Íslendingum. Þeir dvelja hér í mánuð. Síðan þarf allskonar viðgerð og ræsting að fara fram — sem reyndar er ekki ótrúlegt. En þegar hann var spurður, hvenær spítalinn tæki til starfa, þá sagði hann, að um það væri ekkert tímatakmark sett, það yrði nú að verða eftir atvikum. En í samningnum stendur í d-lið: „Bygging landsspítalans skal lokið og útbúningi hans svo fljótt, að hann verði tekinn til afnota ár 1930“.

Sæmir nokkrum ráðh. að gera svo lítið úr samþykktum Alþingis að segja, að ekkert tímatakmark sé ákveðið um það, hvenær spítalinn taki til starfa, og segja aðeins, að geti verið, að hann byrji um nýár 1931, og geti verið, að hann byrji eftir nýár 1931! Háskólakennsluna minntist hann ekkert á, enda hefir þar víst verið komið við snöggan blett á hæstv. ráðh.

Tíminn leiðir margt í ljós, þó að blaðið Tíminn geri það ekki. Ætli það gæti ekki orðið óþægileg spurning fyrir hæstv. ráðh. við landskjörið þetta: Hvað líður landsspítalanum? Ég gæti trúað, að hæstv. ráðh. yrði ógreitt um svör, þótt ég efist eigi um, að hann reyni að beita þeim blekkingum, sem hann getur. Ég mun gera mitt til að halda þessu máli vakandi.

Ég vil nefna aðeins eitt dæmi um ræktarsemi núv. stj. við þær konur, sem beitt hafa sér fyrir þessu máli. Á sínum tíma var skipuð spítalanefnd, sem sæti áttu í Guðm. Thoroddsen prófessor, Guðmundur Hannesson prófessor, Jón S. Hjaltalín héraðslæknir, Halldór Steinsson læknir, og fulltrúi landsspítalasjóðsnefndar, sem var ég. Fyrir ári síðan fann stj. ekki annað vænlegra en að taka tvo menn, þá Guðm. Thoroddsen og Jón S. Hjaltalín, úr þessari nefnd, sem unnið hafði kauplaust undanfarin ár, og skipa þá í nýja nefnd með Gunnlaugi Claessen og Helga Tómassyni og einhverjum lækni enn, sem ég man ekki, hver var, án þess að tilkynna þetta í nefndinni áður. Þeir tveir læknar, sem kvaddir voru í þessa nýju nefnd, skrifuðu um hæl og sögðu, að þessi ráðabreytni kæmi sér undarlega fyrir, að vera teknir úr þeirri nefnd, sem þeir höfðu starfað í árum saman, og vera settir í nýja. Þeir létu í ljós óánægju sína yfir þessu í bréfi, sem ég hefi að vísu ekki hér við hendina, en get birt hvenær sem er, og mun sennilega gera, ef á þarf að halda. Þegar hæstv. ráðh. var spurður að því, hvort búið væri að skipa nýja n., svaraði hann því, að gamla nefndin gæti starfað líka. En þeir, sem eftir voru í n., álitu það heimsku eina, eins og það líka var, ef tvær nefndir ynnu að sama starfi, sín í hvoru lagi.

Ég sé, að tími er kominn til að fresta fundi, og mun því geyma það, sem ég á eftir að segja, þangað til fundur hefst að nýju. [Fundarhlé].

Það er æfinlega dálítið erfitt að taka upp þráðinn, þegar hann slitnar. En ég vona, að mér verði virt það til vorkunnar, þó að ég geti ekki rakið þann krákustíg, sem ræða hæstv. dómsmrh. var.

Ég vil taka það fram aftur, að svör hæstv. ráðh. komu svo lítt við aðalatriðunum í fyrirspurn minni, að ég get ekki með nokkru móti látið mér þau nægja. Eitt af því, sem ég spurði um, var t. d. það, hvort ekki ætti jafnskjótt sem spítalinn tæki til starfa að hefja lækna- og ljósmæðrakennslu í sambandi við hann. Þessu svaraði hæstv. ráðh. engu orði. það er svar gæti heitið, og vænti ég því, að hann gefi nú skýrari svör, næst þegar hann talar.

Eitt af mörgu, sem ég átti ósvarað í ræðu hæstv. dómsmrh., var það, að hann vændi okkur, sem í stj. landsspítalasjóðsins erum, um, að enn væri fé undir okkar hendi, sem ekki hefði verið lagt fram, þó að svo ætti að vera samkv. samningnum. Nú stendur svo í samningnum skýrum stöfum:

„Af fé því, sem landsspítalasjóðnum hefir þegar áskotnazt og safnað kann að verða meðan á byggingu landsspítalans stendur, og ætlað er, að nema muni að minnsta kosti 300.000 kr., lofar stj. landsspítalasjóðsins að leggja fram þ. á. (þ. e. 1925) allt að 75.000 kr.“ o. s. frv.

Þetta höfum við einnig gert, lagt fram 300 þús. kr. og meira. En sökum þess, að gjaldkerinn er erlendis, get ég ekki komið með nýjustu tölur, en verð að láta það nægja að vísa til síðasta ársreiknings, sem birtur er í Lögbirtingablaðinu 13. febr. Þar eru eignir sjóðsins taldar í fimm liðum, en alls eru þær 54057 kr. og 48 au. Stjórn landsspítalasjóðsins hefir ekki gert sér far um að leyna þessari litlu upphæð. Hinsvegar höfum við hugsað okkur, að þegar landsspítalinn loks tekur til starfa, myndi sennilega vanta einhvern þann hlut, sem væri svo nauðsynlegur, að gott væri, að hlaupið yrði undir bagga með að kaupa hann fyrir þetta fé. Hefi ég þar með hrakið þá ómaklegu og ósæmilegu aðdróttun hæstv. dómsmrh., að stj. landsspítalasjóðsins hafi lagt hönd á fé, sem henni réttilega bar að leggja fram til spítalans.

Svar hæstv. ráðh. viðvíkjandi því, hvar ætti að taka fé til kaupa á áhöldum fyrir spítalann, var svo óljóst, að ég get ekki látið mér það nægja. Þegar búið er að slá einhverju föstu með bindandi samningum milli tveggja aðilja, verða báðir að uppfylla þær skyldur, sem þeir hafa tekizt á hendur. Annars eru samningsrof. Í þessu tilfelli er það sjálf ríkisstj., sem að samningsrofunum stendur, svo skemmtilegt sem það er, því að það má hæstv. dómsmrh. vita, að á sínum tíma verður hægt að fá áburð hans í garð landsspítalasjóðsstjórnarinnar dæmdan og ómerkan gerðan.

Ríkið hefir tekið landsspítalann að sér með samningum við viðurkenndan aðila, og verður því að leggja honum sem öðrum opinberum stofnunum það fé, sem hann þarfnast. Og ég fæ ekki betur séð en að þessi regla sé viðurkennd í fjárl., því að í fjárl. fyrir árið 1929 eru áætlaðar 50 þús. kr. til rekstrar nýja spítalanum á Kleppi. Hefir hæstv. dómsmrh. því þá litið öðrum augum á skyldur ríkisins gagnvart þeirri stofnun en hann nú lítur á skyldur þess gagnvart landsspítalanum, er hann loks tekur til starfa.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri öllum kunnugt, af hve mikilli elju unnið hefði verið að landsspítalanum af núv. stj.. Þar er ég ekki sammála hæstv. ráðh. Mér finnst hafa verið unnið seint og silakeppslega. Þó að mér hafi ekki gefizt kostur á að fylgjast með í þeim framkvæmdum, sem snert hafa landsspítalann, eftir að hin nýja nefnd var skipuð, veit ég það með vissu, að það er fyrst nú upp á síðkastið, að unnið hefir verið að spítalanum nokkuð að ráði, frá því að hæstv. núv. stj. tók við völdum. Þó hafa þær framkvæmdir verið með þeim hætti, að mér þykir ástæða til að spyrjast fyrir um nokkur atriði þeim viðvíkjandi.

Vil ég þá fyrst leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort útboðum á framkvæmdum í sambandi við spítalann hafi verið hagað svo, að þau yrðu spítalanum sem hagkvæmlegust, eða hvort útboðsfresturinn hafi ekki stundum verið of stuttur. Og ennfremur, hvað af verkinu hafi verið unnið samkv. útboðum á hverjum tíma.

Er ekki þýðingarlaust að fá þessu svarað, því að það hefir mikið að segja frá kostnaðarlegu sjónarmiði. Hefir stj. einnig í þessu atriði brotið gerða samninga við landsspítalasjóðsstjórnina, þar sem landsspítalasjóðsstjórninni gafst ekki tækifæri til að hafa fulltrúa í þeirri n., sem um þetta fjallaði, og er landsspítalasjóðsstjórninni því ókunnugt um þessi atriði sem önnur, er að byggingu landsspítalans lúta.

Í fjórða lagi vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort alltaf hafi verið gætt fullrar hagsýni um byggingu landsspítalans. Ég spyr að þessu vegna þess, að vitanlegt er, að t.d. þá aðgerð á lóð spítalans, sem unnin var árið 1928, þurfti að miklu leyti að láta vinna upp aftur árið eftir. Hver var ástæðan til þess, að ekki var hægt að notast við það, sem unnið var 1928? Þessi endurbótarvinna mun hafa kostað allmargar þúsundir.

Ennfremur vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvernig háttað er reikningsskilum landsspítalans við aðrar stofnanir, t. d. Laugarvatnsskólann? Það er vitanlegt, að gólfflísar o. fl., sem pantað var til spítalans, var flutt austur að Laugarvatni og notað þar. Var þetta fært á reikning landsspítalans? Og þurfti hann ekki að bíða eftir þessu efni, vegna þessarar ráðsmennsku? Voru verkamennirnir ekki teknir frá starfi sínu við landsspítalann og sendir austur að Laugarvatni til þess að vinna þar? Og var það ekki heldur í óhag fyrir spítalann?

Ég hygg, að óhætt sé að segja það, að hæstv. stj. hafi ekki borið umhyggju fyrir landsspítalanum á nokkurn hátt, nema hvað hún hefir margbrotið gerða samninga og hundsað þá, sem að þessum málum hafa staðið. Við spítalann hefir verið unnið svo slælega, að fá dæmi eru til, sem betur fer. Og þótt samvizka hæstv. stj. virðist nú vera að vakna, er tómlæti hennar svo mikið, að enn vantar starfsmannahúsið og ýms önnur hús, sem ég drap á í dag og nauðsynleg eru, auk margs fleira, sem ég hefi minnzt á, og öllum getur með tímanum gefizt kostur á að kynna sér, svo framarlega sem hæstv. stj. bætir ekki svo ráð sitt í þessu falli, að byggingu landsspítalans verði lokið samkv. samningnum. Svo að ég noti orð hæstv. dómsmrh. sjálfs, er þetta, sem ég hefi nú drepið stuttlega á, að minni hyggju og allra sanngjarnra manna, allt til hins mesta „óhagræðis“ fyrir spítalann.

Ég vil ennfremur leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hversu langur dráttur hann búist við, að verði á því, að starfsmannahúsið komist upp. Er það mjög nauðsynlegt, að komið sé upp slíku húsi, til afnota fyrir þá, sem við spítalann vinna. Þykir slíkt nauðsynlegt á stórum heimilum, hvað þá heldur við svo stóra stofnun sem landsspítalinn er.

Það var erfitt að fylgjast með í hugsanaganginum í ræðu hæstv. dómsmrh., og þar sem ég svara honum í þeirri röð, sem ég reit aths. mínar niður eftir honum, er ekki von, að ræða mín verði skipuleg.

Eitt af því, sem hæstv. ráðh. ámælti mér sérstaklega fyrir, og um leið gömlu landsspítalanefndinni, sem hann útskúfaði með þeim ummælum, „að taka ætti þetta mál úr óvita höndum og fá það þeim, sem skyn bæru á það“, var það, að ég hefði viljað láta byggja þriggja millj. kr. spítala. Skal ég taka það fram, að þegar sá undirbúningur var hafinn og uppdrættir gerðir, átti ég ekki sæti í nefndinni, sem um það fjallaði. En eftir að ég hafði tekið sæti í nefndinni, þá var það sýnt og sannað af Guðmundi Hannessyni prófessor, sem var form. nefndarinnar, og viðurkennt af húsameistara ríkisins, að það hefði allt eins vel mátt ganga að 3 millj. kr. teikningunni, og byrja á byggingunni á þeim grundvelli, með það fyrir augum, að auka við hana er tímar liðu, og það er víst, að á þann hátt hefði spítalinn ekki þurft að verða dýrari fyrir núlifandi kynslóð, en hinsvegar miklu betur við hæfi komandi tíma. Hæstv. ráðh. þýðir því ekki að ætla sér að smíða úr þessu neina bombu til þess að sprengja á þeim, sem afskipti höfðu af þessu máli, áður en hann kom sjálfur til sögunnar, enda ber að skoða slíkt sem ráðþrota fálm og ómerkilega tilraun til þess að fara í kringum kjarna málsins. Hæstv. ráðh. átti sinn þátt í, að málið var tekið upp á núverandi grundvelli, sem að vísu er helzt til þröngur, en þó eftir atvikum viðunandi. Það hefir lánazt að láta bygginguna svara betur kröfum nútímans heldur en ef hnigið hefði verið að því ráði að hafa bygginguna á stærð við Landsbankann, eins og hæstv. ráðh. lagði til upprunalega. Það skal fúslega viðurkennt, að hæstv. dómsmrh. hefir stundum, áður en hann varð ráðh., talið sig þessu máli hlynntan. Ég hefi áður kannazt við það, enda skal hverjum manni unnað sannmælis af minni hendi. En hitt er alveg ósæmilegt af hæstv. ráðh., að vera að bera mig og aðrar konur, sem barizt hafa af þrautseigju og ósérplægni fyrir þessum málum, æruleysissökum. Sumar þessara ágætiskvenna eru nú látnar, og eiga þess því engan kost að bera af sér sakir, en margar þeirra eru enn á lífi, og um allar þeirra er það að segja, að þær eiga vissulega annað skilið en að sæta ámæli og vanþakklæti fyrir hið óeigingjarna starf sitt.

Og það er næsta hart að þurfa að taka við slíku af hendi heilbrigðismálaráðh. landsins. Hvað mig snertir, þá tek ég aðdróttanir hans ekki nærri mér, enda er maður nú farin að venjast ýmsu úr þeirri átt. Hæstv. ráðh. er ekki of gott að þjóna lund sinni á þennan hátt, ef honum finnst vera svölun að því.

Mér er ánægjuefni sú yfirlýsing hæstv. ráðh., að nýtízku þvottahús verði reist við spítalann, en það vil ég taka fram, að samkv. áliti ýmsra merkra lækna, sem ég hefi persónulega átt tal við á utanferðum mínum, þá er það óhyggilegt í mesta máta að blanda saman fötum af mörgum sjúkrahúsum, þó ekki sé nema í þvott. Það getur valdið smitunarhættu, enda er það mjög sennilegt, þar sem um er að ræða óhreinan fatnað af ýmislega veikum sjúklingum. Þetta vil ég leggja hæstv. ráðh. ríkt á minni og vænti þess, að hann og starfrækslunefndin taki þetta til athugunar.

Mér þykir rétt að lesa hér upp kafla úr samningnum, til þess að slá föstu um það, hver var upphaflega tilætlunin og hvaða skilyrði stj. landsspítalasjóðsins setti fyrir afhending þess fjár, sem sjóðurinn hefir lagt fram. En ég verð víst að láta nægja að segja efnið úr þessum kafla samningsins eftir minni, því að ljósin eru svo dauf hér í deildinni. Þess er þá fyrst að geta, að gert var ráð fyrir bæði skurðlækningum og lyfjalækningum og húsnæði í samræmi við það, ennfremur hæfilega stórri fæðingadeild, deild fyrir ljósmæðraefni með kennslustofum og íbúð. Einnig átti spítalinn að geta tekið á móti hjúkrunarnemum til kennslu, svo mörgum, sem þörf væri á á hverjum tíma. Að sjálfsögðu verða þessi skilyrði uppfyllt, hvað sem öðrum líður. Svo sem kunnugt er, hafa íslenzkar hjúkrunarkonur hingað til sótt lærdóm sinn til annara landa, sérstaklega til Norðurlanda, þar sem þær hafa notið sérstakra hlunninda fram að þessu ári. Norðurlönd hafa sýnt okkur og hinu íslenzka hjúkrunarkvennafélagi mikla lipurð, og bætt okkur upp, að þessu leyti, vöntun ríkisspítala, en nú hefir okkur verið tilkynnt, að við getum ekki notið lengur þessara fríðinda, þar sem við séum í þann veginn að koma okkur upp landsspítala sjálfir. Við getum því ekki vænzt þess framar, að spítalar Norðurlanda sjái hjúkrunarkonum okkar fyrir fræðslu og menntun í þeirri grein. Þetta vil ég einnig mega vænta, að hæstv. ríkisstjórn og starfrækslunefndin taki til yfirvegunar.

Að lokum vil ég drepa á eitt mikilsvert atriði, sem minnzt er á í samningnum og fastlega var gert ráð fyrir, að framkvæmt yrði. Á ég þar við það, að spítalinn væri útbúinn með tilliti til þess, að læknakennslan fari þar fram. Ég þykist ekki þurfa að eyða orðum um þetta, enda er það alkunnugt, að læknakennsla okkar er í stórri hættu sökum húsnæðisleysis við hina praktísku kennslu. Um þetta ber bréf prófessoranna. við læknadeild háskólans ljósast vitni, og ætla ég, að þeim sé bezt kunnugt um, hvar skórinn kreppir. Ég get ekki skilið, að hæstv. ráðh. þori að loka augunum fyrir þessu, en ef svo ógæfusamlega tækist til, þá mun það vissulega hefna sín síðar. Ég er þess fullviss, að hæstv. ráðh. getur ekki hundsað þessa bendingu og gengið á svig við gerðan samning, hvað góðan vilja sem hann annars kann að hafa til þess.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Vel má það vera, að mér hafi ekki tekizt að klæða mál mitt svo skýrum og skipulegum búningi, sem æskilegt væri, en á því á hæstv. dómsmrh. alla sök, því að ég hefi tekið liðina í sömu röð og hann, og þarf því engan að furða, þótt efnisniðurröðun sé ekki í því lagi, sem vera ber. En góður málstaður verður aldrei troðinn undir fótum til langframa, og þess vil ég biðja hæstv. dómsmrh. að minnast. Málefnið er mér aðalatriðið, en hitt skiptir minna máli, þótt ég verði fyrir nokkru aðkasti frá hans hendi, því að last slíks manns sem hæstv. dómsmrh. lætur sem lof í eyrum allra góðra manna.